Jóhann J. Ólafsson, fyrrverandi formaður og núverandi heiðursfélagi Viðskiptaráðs, hefur fært ráðinu að gjöf eftirlíkingu af ferðaskrifborði sem Thomas Jefferson notaði til skrifa sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna. Andri Þór Guðmundsson, núverandi formaður ráðsins, veitti gjöfinni viðtöku.
Að sögn Jóhanns, sem gegndi embætti formanns Viðskiptaráðs frá 1986 til 1992, er gjöfin táknræn fyrir þá lífssýn sem Jefferson og aðrir stofnfeður Bandaríkjanna höfðu að leiðarljósi við ritun yfirlýsingarinnar. Nefndi Jóhann þar sérstaklega það sjónarmið að völd hins opinbera liggi hjá borgurunum og stjórnvöld starfi ávallt í umboði þeirra. Þegar hið opinbera hætti að þjóna hagsmunum borgaranna þá skuli vera réttur þeirra að breyta fyrirkomulagi þess eða draga úr völdum þess eftir því sem þegnarnir telja henta best til að ná markmiðum sínum um öryggi og hamingju.
Jóhann notaði tækifærið til að hvetja ráðið til að halda á lofti gildum einstaklingsfrelsis, frjáls framtaks og eignarréttar. Að sögn Jóhanns eru þetta hornsteinar frjálsra og lýðræðislegra samfélaga þar sem þegnar njóta frelsis og batnandi lífskjara. Þetta sé sérlega mikilvægt þegar stjórnvöld geri tilraunir til aukinna inngripa í líf þegnanna, ýmist með sköttum, takmörkunum á eignarrétti eða óhóflegri reglusetningu.
Viðskiptaráð þakkar Jóhanni innilega fyrir gjöfina. Ráðið hefur frá árinu 1917 verið vettvangur þeirra sem deila sýn um frelsi og framfarir í íslensku samfélagi. Ráðið mun halda áfram að vinna að bættu umhverfi allra sem stunda rekstur og skapa þannig forsendur fyrir aukinni verðmætasköpun og bættum lífskjörum.
Lesa má nánar um ferðaskrifborðið á vefsíðu Smithsonian stofnunarinnar: https://www.si.edu/newsdesk/snapshot/thomas-jeffersons-desk (opnast í nýjum flipa)
-
Uppfært 30. okt. kl. 14:15: Íslenskri þýðingu á gjöfinni nú verið breytt úr „hnéborð“ yfir í „ferðaskrifborð“ eftir ábendingu frá lesanda. Jefferson sjálfur kallaði fyrirbærið „writing box,“ sem útleggja mætti sem skrifkassa á íslensku. Þá er gripurinn einnig kallaður „lap desk.“ Hins vegar er borðið kallað „portable desk“ á vefsíðu Smithsonian stofnunarinnar, sem er jafnframt besta heimildin um gripinn. Ferðaskrifborð þykir því réttasta þýðingin yfir á íslenskt mál.