Í fjárlögum ársins 2016 er gert ráð fyrir 15 ma. kr. afgangi en í umsögn Viðskiptaráðs kemur fram að launakostnaður sé verulega vanáætlaður og því geti fjárlagafrumvarpið tæplega talist hallalaust. Samkvæmt útreikningum ráðsins verður 1 ma. kr. halli sökum þeirra launabreytinga sem ekki eru teknar með í reikninginn í fjárlögum. Ekki er tekið mið af úrskurði gerðardóms í ágúst í kjaradeilu BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og því gefi frumvarpið ekki rétta mynd af stöðunni.
Útgjaldaaukning ríkissjóðs nemur 27 ma. kr. á milli ára sem jafngildir um 4,9% hækkun. Ríflega helming aukningarinnar má rekja til hærri launakostnaðar. Launaútgjöld hækka um 15 ma. kr. á milli ára, sem jafngildir um 10% hlutfallslegri aukningu. Þar gætir áhrifa þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið við fjölmenna hópa opinberra starfsmanna.
Þessu til viðbótar virðist sem svo að krafa um samdrátt útgjalda hjá ráðuneytum og stofnunum sé nú horfin og þess í stað er stofnað til nýrra útgjalda sem nema 12 ma. kr. Þetta er gert þrátt fyrir að efnahagsleg rök hnígi að því að auka aðhald í opinberum rekstri til að draga úr ofþenslu á því uppgangstímabili sem nú er hafið hérlendis.
Samandregið er það mat Viðskiptaráðs að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 marki skynsamlega stefnu þegar kemur að niðurgreiðslu skulda og innleiðingu tímabærra skattalækkana. Sé hins vegar raunverulegur vilji til að draga úr þensluhvetjandi áhrifum í hagstjórn hérlendis ætti fyrst og fremst að horfa til lækkunar útgjalda og skynsamlegri samninga á vinnumarkaði.
Tengt efni:
RÚV – Fjárlög tæplega hallalaus