Viðskiptaráð Íslands

„Ísland að verða venjuleg þjóð í peningastefnu“

„Seðlabankinn gat lækkað vexti og samt gert ráð fyrir hjaðnandi verðbólgu. Ísland er því að verða eins og venjuleg þjóð í því hvernig við beitum peningastefnunni.“ - Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri

Árlegur Peningamálafundur Viðskiptaráðs var haldinn í gær undir yfirskriftinni „Ótroðnar lágvaxtaslóðir.“ Yfirskriftin ber með sér nýja tíma því undanfarið hafa háir vextir en ekki lágir verið helsta umræðuefni fundarmanna. Fyrir ári var yfirskriftin til að mynda „Hávaxtaland að eilífu?“

Hér má sjá myndaalbúm frá fundinum.

Vaxtastigið var ekki það eina sem heyrði til tíðinda á fundinum því bæði var fundurinn fyrsti fundur Ásgeirs Jónssonar, nýs seðlabankastjóra, auk þess sem Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, vitnaði í ógleymanleg orð Gvendar Jaka frá tímum þjóðarsáttarinnar, sem enda á orðunum: „Það þýðir ekki að keyra áfram einhverjir sérhópar upp yfir aðra því þá er þetta hrunið og það hrynur yfir þá hina sömu.“

Fundurinn hófst á stuttu erindi Védísar Hervarar Árnadóttur, samskipta- og miðlunarstjóra Viðskiptaráðs. Þar sagði hún í gamansömum tón að það „stefni mögulega í kvíðaröskun hjá viðskiptalífinu öllu ef Seðlabankinn heldur áfram lækkunarfasa og hávaxtaumræðan er fyrir bí - það þurfi að endurraða öllum vírunum í hausnum til að stilla sig inn á umræðu um lága vexti.“

Í kjölfarið var myndband sýnt þar sem Kringlugestir voru yfirheyrðir um hlutverk Seðlabankans, seðlabankastjóra, áhrif peningastefnunnar á daglegt líf þeirra og fleira.

Í ræðu sinni fagnaði Katrín Olga því að stýrivextir hefðu lækkað úr 4,5% í 3% milli peningamálafunda og útlit gæti verið fyrir enn frekari vaxtalækkanir. Í því samhengi benti hún á að viðskiptalífið hefði sannanlega lítinn smekk fyrir háum vöxtum. „En hefðum við smekk fyrir engum vöxtum eða neikvæðum vöxtum þegar til framtíðar er litið?“ spurði Katrín Olga.

Hún sagði fundinn einnig marka tímamót að því leyti að hagkerfið væri nú í fyrsta skipti í langan tíma ekki í uppsveiflu. Hagtölur hefðu þó að mati Katrínar verið nokkuð mótsagnakenndar, þar sem flugfélag hefði fallið og ferðamönnum fækkað en á sama tíma hefði þjónustujöfnuður útflutnings haldist mjög sterkur og jafnvel batnað á öðrum ársfjórðungi.

„Áfallið er því öllu minna en við óttuðumst flest og það má velta fyrir sér hvers vegna. Er það vegna þess að peningastefnan er að virka? Eða er það vegna þess að kostir krónunnar eru loksins að koma fram? Endurspeglar þessi staða kannski, sálræna líðan þjóðarinnar, sem nú einkennist af varkárni og ákveðinni hræðslu um að hlutirnir séu verri en þeir eru? Eða getur verið að fyrirtæki og heimili séu orðin sveigjanlegri og eigi auðveldara með að takast á við mögru árin? Það verður fróðlegt að sjá hvort við getum fengið einhver svör við þessum vangaveltum í dag,“ sagði Katrín Olga.

Ásgeir Jónsson vakti mikla lukku á þessum fyrsta fundi sínum sem seðlabankastjóri. Hann var léttur í lund og henti gaman að því að mögulega væri aukin bjartsýni fyrirtækja, sem hann sagði frá á fundinum, til komin vegna nýs Seðlabankastjóra. Ásgeir virtist þó ekki nógu ánægður með þekkingarskort Kringlugesta sem fjallað var um hér að ofan og óskaði eftir að fá símanúmerið hjá þeim svo hann gæti frætt þau um Seðlabankann og hlutverk hans.

Á alvarlegri nótum benti Ásgeir á að sú lækkun skatta og hækkun bóta sem standa til hafi komið sér vel fyrir hagkerfið á þessum tímapunkti. Sá verðstöðugleiki sem virðist hafa náðst hefði það því í för með sér að þessar kjarabætur myndu skila sér til heimila og fyrirtækja.

Niðursveiflan væri auk þess ólík öllum íslenskum niðursveiflum frá síðari heimsstyrjöld þar sem henni fylgdi ekki gengisfall og kreppuverðbólga. Það hefði hins vegar í för með sér að auka þyrfti framleiðni til að auka samkeppnishæfni Íslands, eitthvað sem fram að þessu hefði verið gert með gengisfellingu og verðbólgu. Auk þess fylgdi niðursveiflunni ekki samdráttur í einkaneyslu eins og verið hefði og að fullt tilefni væri fyrir ríki og fyrirtæki að ráðast í fjárfestingar í því lágvaxtaumhverfi sem nú væri.

Ásgeir sagði jafnframt að það skipti miklu máli hvernig Ísland myndi spila úr þessari stöðu. Efnahagslegur veruleiki væri nú sá að laun á Íslandi stýrðust af launum verkamanna í Þýskalandi. Því væri ekki hægt að semja um laun á skjön við alla Evrópu, sem stýrðist af launum í Þýskalandi. Nú væri staðan hins vegar sú að Seðlabankinn gat lækkað vexti og samt gert ráð fyrir hjaðnandi verðbólgu. Ísland væri því að verða eins og venjuleg þjóð í því hvernig við beitum peningastefnunni.

Í fyrsta skipti í mjög langan tíma væri Ísland fjármagnseigandi en ekki skuldari. Sú arfleifð kynni að hafa áhrif á hvaða augum þjóðin lítur vexti og vaxtastig. Lágir vextir væru engu að síður að mörgu leyti merki um sjúkleika. Íslendingar hafi hingað til ávallt notað erlent fjármagn í stórar framkvæmdir en nú væri staðan önnur. Stór gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans hefði auk þess aukið verulega trúverðugleika bankans sem og krónunnar. Hann sagði stöðugleika á gjaldeyrismarkaði að einhverju leyti vera forsendu stöðugleika í hagkerfinu.

Að erindi hans loknu var gagnvirk snjall-viðhorfskönnun gerð út í salinn þar sem fram kom m.a. að meirihluti í salnum taldi réttu stýrivextina vera 2-3%.

Við tóku pallborðsumræður undir stjórn Ísaks Einars Rúnarssonar, hagfræðings hjá Viðskiptaráði Íslands.

Í pallborði voru Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, Finnur Árnason, forstjóri Haga, Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF og Kristrún M. Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku.

Þar sagði Kristrún marga fagna þessu vaxtalækkunarferli, en það mætti spyrja sig hvort þessu bæri að fagna. Það komu bara spár um samdrátt og það væri til marks um það að það væri veikleiki í hagkerfinu, sem vantaði inn í vaxtaumræðuna. Vextir í Evrópu hefðu t.a.m. verið neikvæðir í fimm ár og það hefði litlu skilað. Hún benti jafnframt á að mjög stór hluti af því sem við fengum greitt út í lífeyri væru vaxtavextir og að alls konar sambönd brotni niður í heimi neikvæðra vaxta. Kristrún taldi lexíuna kannski vera þá að leggja ekki of mikið traust á peningastefnu. Í Evrópu hefðum við séð mjög lága vexti, lítinn hagvöxt en hæsta sparnaðarstig sem hefur verið undanfarin 7 eða 8 ár.

Finnur Árnason taldi eðlilegt að fagna vaxtalækkunum að ákveðnu marki, bæði fyrir heimili og atvinnulíf. Hann taldi þörf á að horfa á þann heimatilbúna vanda sem er kallaður bankaskattur en er bara skattur á heimili og fyrirtæki. Finnur sagði banka hafa verið dæmda út af markaðnum með þessum skatti. Það væri búið að leggja grundvöll að mjúkri lendingu og viðspyrnu og hann taldi að ríkisstjórnin gæti valdið því að það verði ekki súrefni í hagkerfinu fyrir atvinnulífið.

Katrín Júlíusdóttir sagði stjórnvöld hafa gripið til aðgerða á undanförnum áratug og það hefði allt áhrif. Umfang bankaskattsins hefði töluvert vægi og kostar, með öðrum sértökum sköttum, um 20 milljarða á ári. Þetta væru verulegar fjárhæðir. Hún benti á að við vildum fjárfestingar á lágvaxtatímum. En þá þarf að tryggja lausafjárframboð og skoða lausafjárreglurnar þannig að hægt sé að auka lausafé á krónuhliðinni.

Ásgeir Jónsson tók undir með pallborðinu að sérstakar aðstæður hefðu verið á fjármálamarkaði. Bankar hafa ekki haft virka eigendur í langan tíma. Við þurfum að velta fyrir okkur samkeppnishæfni bankanna og getu þeirra til að lána. Hann taldi þörf á að huga að séríslenskum reglum. Þó svo það hljómi vel að skattleggja banka þá leggst hann á þá sem spara og þá sem taka lán.

Hér má sjá myndaalbúm frá fundinum.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024