VÍB og Viðskiptaráð Íslands boðuðu til fundar með ráðamönnum ríkis og borgar auk fulltrúa atvinnulífsins í Hörpu í dag. Á fundinum voru niðurstöður úttektar IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni Íslands árið 2016 kynntar. Þema fundarins í ár var höfuðborgarsvæðið og áhrif þess á samkeppnishæfni landsins. Einnig var velt upp þeirri spurningu hvaða áhrif skipulagsmál, skólastarf og menningarframboð hafi þegar kemur að því að laða til landsins erlenda sérfræðinga, alþjóðleg fyrirtæki og fjárfestingu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, flutti opnunarávarp og sagði erfitt að meta stöðu Íslands út frá tölfræðigögnum einum saman. Huglægt mat spili einnig inn í en Íslendingum hætti til að hafa minni trú á eigin stöðu en gögnin gefa til kynna. Sigurður Ingi sagði þróunina þó vera í rétta átt enda væri nú um besta árangur eftir hrun að ræða.
Í kynningu Björns Brynjúlfs Björnssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs, á niðurstöðum úttektarinnar kom fram að Ísland hækkar um eitt sæti á listanum milli ára og situr nú í 23. sæti. Bætt efnahagsleg frammistaða vegur þyngst í hækkuninni en Ísland fór upp um fimmtán sæti í þeim flokki. Einnig fór Ísland upp um tvö sæti í flokknum skilvirkni í atvinnulífi og um fimm sæti í skilvirkni hjá hinu opinbera. Staða samfélagslegra innviða er þó lakari en áður og lækkar Ísland um sex sæti í þeim flokki. Björn sagðist hefði viljað sjá hraðari framfarir en Ísland þokist smám saman upp listann.
Innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, beindi sjónum að stöðu erlendra sérfræðinga á Íslandi og þeirri alþjóðlegu samkeppni sem ríkir um þá. Ólöf sagði vaxandi alþjóðageira hafa þörf fyrir erlenda sérfræðinga og því mikilvægt að skapa umhverfi sem laðar þá að. Afnema þurfi hindranir, gera upplýsingar aðgengilegar og fjölga þurfi menntastofnunum sem geta tekið á móti börnum erlendra sérfræðinga. Með þessu náist fram bætt samkeppnishæfni Íslands til framtíðar.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri fjallaði um samspil höfuðborgarsvæðisins og samkeppnishæfni og benti á mikilvægi þess að laða til sín sterk nýsköpunarfyrirtæki. Borgir sem næðu árangri á því sviði væru að stinga aðrar borgir af. Hann sagði ýmis verkefni vera í bígerð sem hafa það að markmiði að gera Reykjavík leiðandi í grænni þróun og verða alþjóðleg menningarborg. Í því samhengi benti hann á mikilvægi nýrra útlendingalaga. Einnig beindi hann sjónum að þéttingu byggðar og mikilvægi þess að koma á afkastameiri almenningssamgöngum og sagði þetta vera lykilatriði til framtíðar. Því til viðbótar væri stöðugleiki í stefnumótun lykilatriði í að ná fram samkeppnishæfni.
Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, og Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, voru hvorugt sérlega ánægð með niðurstöðuna. Katrín Olga benti á að Ísland væri ennþá aftarlega varðandi stjórsýsluna og stjórnarhætti fyrirtækja og sagðist vilja sjá meira gerast í þeim málum og hraðar. Sveinn sagði ekki margt sýna framför út frá sjónarhóli alþjóðageirans og að Ísland væri ekki að ná árangri í menntamálum. Bæði voru þau sammála um að efla þurfi umhverfi fyrirtækja sem byggja á hugviti og leggja aukna áherslu á endurbætur í menntakerfinu.
Myndir frá fundinum eru aðgengilegar á Facebook
Glærukynningar:
Upptaka frá fundinum: