Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins var Hið opinbera: Get ég aðstoðað.
Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins var Hið opinbera: Get ég aðstoðað, en þar var fjallað um um starfsemi hins opinbera á breiðum grunni og hvernig auka megi skilvirkni í rekstri þess. Fyrir þinginu lá skýrsla sem Viðskiptaráð hafði unnið, þar sem fjallað var um hvar megi gera betur í rekstri hins opinbera og þannig betur mæta áskorunum framtíðarinnar. Skoða má skýrsluna hér.
Þingið hófst á ávarpi frá fráfarandi formanni Viðskiptaráðs, Ara Fenger. Í ávarpinu fjallaði hann um mikilvægi þess að innleiða þjónustumiðað viðhorf hjá hinu opinbera og lagði áherslu á aðhald í rekstri. Ari benti jafnframt á að lausnin væri ekki flöt aðhaldskrafa á stofnanir og ráðuneyti, heldur ný hugsun og forgangsröðun. Þar mundi breyting á lögum um réttindum og skyldur starfsmanna ríkisins spila stórt hlutverk. Einnig er mikilvægt að endurskoða hlutverk hins opinbera á samkeppnismarkaði. Með sölu á fyrirtækjum í samkeppnisrekstri mundi svo skapast svigrúm til að lækka skuldir ríkissjóðs. Ari hrósaði jafnframt ríkinu fyrir að vinna gegn gullhúðun EES-regluverks, en það lýsir tilhneigingu stjórnvalda til að innleiða EES-regluverk með meira íþyngjandi hætti en þörf er á.
Myndir frá Viðskiptaþingi 2024
Ari fór svo yfir sín viðburðaríku fjögur ár sem formaður Viðskiptaráðs, en heimsfaraldur, stríð og jarðhræringar hafa einkennt þann tíma og hvatti íslenskt atvinnulíf áfram til aukinnar verðmætasköpunar. Hann lauk svo ávarpi sínu á því að þakka fyrir ánægjulegt samstarf og bauð nýjan formann Viðskiptaráðs, Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar, velkominn til starfa. Andri hélt stutt ávarp, þar sem hann áréttaði mikilvægi þess að grípa þau tækifæri sem væru til staðar á Íslandi og að Viðskiptaráð héldi áfram að vera öflugt hreyfiafl til góðra verka.
Næst flutti Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, erindi þar sem fjallað var um umfang hins opinbera og hvernig gera megi betur í rekstrinum. Hann hóf erindið á að fjalla um hve mikið ríkið hefði þanist út frá lýðveldisstofnun. Hann lagði áherslu á þann ómöguleika sem felst í því að krefjast aukinna útgjalda, en vilja á sama tíma ekki greiða hærri skatta, og því er ljóst að áherslan þarf að vera á umbætur í rekstri. Gunnar tók síðan dæmi um sameiningu sýslumannaembættanna og þau vannýttu hagræðingartækifæri sem til staðar eru eftir þá sameiningu. Borið saman við starfsmannaþróun bankana hefði mátt hagræða um 630 milljónir í rekstri embættana. Ljóst er að sýslumannaembættin eru lítill hluti af umfangi hins opinbera og því má velta fyrir sér hversu mikið megi hagræða í öllum rekstri hins opinbera.
Að erindi Gunnars loknu tók við pallborð þar sem Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Kara Connect og Andri Heiðar Kristinsson, meðeigandi hjá Frumtak Ventures og stafrænn leiðtogi Stafræns Íslands, fjölluðu um hvernig gengi að hjálpa ríkinu, þ.e. að innleiða tæknilausnir í þjónustu hins opinbera. Þar fjallaði Þorbjörg um mismunandi viðhorf til tæknilausna hérlendis og erlendis og baráttu sína við að fá tæknilausnir í heilbrigðiskerfinu innleiddar hérlendis. Andri ræddi þau tækifæri sem eru í opinbera kerfinu til að stafvæða ákveðna ferla og fylgja því eftir í gegnum kerfið, t.a.m. með samrekstri gagnagrunna.
Þá var komið að erindi Björgvins Inga Ólafssonar, meðeiganda hjá Deloitte. Þar líkti hann ríkinu við 1998 árgerð af Toyotu Corollu, þar sem viðhaldi hefur verið sinnt vel og leitast hefur verið við að innleiða nýja tækni í bílinn, t.a.m. Bluetooth spilara og hitamottur í sætin. Þá fjallaði hann um sóun í opinbera kerfinu, mikilvægi þess að hugsa að hverju við stefnum og minnkandi skilvirkni hins opinbera. Björgvin lagði svo áherslu á fá stór markmið og að hanna ætti þjónustuna í kringum þá sem þurfa á henni að halda, en ekki þá sem sinna henni.
Að loknu kaffihléi flutti svo Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarp. Þar fór hún yfir stöðuna á þessum degi þar sem eldgos hófst. Þar lagði hún helst áherslu á öflugt viðbragð okkar við hamförum sem þessum og þann mikla styrk sem býr í efnahagslífinu. Þá fjallaði hún einnig um hlutverk ríkisvaldsins á breiðum grunni og leitaði þar í kenningar Thomas Hobbs. Katrín nefndi svo skyldur ríkisins gagnvart borgurunum og hvert heimildir ríkisins til að vera hluti af okkar samfélagi og lífi.
Eftir ávarp forsætisráðherra steig Garðar Björnsson Rova, meðeigandi hjá McKinsey, á svið og fjallaði um gervigreind og möguleg áhrif hennar á efnahagslífið og vinnumarkað. Þar líkti hann áhrifum gervigreindarinnar við áhrif internetsins. Hann lagði svo áherslur á mögulega aukna framleiðni sem hagnýting gervigreindar hefur í för með sér og breytingarnar sem það hefur í för með sér á vinnumarkaði. Gervigreindin mun þannig sjálfvirknivæða stóran hluta þeirra starfa sem nú eru til staðar og önnur störf koma í staðin. Garðar lauk svo erindi sínu með því að leggja áherslu á að ný tæknibylting hefði átt sér stað og þá möguleika sem hún felur í sér fyrir heilbrigðisþjónustu, menntun og þjónustu hins opinbera.
Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, flutti svo erindi þar sem hún fjallaði um umbreytingu sem orðið hefur á rekstri fyrirtækisins. Þar sagði hún m.a. frá fækkun mannaðra afgreiðslustöðva, fækkun starfsfólks, hækkun kostnaðar, en á sama tíma viðsnúningi í rekstri. Samhliða þessu hafa sendingar skilað sér hraðar til viðtakenda og ánægja með þjónustuna aukist.
Þinginu lauk svo með pallborðsumræðum þar sem þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri og Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, svöruðu spurningum frá Snorra Mássyni, ritstjóra, sem stýrði pallborðinu. Þar var farið yfir víðan völl og m.a. fjallað um sýn stjórnmálamannanna á hlutverk ríkisins og aðkomu einkaaðila að rekstri þar sem ríkið er í einokunarstöðu, eða svo gott sem, t.d. á sviði menntamála, heilbrigðismála og smásölu áfengis.
Að þessu sögðu vill Viðskiptaráð nota tækifærið og þakka öllum þeim sem fluttu ávörp, erindi eða tóku þátt í myndböndum á þinginum. Við viljum jafnframt þakka þeim sem sáu sér fært að mæta og hlýða á það sem fram fór á þinginu.