Heilbrigðismál: Brýn þörf á langtímastefnu

Í morgun fór fram morgunverðarfundur Viðskiptaráðs um stöðu og framtíðarþróun í heilbrigðismálum. Um 120 manns mættu á fundinn sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík. Þátttakendur í dagskrá voru sammála um að brýn þörf sé á mótun langtímastefnu þegar kemur að heilbrigðismálum. Það eigi við hvort sem litið er til fjármögnunar, forvarna, geðheilbrigðis, kostnaðarþátttöku, kerfisbreytinga eða annarra þátta.

Stórar áskoranir á sjóndeildarhringnum
Fundarstjóri var Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs. Hann hóf fundinn á samantekt á nýrri skoðun Viðskiptaráðs sem ber heitið Höldum heilsunni: staða og framtíðarhorfur í heilbrigðismálum. Í máli Hreggviðs kom meðal annars fram að stórar áskoranir eru framundan vegna öldrunar þjóðarinnar. Samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs munu útgjöld til heilbrigðisþjónustu vaxa ríflega þrefalt hraðar á næstu 30 árum samanborið við síðastliðin 30 ár. Vænlegustu úrræði stjórnvalda séu að auka hagkvæmni og afmarka þjónustu í meiri mæli en nú er gert. Kynningu Hreggviðs má nálgast hér.

Stefna og kerfisbreytingar í farvatninu
Næstur tók til máls Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. Í máli hans kom meðal annars fram að þörf sé á stefnu sem nái yfir lengri tíma en kjörtímabil, sem hafi verið of mikið tilhneigingin til þessa. Í því skyni sé unnið að mótun heilbrigðisstefnu, geðheilbrigðisstefnu og lyfjastefnu í samstarfi við önnur Norðurlönd. Jafnframt sé bygging nýs Landsspítala lykiláfangi, þá verði rekstrargrundvöllur stærstu heilbrigðisstofnunarinnar skýr til lengri tíma sem lækki kostnað við rekstur heilbrigðiskerfisins.

Þá nefndi Kristján dæmi um kerfisbreytingar sem eru í farvatninu og ætlað er að bæta heilbrigðisþjónustuna. Hann nefndi breytingar á greiðsluþátttöku til að sjúkrakostnaður sjúklinga keyri ekki úr hófi fram, eflingu heilsugæslunnar og aukna áherslu á þjónustusamninga þar sem hið opinbera greiðir fyrir gæði og umfang þeirrar þjónustu sem heilbrigðisstofnanir veita.

Hægt að auka hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu
Á eftir Kristjáni hélt Björn Zoëga, formaður verkefnastjórnar um betri heilbrigðisþjónustu, erindi um fjármögnun heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Í máli hans kom fram að mögulegt sé að auka hagkvæmni umtalsvert í opinbera kerfinu án þess að það bitni á þjónustu við sjúklinga. Því til stuðnings fór hann yfir hagræðingaraðgerðir á Landspítala í kjölfar falls fjármálakerfisins. Í þeirri yfirferð kom fram að þótt umtalsverðir fjármunir hafi verið sparaðir hafi árangur spítalans á lykilmælikvörðum batnað á sama tímabili.

Í máli Björns kom fram að eitt brýnasta mál komandi ára sé að móta skýra og heildstæða stefnu á sviði heilbrigðismála, forgangsraða og framleiðnitengja fjármögnun í auknum mæli. Þá hvatti hann stjórnvöld til að ráðast í byggingu nýs Landspítala við Hringbraut samkvæmt fyrirliggjandi tillögu.

Því fyrr, því betra
Að loknum erindum fóru fram pallborðsumræður með Katrínu Jakobsdóttur, alþingismanni, og Berglindi Víðisdóttur, framkvæmdastjóra Karitas. Í máli Katrínar kom fram að mikil hagræðing hafi náðst á Landspítala á síðastliðnum árum. Til framtíðar litið þurfi að leggja aukna áherslu á lýðheilsu og forvarnir til að auka heilbrigði Íslendinga án þess að leita þurfi til kostnaðarsamra meðferðarúrræða í stórauknum mæli. Sú vinna þurfi að fara fram í fleiri ráðuneytum en einungis heilbrigðisráðuneyti. Nefndi hún dæmi um reynsluna hérlendis af jákvæðum heilsufarsáhrifum hollari matvæla í mötuneytum í framhaldsskólum. Þá gagnrýndi hún að stöðugt væri verið að hringla með stefnu í heilbrigðismálum og nefndi í því samhengi sundurlyndi ríkisstjórnarinnar varðandi staðsetningu nýs Landspítala.

Berglind sagði mikilvægt að nefna að tölfræði næði ekki að grípa líðan einstaklinga. Þá væri brýnt að grípa snemma inn í í heilbrigðisþjónustu, til dæmis með forvörnum og heimsóknum í heimahús áður en einstaklingar eru lagðir inn á deildir. Þá sé skortur á framtíðarstefnu í heilbrigðismálum hérlendis. Hún sagði að þjónustusamningur sem Karitas undirritaði við Sjúkratryggingar Íslands hafi gefið góða raun. Þá sé mikilvægt að fjölbreytni í rekstrarformum sé viðhaldið. Í því samhengi þurfi að ganga lengra við að aðgreina fjármögnun og rekstur heilbrigðisþjónustu og færa fjármögnun í meiri mæli til Sjúkratrygginga Íslands. 

Myndir frá fundinum má sjá á  Facebook síðu Viðskiptaráðs

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Viðskiptaráð styður hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks

Umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, ...
8. maí 2023

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022