Viðskiptaráð Íslands

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta embættisverk sem formaður en Andri Þór Guðmundsson tók við sem formaður í byrjun febrúar.

Ari Fenger lauk stjórnartíð sinni sem formaður Viðskiptaráðs á Viðskiptaþingi.

Þetta sem við sáum hér á skjánum er einmitt draumsýn okkar í Viðskiptaráði, að í hvert sinn sem við leitum til hins opinbera sé okkur mætt með þessum orðum: Get ég aðstoðað?

Það er kannski undarlegt að orða þetta svona, að þetta sé draumsýn, en ef ég væri ráðherra eða stjórnandi í opinberri stofnun væri þetta það fyrsta sem ég segði við mitt starfsfólk, við erum hér til að aðstoða.

Sú aðstoð er auðvitað mismunandi, eftir því hvort fólk er að taka á móti sjúklingi, afgreiða vegabréf eða samrunamál, en í eðli sínu er starfsemi hins opinbera þjónusta við allt samfélagið.

Eitt af meginhlutverkum Viðskiptaráðs, allt frá stofnun ráðsins árið 1917, hefur verið að veita hinu opinbera aðhald. Það snýst ekki einungis um fjárhagslegt aðhald, heldur líka gæði og að starfsemi hins opinbera stuðli að verðmætasköpun í stað þess að leggja stein í götu framfara.

Hið opinbera er við

Við eigum öll að láta okkur málið varða. Hið opinbera er við. Það er rekið með fjármunum sem við, skattgreiðendur, leggjum til og fólkið, sem tekur ákvarðanir fyrir hönd hins opinbera, er fulltrúar okkar.

Áherslur geta verið mismunandi eftir því hver er við stjórnvölinn, en þegar litið er yfir sviðið er niðurstaðan sú, að sama hver stýrir hefur hið opinbera vaxið jafnt og þétt í gegnum áratugina.

Aðhald í rekstri hins opinbera er alltaf mikilvægt en nú myndi ég segja að það væri nauðsynlegt. Ég hef saknað þess að sjá metnaðarfyllri aðhaldskröfu í undanförnum fjárlögum og alvöru vilja til að hagræða og fara betur með skattfé okkar.

Því orð eru ódýr ef við látum ekki verkin tala.

Ég neita því ekki að það væri voðalega þægilegt að geta hækkað alla verðlista hjá sér um 7,5% eins og flestar gjaldskrár gerðu hjá hinu opinbera fyrir ári síðan með þeim rökum að allt hafi hækkað svo mikið.

Ég hugsa að viðskiptavinir mínir myndu láta heyra duglega í sér ef mitt fyrirtæki myndi senda álíka rök og prósentuhækkun frá sér.

En þar sem við, viðskiptavinir hins opinbera, höfum ekki annað val, er of auðvelt að hækka í stað þess að hagræða eða taka djarfari ákvarðanir og hreinlega hætta einhverju.

Allt hefur hækkað

Við á einkamarkaðnum búum nú við þann veruleika að allt hefur hækkað. Launavísitalan hækkaði um 10 % á síðasta ári, vextir og skattar eru hækkaðir en við megum helst ekki hækka verð. Eigum að hagræða.

Hvað heldur fólk eiginlega að við höfum verið að gera í vinnunni undanfarin ár?

Uppistaða atvinnulífsins eru lítil og meðalstór fyrirtæki og núverandi ástand reynist þessum fyrirtækjum hvað erfiðast. Vöxtur, hagkvæmni og aukin framleiðni er hreinlega nauðsynleg ef þessi fyrirtæki eiga ekki að leggja upp laupana.

Valkosturinn er ekki endalausar verðhækkanir, því viðskiptavinir þessara fyrirtækja færa viðskiptin hreinlega annað, en það getum við skattgreiðendur ekki gert.

Okkur í atvinnulífinu er enginn vorkunn, síður en svo, þetta er það sem við réðum okkur í. En ég verð samt að segja að það getur sviðið að horfa upp á stjórnsýsluna blása út á sama tíma, þegar manni finnst eins og verið sé að framkvæma hluti gegn betri vitund, allt í skjóli pólítískrar pattstöðu og hræðslu við næstu kosningar.

Ef einhver er að efast um að það sé hægt að gera betur, þá er vert að benda á fjölgun stöðugilda í ráðuneytunum. Árið 2019 störfuðu um 550 innan stjórnarráðsins, en um mitt ár 2023 voru starfandi orðnir meira en 720. Það er því um að ræða rúmlega 30% fjölgun á fjórum árum.

Maður gæti hugsað sem svo að réttlæta mætti þessa fjölgun ef hún skilaði betra regluverki og meiri verðmætasköpun, en það er ekki raunin.

Það er þörf á breytingum til að sporna gegn þessari þróun. Lausnin er ekki flöt aðhaldskrafa, heldur er tímabært að hugsa með öðrum hætti, forgangsraða og taka ákvarðanir.

Þörf á breytingum á um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna

Í fyrsta lagi vil ég nefna að breyting á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er orðin löngu tímabær og hér finnst mér hreinlega vanta pólítískt þor til að framkvæma.

Það getur engum fundist það boðlegt að hið opinbera sé farið að bjóða betri kjör en einkageirinn og á sá sama tíma fullkomið starfsöryggi þar sem hreinlega ekki er hægt að láta fólk fara.

Það getur ekki verið að nokkur telji að það sé skynsamlegt að reka nokkurn skapaðan hlut með þessum formerkjum. Það læðist líka að manni sá grunur að hluti ástæðunnar fyrir fjölguninni í stjórnarráðinu sé ekki bara fjölgun ráðuneyta. Til þess er hún allt of mikil.

Nei, sá grunur læðist að manni að ýmis verkefni hafi komið upp sem krefjast nýrrar hæfni eða hugsunar, til dæmis vegna heimsfaraldursins.

Í fyrirtækjarekstri myndi nýtt fólk leysa af hólmi starfsmenn sem ekki uppfylltu þarfir rekstrarins, en hjá hinu opinbera gilda önnur lögmál. Ég leyfi mér að fullyrða að bara með því að breyta þessum lögum myndi skilvirkni og framleiðni aukast heilmikið.

Hið opinbera í samkeppni við einkageirann

Í öðru lagi er stundum gott að staldra við og hreinlega spyrja sig hvort ríkið eigi yfirhöfuð að vera gera alla hluti sem verið er að vasast í.

Staðreyndin er nefnilega sú að hátt í 15% af opinberum starfsmönnum starfa í rekstri sem er með einhverjum hætti í samkeppni við einkageirann. Það gætu verið ýmis sóknarfæri í því að draga úr þeim umsvifum og selja þessi fyrirtæki, ýmist að hluta eða öllu leyti.

Í þriðja lagi myndi slík sala eigna bæta skuldastöðu ríkissjóðs. Það er dýrt að skulda og vaxtagjöld eru þriðji stærsti útgjaldaliður ríkisins.

Áföll eins og efnahagshrun og heimsfaraldur hafa svo sýnt okkur svart á hvítu hversu miklu skiptir að vera skuldlétt.

Nú tökumst við á við enn eitt áfallið, þegar heilt bæjarfélag verður heimilislaust. Sem betur fer höfum við burði til að styðja við bakið á Grindvíkingum en öll þessi áföll segja okkur að við verðum að hafa borð fyrir báru.

Bæði til að geta tekist á við óvæntar og væntar áskoranir. Það er ekki ábyrgt að lifa um efni fram og ætla kynslóðunum sem koma á eftir okkur að taka reikninginn.

Getur einkageirinn aðstoðað?

En við erum ekki bara hér til að skamma hið opinbera, við erum hér líka til að hrósa og – auðvitað – bjóða fram aðstoð.

Þannig erum við ánægð með að stjórnvöld skuli hafa tekið til sín ábendingar okkar um gullhúðun, eins og íþyngjandi innleiðing EES-regluverks er gjarnan kölluð. Við í Viðskiptaráði gáfum út skýrslu um gullhúðun sjálfbærniregluverks ESB síðastliðið sumar, sem varpaði skýru ljósi á hversu dýrt það getur verið að ganga lengra en nauðsynlegt er.

Verðmiðinn á því er um tveggja milljarða umframkostnaður á ári fyrir íslenskt atvinnulíf.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið lét svo vinna úttekt í vetur á íþyngjandi innleiðingu á málasviðum þess og kom í ljós að frá 2010-2022 höfðu rúmlega fjörutíu prósent EES-gerða verið innleidd með íþyngjandi hætti.

Vissulega myndum við vilja að þessum málum yrði kippt í liðinn hratt og örugglega, en allt hefur sinn gang í stjórnsýslunni. Það er skref í rétta átt að utanríkisráðherra hafi skipað starfshóp, sem einmitt lögfræðingur Viðskiptaráðs á einmitt sæti í.

Góðir félagar Viðskiptaráðs og gestir Viðskiptaþings.

Ég man þegar ég stóð á sviðinu í Hörpunni fyrir 4 árum, nýkjörinn formaður. Það var sérstök tilfinning. Ég man hvað ég var þakklátur fyrir traustið sem aðildarfélagar Viðskiptaráða sýndu mér. Ég viðurkenni alveg að ég var aðeins stressaður en aðallega spenntur fyrir verkefninu sem var fram undan.

Mér finnst eins og þetta hafi gerst í gær en samt er eitthvað svo langt síðan og svo ótalmargt hefur gerst. Þetta hefur ekki verið neinn venjulegur tími, með heimsfaraldri, stríðsátökum og jarðhræringum. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þessir atburðir hafa haft mikil áhrif á líf okkar og þar af leiðandi viðfangsefni hins opinbera og þá eins starf okkar hjá Viðskiptaráði undanfarin ár.

En þrátt fyrir að þessir stórviðburðir, bæði á heimsvísu og hér heima, krefjist viðbragða megum við ekki festast í viðbragðsstillingunni.

Við þurfum að halda áfram að sækja fram, bæta rekstrarskilyrði, sinna uppbyggingu og viðhaldi innviða, og tryggja að fólkið okkar fái framúrskarandi menntun og geti haldið áfram að skapa þau verðmæti sem öll okkar velsæld hvílir á.

Þar horfi ég til stjórnmálamanna sem bera mikla ábyrgð þegar kemur að því að marka stefnuna og stjórnenda og starfsfólks hins opinbera sem síðan framfylgir henni. Við í Viðskiptaráði höfum hlutverki að gegna þegar kemur að því að veita hinu opinbera aðhald, og sinnum því eftir margvíslegum leiðum.

Markmiðið er að aðstoða hið opinbera við að gera betur.

Betri rekstur og þjónusta ríkis og sveitarfélaga eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra og við þurfum öll að vinna saman að því að gera betur til að koma í veg fyrir sóun, – sóun á tíma, starfskröftum fólks og peningum.

Að lokum

Þetta þing er mitt síðasta embættisverk og vil ég þakka öllum félögum ráðsins og starfsfólki þess fyrir mjög ánægjulegt samstarf.

Í vikunni lauk kjöri í stjórn Viðskiptaráðs og um leið var kjörinn nýr formaður ráðsins. Ég hvet þau til góðra verka og um leið og ég óska Andra Þór Guðmundssyni forstjóra Ölgerðarinnar til hamingju með formannskjörið vil ég biðja hann um að koma hér upp á svið og taka við, ekki kyndli eða kefli, heldur þessum blómvendi, með óskum um gott gengi og blómlega tíð í nýju hlutverki.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024