Á Skattadeginum 2022 var sjónum beint að nauðsynlegum umbótum í íslensku skattkerfi
Hinn árlegi skattadagur Deloitte, Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs fór fram í morgun. Fundurinn var sendur út í opnu streymi og var að vanda vel sóttur en vel á sjöunda hundrað áhorfenda fylgdist með útsendingunni þegar mest var. Áfram verður hægt að njóta dagskrár fundarins sem er aðgengileg í spilaranum hér að neðan.
Líkt og Heiðrún Björk Gísladóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA og fundarstjóri dagsins, kom inn á hefur Skattadagurinn, sem nú er haldinn í nítjánda sinn, fest sig rækilega í sessi sem mikilvægur umræðuvettvangur um það sem er að gerast í skattamálum hverju sinni og mögulegar umbætur.
Venju samkvæmt flutti fjármála- og efnahagsráðherra opnunarávarp. Í erindi sínu fór Bjarni Benediktsson meðal annars yfir hvernig skattkerfinu hefur verið beitt til að koma til móts við fyrirtæki og heimili á meðan heimsfaraldurinn hefur geisað.
Ráðherra nefndi að jákvæð teikn væru á lofti en fór um leið yfir nokkrar af þeim áskorunum – og þeim tækifærum – sem blasa við hinu opinbera. „Störfin eru um 20 þúsund fleiri nú en í upphafi síðasta árs. Kaupmáttur hefur aldrei verið meiri. Vextir eru lágir í sögulegu samhengi og tekist hefur að halda verðbólgu innan þolanlegra marka,“ sagði Bjarni og bætti við að afkoma ríkissjóðs batni um ríflega 100 milljarða milli ára og að skuldahorfur séu um 300 milljörðum betri til næstu fimm ára en áður hafi verið áætlað.
Þá fór ráðherra yfir hvernig þeim sem greiða lítið fyrir notkun vegakerfisins hefur farið fækkandi samhliða því sem veittar hafa verið skattaívilnanir vegna kaupa á umhverfisvænum farartækjum. Í því samhengi sagði Bjarni að nú sé litið til þess „hvort taka megi upp skattlagningu á notkun ökutækja út frá aflestri á kílómetrastöðu, samhliða því að efla áfram hvata til kaupa á vistvænum bílum.“
Síðast en ekki síst kom ráðherra inn á mikilvægi þess að „ræða stöðu mála út frá gögnum, frekar en tilfinningum.“ Þar nefndi hann meðal annars Tekjusöguna, þar sem sjá má þróun ólíkra aldurs- og tekjuhópa síðustu áratugi byggða á gögnum úr skattframtölum Íslendinga, en einnig vefinn opinberumsvif.is sem dregur fram lykiltölur um hvernig ríkið og sveitarfélög eru rekin en um þá birtingun sagði ráðherra meðal annars: „Gagnsæi á þessu sviði skiptir miklu máli, bæði sem aðhald við nýtingu almannafjár, en sömuleiðis til að fólk fái raunverulega tilfinningu fyrir því hvað verður um peningana. Að þeir hverfi ekki bara í hítina.“
Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra má lesa í fullri lengd hér.
Í kjölfar opnunarávarps fjármála- og efnahagsráðherra voru flutt þrjú áhugaverð erindi sem öll fjölluðu um skattkerfið og hvernig gera megi það betra. Í erindinu Með skilvirkt skattkerfi að leiðarljósi: Veganesti ríkisstjórnarinnar fór Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, yfir stöðu íslensks skattkerfis í alþjóðlegum samanburði. Í erindi sínu benti Agla meðal annars á þá staðreynd að á síðustu sex árum hefur Íslandi fallið um 12 sæti á lista Tax Foundation yfir samkeppnishæfni skattkerfa. Ísland er því eftirbátur fjölda annarra þjóða þegar kemur að því að skapa samkeppnishæft skattkerfi, þrátt fyrir að sérstök verkefnisstjórn hafi árið 2016 lagt fram margvíslegar tillögur að úrbótum.
„Sé horft til tillagna verkefnisstjórnarinnar frá 2016 er ljóst að meirihluti þeirra hefur ekki orðið að veruleika, þrátt fyrir að þær eigi sér stoð í þverpólitísku samráði allra flokka sem þá sátu á þingi. Þrátt fyrir góða þróun á ýmsum þáttum skattkerfisins er ljóst að betur má ef duga skal,“ sagði Agla og bætti við að sé það raunveruleg ætlun stjórnvalda að bæta samkeppnishæfni íslensks skattkerfis þá sé mikilvægt að ráðist verði í úrbætur á kjörtímabilinu sem nú er hafið.
Þá lagði Agla fram tillögur að úrbótum sem Viðskiptaráð telur mikilvægt að ráðist sé í svo auka megi samkeppnishæfni skattkerfisins. Þar á meðal að draga þurfi úr jaðarsköttum, bæta samspil skatt- og bótakerfa, afnema undanþágur í virðisaukaskattskerfinu, endurskoða fyrirkomulag fasteignagjalda og einfalda og fjölga tvísköttunarsamningum.
„Rökin fyrir tillögunum eru sterk, ávinningurinn mikill og í raun er fátt sem ætti að stöðva þá sem halda um stjórnartaumana í að framkvæma þær. Nú er bara að hefjast handa.“
Því næst heyrðum við í Vigdísi Tinnu Sigurvaldadóttir, alþjóðlegum skattalögfræðingi hjá Marel. Í erindinu nefndi Vigdís Tinna meðal annars þann mikilvæga hvata til fjárfestingar í nýsköpun sem felst í endurgreiðslum á rannsókna- og þróunarkostnaði en benti einnig á að Ísland þurfi fylgja þeirri þróun sem á sér stað erlendis – ellegar verði samkeppnishæfni landsins verri í alþjóðlegum samanburði. Í því samhengi nefndi hún t.d. kosti þess að heimila kostnað vegna rannsókna- og þróunar sem fellur til í erlendum dótturfélögum íslenskra fyrirtækja sem koma að rannsókna- og þróunarverkefnum á íslensku hugverki en sú hugmynd byggir á gildandi reglum í Noregi.
Í síðasta erindi dagsins fjallaði Guðbjörg Þorsteinsdóttir, meðeigandi og lögmaður hjá Deloitte Legal, um skattalagabreytingar og agnúa sem þarf að sníða að hinu íslenska skattkerfi. Deloitte, Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman ýmis atriði tengd skattkerfinu en auk þess átt í samtali við tugi fyrirtækja hér á landi. Í erindi sínu fjallaði Guðbjörg um nokkur af þessum atriðum, m.a. þann galla að yfirfæranlegt skattalegt tap fyrnist á 10 árum á meðan enginn fyrningarfrestur er á nýtingu taps víða erlendis.
Í lok dagskrárinnar heyrðu fundargestir í þremur fulltrúum atvinnulífsins, þeim Guðjóni Auðunssyni, forstjóra fasteignafélagsins Reita, Jakobi Einari Jakobssyni, eiganda Jómfrúarinnar og stjórnarmanni í SAF, og Stefáni Þór Björnssyni, fjármálastjóra Solid Clouds. Allir fóru þeir stuttlega yfir atriði tengd skattkerfinu og áhrifum þess á þeirra atvinnugrein. Þannig ræddi Jakob íþyngjandi áhrif til dæmis tryggingagjalds, gjaldskrár eftirlitsaðila og áfengisgjalds á fyrirtæki í veitingageiranum, ekki síst á tímum sem þessu. Guðjón gerði fasteignaskatta að umfjöllunarefni og þá sérstaklega þá staðreynd að sveitarfélög hafi ekki endurskoðað álagningarprósentu í kjölfar þess að Þjóðskrá gerði verulegar breytingar á framkvæmd fasteignamats, sem sett hefur verulegt strik í reikning fasteignaeigenda. Þá fór Stefán Þór yfir mikilvægi þess að efla hugverkaiðnað með það að markmiði að tryggja hagsæld til lengri tíma. Í því samhengi nefndi hann mikilvægi fjárfestingarhringrásar en einnig að líta til og læra af öðrum þjóðum.
Það er von Viðskiptaráðs að áhorfendur hafi haft gagn og gaman af fundi dagsins og um leið að sem flest geti tekið undir lokaorð Stefáns Þórs hjá Solid Clouds, en þau voru einfaldlega: „Ég hef mikla trú á Íslandi. Við getum þetta!“
Upptaka frá Skattadeginum 2022