Viðskiptaráð Íslands

Katrín Olga: Þarf samstöðu og vilja til að laga kynjahallann

Í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi fór Katrín Olga Jóhannesdóttir, fráfarandi formaður Viðskiptaráðs, yfir farinn veg og árangur síðustu ára en beindi jafnframt sjónum að því sem má betur fara horft fram á við, einkum í samkeppnis- og jafnréttismálum

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður 2016-2020

Katrín Olga hóf ávarp sitt á að óska eftirmanni sínum, Ara Fenger, og nýkjörinni stjórn til hamingju með kjörið. Næst fór hún yfir farinn veg en margt hefur áunnist í að bæta umhverfi viðskipta- og efnahagslífsins síðustu ár. „Grunnurinn sem við stöndum hefur líklega aldrei verið sterkari. Engu að síður er staðan á þessu augnabliki óþægilega tvísýn og ég leyfi mér að hafa nokkrar áhyggjur. Við horfum fram á annað árið í röð stöðnun í hagkerfinu, aukið atvinnuleysi og dvínandi fjárfestingu.“ Sagði hún að lausnin væri að gera það sem Viðskiptaráð hefur tönnlast á í nærri 103 ár: „Bætt rekstrarumhverfi fyrirtækja, ábyrgir stjórnarhættir og að horfa til framtíðar“.

Vék hún í því samhengi orðum að áskorunum framtíðarinnar vegna tæknibreytinga, sérstaklega á vinnumarkaði. Talsvert skortir á heildarstefnumótun á Íslandi til að takast á við þær árskoranir líkt og aðrar. Þá lýsti Katrín Olga yfir áhyggjum af vexti hins opinbera sem meðal annars endurspeglast í 3% fækkun starfa í atvinnulífinu sl. tvö ár á meðan opinberum starfsmönnum hefur fjölgað um 7%.

Katrín hefur sem formaður lagt mikla áherslu á samkeppnismál og gerði það í ræðu sinni: „Í þau fjögur ár sem ég hef starfað sem formaður Viðskiptaráðs höfum við beitt okkur fyrir breytingum í þeim efnum, en því miður þá hefur staðan lítið breyst og ennþá er Samkeppnieftirlitið með hreðjartak á stjórnvöldum og viðskiptalífinu“. Að mati hennar „… er með ólíkindum að eftirlitinu takist trekk í tekk að láta íslensk fyrirtæki líta út eins og sakamenn og aðila sem vilja neytendum alls hins versta – ég hafna alfarið þeim málatilbúnaði – neytendur skipta viðskiptalífið höfuðmáli“.

Þá lauk hún ræðu sinni að fjalla um jafnréttismál og sagðist eiginlega ráðþrota yfir því hve hægt þau mál þokast. „Þegar ég tók við sem formaður var ein kona sem stýrði fyrirtæki í Kauphöll Íslands, núna eru þar engar konur – skref afturábak. Við erum núna með 10% konur sem stýra 400 stærstu fyrirtækjum landsins – breyting um 2% stig.“. Katrín velti því upp hvort ekki þurfi að tala tæpitungulaust um þessi mál og nefndi dæmi um fyrirtæki sem hafa tekið jafnréttismálin föstum tökum og séu til fyrirmyndar.

„Það þarf samstöðu og vilja til breytinga til að breyta þessari stöðu, sem snýst ekki síst um hagsæld þjóðarinnar. Ég fer bjartsýn frá borði sem formaður Viðskiptaráðs Íslands miðað við þessi viðbrögð og geri ráð fyrir að Ari taki boltann og haldi honum á lofti“. Að lokum þakkaði Katrín Olga fyrir samstarfið síðastliðin fjögur ár.

Lesa ávarp í heild sinni

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024