Viðskiptaráð Íslands

Byggja eigi meira en 3.000 íbúðir á ári

Karlotta Halldórsdóttir, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, og Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, ræddu stöðu og horfur á fasteignamarkaði í Föstudagskaffi Viðskiptaráðs í morgun.

Karlotta Halldórsdóttir, hagfræðingur hjá HMS.

Nauðsynlegt verður að byggja mikið á næstu árum, leigumarkaður hefur minnkað og minni vaxtahækkanir mun þurfa en áður. Þetta er meðal þess sem kom fram í öðru föstudagskaffi Viðskiptaráðs sem fram fór í morgun. Gestur dagsins var Karlotta Halldórsdóttir, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) en hún og Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, ræddu stöðu og horfur á fasteignamarkaði með hliðsjón af nýrri greiningu Viðskiptaráðs og mánaðarskýrslu HMS. Hér fyrir neðan má sjá stutta stiklu frá fundinum.

Í greiningu Viðskiptaráðs kemur fram að verðhækkanir síðustu missera skýrist að mestu leyti af lækkun vaxta og auknum ráðstöfunartekjum. Karlotta tók undir þetta og bætti við að heimsfaraldurinn hefði einnig aukið eftirspurn eftir húsnæði sem birtist t.d. í eftirspurn eftir stærri eignum. Vísbendingar eru um að eftirspurnin sé enn mikil því íbúðir seljast hratt og margar yfir ásettu verði.

„Það virðist ennþá vera mikill eftirspurnarþrýstingur. Við vorum að sjá aðeins dala íbúðir sem fara á yfir ásettu verði […] en svo núna fór það upp aftur. Það voru núna [í september] 40% íbúða sem fóru á yfir ásettu verði,“ sagði Karlotta og bætti svo við að í venjulegu árferði þyki það hátt ef hlutfallið er 10-20%.

Einnig var umræðunni vikið að framboði á fasteignum og segir Karlotta að aldrei hafi verið jafn mikið byggt og síðustu ár. Hins vegar þurfi að byggja meira. „Það ætti eiginlega að byggja meira en 3.000 íbúðir á ári, bara til þess að viðhalda mannfjöldaaukningunni. Núna erum við að sjá að við erum að byggja í kringum 3.000 íbúðir í ár og líklega á næsta ári líka en það má vel byggja meira og það er líklega þörf fyrir það.“ En hvað getur komið í veg fyrir það? „Það sem við erum að sjá helst núna er að það er lóðaskortur, þær eru ekki alveg samræmdar upplýsingarnar sem við erum að fá varðandi lóðirnar en við erum að sjá að það er náttúrulega mikil eftirspurn“ sagði Karlotta og bætti því við að í vor voru um 50 lóðir á Selfossi auglýstar til sölu og að 9.000 umsóknir hafi borist.

Einnig var rætt um leigumarkaðinn þar sem verð hefur, ólíkt íbúðaverði, staðið í stað síðustu misseri. Mikið hefur verið rætt um að samdráttur í framboði á Airbnb-íbúðum sé þar á ferðinni en fleira kemur til að sögn Karlottu: „Við erum að sjá milli mælinga frá 2019 til 2021 að þá var 16% aukning hjá [18-24 ára] í foreldrahúsum.“ Samsvarandi samdráttur var í búsetu í leiguhúsnæði á sama tíma.

Föstudagskaffi Viðskiptaráðs eru stuttir morgunfundir sem fara fram í streymi annan hvern föstudag og eru opnir öllum aðildarfélögum Viðskiptaráðs. Næsta föstudagskaffi fer fram 26. nóvember og verður fundarefni og skráning auglýst þegar nær dregur.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024