Viðskiptaráð Íslands

Kjararáð stuðlar að upplausn á vinnumarkaði

- Nýtt Alþingi grípi tafarlaust til ráðstafana

Eftirfarandi ályktun hefur verið samþykkt af framkvæmdastjórnum Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands 1. nóvember 2016:

Í lögum um kjararáð er skýrt kveðið á um að ráðið skuli ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Þetta ákvæði hefur ráðið að engu haft í úrskurði um þingfararkaup og í úrskurðum um laun embættismanna undanfarið ár.

Ákvörðun kjararáðs um launahækkanir þingmanna og ráðherra er í engu samhengi við almenna þróun á vinnumarkaði, hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma. Standi ákvörðunin er vinnumarkaðurinn settur í fullkomið uppnám með tilheyrandi tjóni fyrir almenning og atvinnulíf.

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands skora á nýtt Alþingi að hafna nýlegum ákvörðunum kjararáðs og leggja málið í sáttaferli. Með því er bæði átt við úrskurði um þingfararkaup og laun ráðherra sem og nýlega úrskurði um ríflegar hækkanir á launum embættismanna. Að öðrum kosti er borin von að aðilar vinnumarkaðarins geti haldið áfram vegferð sinni um bætt vinnubrögð við kjarasamningagerð, ferli sem kennt hefur verið við Salek.

Stærsta viðfangsefni næsta kjörtímabils
Umbætur á vinnumarkaði eru stærsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Takist stjórnvöldum ekki að uppfylla forsendur Salek-samkomulagsins munu kjaradeilur raska efnahagslegu jafnvægi og standa í vegi fyrir öðrum mikilvægum uppbyggingarverkefnum.

Lífskjarabati síðustu ára á sér fá fordæmi. Kaupmáttur launa hefur aukist um 20% á síðustu þremur árum. Á sama tíma hafa skuldir heimila, fyrirtækja og hins opinbera hafa lækkað hratt. Sterkur hagvöxtur og hagfelldar ytri aðstæður hafa gert þessa þróun mögulega án neikvæðra áhrifa á verðlag. Til að unnt verði að varðveita þennan árangur þurfa launahækkanir næstu ára að þróast í samræmi við getu hagkerfisins til að standa undir þeim.

Á undanförnum árum hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt í mikla vinnu við endurskipulagningu á fyrirkomulagi kjarasamningagerðar. Grundvöllur þeirrar vinnu eru markmið um aukinn stöðugleika, lækkun vaxta og stöðugt verðlag. Þannig má bæta kjör heimilanna og styrkja rekstrargrundvöll íslenskra fyrirtækja með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Nýlegar ákvarðanir kjararáðs eru í fullkominni andstöðu við þessa stefnumörkun.

Launahækkanir langt umfram aðra hópa
Hvort sem horft er til skemmri eða lengri tíma eru ákvarðanir kjararáðs úr takti við launaþróun á vinnumarkaði.

Með rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins, dags. 24. október 2015, var launastefna mótuð til ársloka 2018. Í samkomulaginu fólst að samningsbundnar launabreytingar, að meðtöldum hækkunum framlaga launagreiðenda í lífeyrissjóði, skyldu að hámarki nema 32% á tímabilinu frá nóvember 2013 til ársloka 2018. Gildir það jafnt um kjarasamninga sem þá höfðu verið gerðir og þá sem koma til endurnýjunar frá undirritun samkomulagsins. Á grundvelli rammasamkomulagsins voru kjarasamningar aðildarsamtaka ASÍ endurskoðaðir í janúar sl. með hækkun framlaga launagreiðenda í lífeyrissjóði og hækkunum almennra launahækkana.

Kjararáð hefði átt að taka mið af framangreindri og ríkjandi launastefnu í úrskurðum sínum um þingfararkaup og laun ráðherra og embættismanna skv. lögum um ráðið, enda skal það skv. lögum „ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði“. Í stað þess hefur ráðið ákveðið 75% hækkun á þingfararkaupi frá nóvember 2013 og að viðbættum almennum launahækkunum á árunum 2017 og 2018 nemur hækkunin 88%.

Til samanburður hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 28% frá nóvember 2013 til hausts 2016 og gætir þar mikilla hækkana lægstu launataxta á árinu 2015. Stjórnendur á almennum vinnumarkaði hafa hækkað um 22% á umræddu tímabili.

Munur á launaþróun þingmanna og annarra hópa í landinu er minni þegar litið er til lengra tímabils. Í samstarfi aðila vinnumarkaðarins um launaforsendur kjarasamninga hefur verið miðað við þróunina frá nóvember 2006. Það tímabil markast mjög af krónutöluhækkunum kjarasamninga, sem hafa haft það að markmiði að hækka lægstu laun umfram hærri laun, sem endurspeglast í hækkunum launavísitalna. En jafnvel þótt miðað sé tímabilið frá nóvember 2006 hefur þingfararkaup hækkað verulega umfram launavísitölur eftir þennan úrskurð kjararáðs.

Nýtt Alþingi grípi tafarlaust til ráðstafana
Ef Alþingi ætlar sér að stuðla að auknu trausti til löggjafans og sátt á vinnumarkaði þá er endurskoðun á ákvörðunum kjararáðs óumflýjanleg. Ógilding ákvarðana þess á við óháð því hvaða flokkar taka við stjórnartaumunum. Samhliða ógildingu nýlegra ákvarðana þarf að ráðast í heildarendurskoðun á lögum um ráðið. Núverandi fyrirkomulag fellur engan veginn að þeim bættu vinnubrögðum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið að á síðustu árum. Atvinnurekendur og stéttarfélög eru á einu máli í þessum efnum og ábyrgð nýs Alþingis því mikil. Næstu vikur leiða í ljós hvort staðið verði undir þeirri ábyrgð.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024