Viðskiptaráð Íslands

Breytingar á landbúnaðarkerfinu allra hagur

Viðskiptaráð Íslands efndi í dag til morgunverðarfundar um íslenska landbúnaðarkerfið. Á fundinum var fjallað um æskilegt fyrirkomulag til að hámarka ávinning greinarinnar, annars vegar frá sjónarhóli neytenda og hins vegar framleiðenda.

Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, fjallaði um landbúnaðarkerfið út frá sjónarhóli neytenda. Þar kom fram að núverandi kerfi feli í sér innflutningshömlur, ómarkvissan stuðning til bænda, framleiðslutakmarkanir og opinbera verðlagningu mjólkurafurða og því ýmis tækifæri til umbóta frá sjónarhóli neytenda. Daði benti m.a. á að afnám tolla á grænmeti í byrjun aldarinnar hafi skilað sér í lækkuðu verði og aukinni samkeppnishæfni greinarinnar og hækkuðu heildarverði til grænmetisbænda. Þær breytingar hafi því verið gott dæmi um umbætur sem skiluðu neytendum ávinningi. Daði sagði núverandi styrkjakerfi óheppilegt og benti á að beingreiðslur skili sér illa til bænda. Þannig skapist umtalsverður kostnaður fyrir skattgreiðendur vegna styrkjanna á sama tíma og þeir tefji fyrir eðlilegri framþróun í landbúnaði. Efla þurfi heilbrigða hvata og byggja upp kerfi sem stuðli að hagkvæmum rekstri og styðji bændur til að nýta þau tækifæri sem til staðar eru.

Glærur Daða Más má nálgast hér

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, fjallaði um landbúnaðarkerfið frá sjónarhóli framleiðenda. Hann sagði mikilvægast að tryggja greininni fyrirsjáanlegt starfsumhverfi og rúman aðlögunartíma þegar breytingar eru gerðar. Æskilegt kerfi að mati Bændasamtakanna fæli í sér markmið um bætta afkomu bænda, bætta samkeppnishæfni landbúnaðarins, aukna nýliðun og fjárfestingu. Miklir möguleikar væru einnig í jarðrækt en ræktað land er um 116.000 ha og ræktanlegt land um 600.000 ha. Að lokum benti hann á það mikla matvælaöryggi sem til staðar er á Íslandi og mikilvægi þess að viðhalda því áfram.

Glærur Sindra má nálgast hér

Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra, sagði í umræðum að núverandi kerfi gæti ekki orðið framtíðarkerfi fyrir íslenskan landbúnað. Við endurnýjun búvörusamninga taldi hann æskilegast að gera tollverndina hluta af heildarsamningi, draga úr beinum stuðningi og haga reglum um styrkveitingar með þeim hætti að bændur geti með auðveldari hætti fært starfsemi sína á milli búgreina.

Viðskiptaráð mun gefa út skoðun um landbúnaðarmál í byrjun næstu viku. Í henni verður fjallað um helstu áskoranir greinarinnar og möguleika til umbóta.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024