Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi sem fór fram 9. febrúar 2023
Forsætisráðherra, ráðherrar, félagar Viðskiptaráðs og aðrir góðir gestir.
Orkumálin eru mikið í umræðunni um þessar mundir. Sem er kannski ekkert skrýtið þar sem helmingur landsmanna hefur upplifað rafmagnsleysi eða skort undanfarin tvö ár samkvæmt nýrri skoðanakönnun Viðskiptaráðs.
Fljótlega eftir síðasta þing kom stjórn Viðskiptaráðs saman og hóf umræðu um hvaða málefni við ættum að taka fyrir næst. Það varð strax ljóst hvað helst brann í brjósti stjórnarmanna: ORKUMÁLIN.
Ég tel allavegana að fastagestir sundlaugar Selfoss sé sammála okkur að málið þarfnist umræðu og aðallega lausna.
Í dag ætlum við því að gera heiðarlega tilraun til að ná utan um hvar við stöndum gagnvart þeim markmiðum sem við höfum sett okkur, hvaða orkulausnir eru í boði eða hvort við hreinlega stefnum í það að vera orkulaus í náinni framtíð.
En byrjum á byrjuninni. Hvaða skuldbindingar höfum við Íslendingar tekið á okkur á alþjóðavísu og að eigin frumkvæði?
Við höfum skrifað undir Parísarsáttmálann sem skuldbatt okkur til að minnka losun um 40% fyrir árið 2030 frá því sem hún var árið 1990. Það markmið hefur nú verið uppfært í 55%.
Og svo er það lögfest markmið okkar um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Sem mun ekki raungerast nema að við förum í orkuskipti og verðum óháð jarðefnaeldsneyti.
Bæði eru þetta verðug og göfug markmið en það verður að viðurkennast að það er vandséð að við getum staðið við þessar skuldbindingar.
Staðreyndin er sú að við þurfum að rúmlega tvöfalda þá raforku sem við framleiðum í dag til þess að standa undir orkuskiptunum, bættum lífskjörum og þörfum atvinnulífs og almennings.
En þetta þurfa ekki að vera örlög okkar. Við Íslendingar stöndum nefnilega frammi fyrir gríðarstóru tækifæri og höfum meira að segja þó nokkuð forskot á heimsbyggðina.
Tækifærið felst í því að verða fyrsta landið í heiminum til að nota aðeins sjálfbæra orku og standa þannig við skuldbindingar okkar auk þess sem við gætum fest okkur enn betur í sessi sem grænt land á alþjóðavísu.
Ég tel að sjálfbærni í orku sé eitt stærsta tækifæri okkar sem þjóðar.
Og ég leyfi mér að fullyrða þetta út frá viðskiptalegum hagsmunum okkar Íslendinga, fyrir utan þann mikla ávinning sem af þessu hlýst fyrir umhverfi og loftslag.
Ef við getum boðið uppá nóg af grænni orku mun það laða að nýsköpunarfyrirtæki sem munu skapa framtíðargjaldeyristekjur.
Svo er það áferð og markaðssetning okkar Íslendinga gagnvart umheiminum og ferðamönnum, við eigum að markaðssetja okkur sem sjálfbærasta landið og vera í fararbroddi þegar kemur að þessum málum í allri okkar nálgun.
Ég upplifi stundum að okkur finnist við vera gera þetta. Ég tel samt sem áður að við getum gert þetta miklu betur og markvissar.
Til að grípa tækifærið þá þurfum við taka ákvarðanir og búa okkur til skýra sýn og framkvæma. Framkvæma er lykilorðið hér, plönin eru að einhverju leyti til staðar en það gerist bara ekkert þar sem þetta sofnar hreinlega í kerfinu.
Ef það verður ekki hugarfarsbreyting hjá okkur þá gæti tækifærið breyst í einhverskonar byrði. Því ef við stöndum ekki við skuldbindingar okkar þá mun það á endanum fara að kosta okkur sem þjóð, hreinlega auka gjaldeyrisnotkun okkar í stað sparnaðar.
Leiðin er ekki að flytja vandamálið til annarra landa. Að loka álverum eða annarri stóriðju er ekki lausnin.
Ég tel að við þurfum að vera stærri en það og ábyrgari.
Hér á landi framleiðum við vörur sem er mikil eftirspurn eftir í heiminum með umhverfisvænni hætti en annars staðar er gert.
Jörðin er móðurfélagið og endanleg afkoma hennar batnar ekki með því að færa verkefni úr vel reknu dótturfélagi í annað verra.
En að öðru. Ef Viðskiptaþingið í ár hefði verið skipulagt viku síðar, hefðum við líklega þurft að fresta, því talsverðar líkur eru á að þetta hótel verði ekki starfrækt vegna yfirvofandi verkfalla.
Ég er mjög hugsi yfir þeirri atburðarás og þeim leðjuslag sem á sér stað um þessar mundir. Það að örfáar manneskjur geti haldið heilu landi í gíslingu og skrumskælt vinnumarkaðslöggjöfina eins og verið er að gera er með öllu óboðlegt.
Það er merkilegt hve margir virðast hafa gleymt því hvernig fór fyrir sósíalisma í heiminum og nú er það í augum sumra boðleg hugmynd að enginn fái laun undir meðaltali! Það þarf ekki mikla stærðfræði til að sjá að það gengur ekki upp.
Upplifun mín er að þetta er hætt að snúast um baráttu fyrir bættum hag verkafólks, þrátt fyrir að allar aðgerðir séu gerðar í nafni þess og lýðræðis.
Tilgangurinn virðist vera að koma þeirra eigin pólitísku skoðunum á framfæri, búa til gjá á milli atvinnurekanda og starfsmanna og jafnvel að valda skaða.
Við megum ekki gleyma staðreyndum. Kaupmáttur launa hefur aukist um 43% síðustu árin 10 árin á Íslandi, 7% á tíma lífskjarasamningana. Það eru frábærar fréttir fyrir launafólk í landinu og okkur sem þjóð, sem ber að fagna og er öfundsvert á alþjóðavísu.
Erum við kannski orðin svona meðvirk í íslensku atvinnulífi og bara fegin að ekki hafi komið til meira átaka við önnur verkalýðsfélög? Mér finnst lítil sem engin umræða hafa verið um hversu mikill kostnaður er af samningunum fyrir atvinnulífið.
Samningarnir eru nefnilega mjög dýrir, og sérstaklega fyrir hluta íslensks atvinnulífs. Þeir eru mjög íþyngjandi fyrir fyrirtæki þar sem uppistaðan er fólk í vaktavinnu og launin eru á lægri endanum og munu reynast þungur baggi ofan á allar aðrar kostnaðarhækkanir sem dynja á okkur um þessar mundir.
Svo er það verðbólgan. Hún er eitthvað sem við erum öll að glíma við og við sem hér sitjum berum mikla ábyrgð þegar að henni kemur. Við tökum þeirri ábyrgð ekki af léttúð og vöndum okkur nú sem endranær.
En það er ekki bara atvinnulífið sem ber ábyrgðina og því minni ég á að hið opinbera getur einnig dregið saman og aukið framleiðni.
Seðlabankinn virðist vera á sama máli en í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem birtist í fyrradag var fjallað um versnandi verðbólguhorfur og í því samhengi bent á að útlit væri fyrir að aðhald fjárlaga verði minna en bankinn gerði upphaflega ráð fyrir.
Það var til dæmis virkilega ánægjulegt að sjá Guðlaug Þór kynna áform um að sameina stofnanir og einfalda starfsemina þannig að um 650 milljónir króna sparist á ári.
Það eru fullt af ákvörðunum sem ráðherrar geta tekið sem myndu hjálpa okkur í baráttunni, eins og til dæmis lækkun á verndartollum á frönskum kartöflum, sem engan eru að vernda lengur og hætta með tollkvóta fyrir iðnaðarframleiðslu á hvítu kjöti. Bæði þessi dæmi myndu gagnast neytendum talsvert.
Viðfangsefnin sem bíða okkar eru nokkur eins og þið heyrið. Reyndar eru mörg þeirra eitthvað sem bíður úrlausnar allrar heimsbyggðarinnar.
Ég þreytist ekki á að segja það að við Íslendingar erum í öfundsverðri stöðu. En einhverra hluta vegna gerum við okkur oft ekki grein fyrir því sjálf og eigum það til að gera okkur lífið erfitt fyrir.
Við búum við einn mesta jöfnuð í heimi. Hér er lítið sem ekkert atvinnuleysi. Hér er meiri hagvöxtur en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hér er orkuverð ekki rjúka upp um þessar mundir og svona gæti ég haldið áfram að telja.
Grípum tækifærin og hættum að gera okkur lífið svona erfitt.