Viðskiptaráð Íslands

Tækifæri vannýtt í nýjum búvörusamningum

Viðskiptaráð Íslands lýsir yfir vonbrigðum með nýja búvörusamninga. Samningsaðilar hafa nær alfarið litið framhjá þeim umbótatillögum sem lagðar hafa verið fram um leiðir til aukinnar hagkvæmni í íslenskum landbúnaði. Þá eru tækifæri til að auka framleiðni greinarinnar vannýtt og fela samningarnir í sér afturför þegar kemur að aukinni stærðarhagkvæmni og alþjóðlegri samkeppni. Hvetur ráðið Alþingi til að synja samningunum staðfestingar.

Litið framhjá umbótatillögum
Árið 2013 var Samráðsvettvangur um aukna hagsæld stofnsettur til að leggja fram og ræða tillögur að aukinni hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið. Í vinnu á vegum vettvangsins var áhersla lögð á að tryggja breiða aðkomu ólíkra aðila svo umbótatillögur myndu endurspegla heildarhagsmuni. Verkefnisstjórn vettvangsins lagði í kjölfarið fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi stuðnings við landbúnað með aukna hagkvæmni að leiðarljósi.

Í tillögunum var lagt til að jarðræktarstuðningur yrði ný undirstaða landbúnaðarstuðnings og að dregið yrði úr sértækum stuðningi við einstakar greinar landbúnaðar. Þá var lagt til að dregið yrði úr tollvernd til að auka samkeppnisaðhald landbúnaðargreina. Tillögunum var ætlað að tryggja að stuðningur við landbúnað rynni í auknum mæli til bænda og veitti þeim aukið frelsi. Á sama tíma myndi framleiðni í greininni aukast og hagur neytenda vænkast samhliða.

Lítil aukning jarðræktarstuðnings
Í nýjum búvörusamningum er að mestu litið framhjá þessum tillögum og í sumum tilfellum gengið gegn þeim. Í samningunum er áformað að auka jarðræktarstuðning úr 1% af heildarstuðningi upp í 5,3% árið 2026 – samanborið við tillögu um 50% hlutfall frá Samráðsvettvangnum. Með samningunum er því áformað að fara um einn tíunda í þá átt sem þar var lagt til á tíu ára tímabili.

Sértækur stuðningur verður óhagkvæmari
Ekki er dregið úr sértækum stuðningi við einstakar greinar landbúnaðar í nýjum samningum þrátt fyrir að það hafi verið ein helsta meinsemd stuðningskerfisins hingað til. Greiðslumark verður áfram til staðar í mjólkuriðnaði að minnsta kosti til ársins 2019. Jafnframt eru greiðslur vegna framleiddrar mjólkur auknar sem leiðir til offramleiðslu og óhagkvæmni. 

Svipaða sögu er að segja í sauðfjárrækt: þótt stefnt sé að því að afnema greiðslumark í þeirri grein á nokkurra ára tímabili mun fjármagnið ekki færast í almennan jarðræktarstuðning. Þess í stað fer hann í svokallaða gæðastýringu ásamt þess að tveir nýir stuðningsflokkar eru settir á fót: gripagreiðslur – stuðningur á hverja kind burtséð frá nytjum – og býlisstuðning sem er fyrst og fremst stuðningur til lítilla búa. Verður því stuðningur í mjólkur- og sauðfjárrækt annað hvort látinn óbreyttur eða færður í óhagkvæmara form.

Hvatar gegn stærðarhagkvæmni
Lág arðsemi og lítil framleiðni hafa lengi verið höfuðáskoranir íslensks landbúnaðar. Hefur Viðskiptaráð bent á að auka þurfi samkeppni og stærðarhagkvæmni svo greinin geti rétt úr kútnum og orðið samkeppnishæf á alþjóðavettvangi. Í nýjum búvörusamningnum felast hins vegar hvatar gegn aukinni stærðarhagkvæmni – einum stærsta drifkrafti framleiðnivaxtar. Það er til dæmis gert með þaki á tilkalli til stuðnings sem nemur 0,4% af heildarstuðningi í sauðfjárrækt og 0,7% í nautgriparækt. Þar sem hið nýja fyrirkomulag er án kvóta er nú kappsmál fyrir bændur að ná í hámarkshlutdeild styrksins sem fyrst en stækka ekki umfram þetta þak því þá á viðkomandi aðili ekki rétt á frekari stuðningi.

Dregið úr alþjóðlegri samkeppni
Í nýjum samningum má finna ákvæði sem skuldbindur ráðherra til að beita sér fyrir umtalsverðri hækkun tolla á ostum og ákveðnum mjólkurvörum. Slík breyting er til þess fallin að draga úr samkeppnisaðhaldi landbúnaðar í formi keppni við alþjóðlega framleiðendur um hylli neytenda þegar kemur að verðum og gæðum. Að mati ráðsins ætti ákvæði þetta ekki að vera hluti af samningi um beingreiðslur til íslensks landbúnaðar enda ekki hlutverk framkvæmdavaldsins að auka tollvernd í samningum við þriðja aðila.

Einhliða endurskoðunarákvæði
Loks má nefna að í samningunum er kveðið á um endurskoðun tvisvar sinnum, árin 2019 og 2023. Í endurskoðunarákvæðunum eru ekki tilgreint árangursviðmið sem landbúnaðargreinarnar þurfa að uppfylla til að njóta áfram stuðnings. Þvert á móti má þar finna ákvæði um að stuðningur skuli aukinn ef framleiðsla nái ekki ákveðnum markmiðum. Endurskoðunarákvæðin geta því einvörðungu leitt til aukinna niðurgreiðslna til landbúnaðarins í framtíðinni.

Af framangreindu má telja ljóst að við samningagerðina hafa þröngir skammtímahagsmunir verið hafðir að leiðarljósi í stað heildarhagsmuna. Að mati Viðskiptaráðs eru samningarnir afar óhagfelldir skattgreiðendum sem og neytendum. Þá eru þeir til þess fallnir að halda íslenskum landbúnaði áfram í fjötrum lágrar arðsemi og lítillar framleiðni til næstu tíu ára. Ráðið hvetur Alþingi til að synja samningunum staðfestingar.

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024