Viðskiptaráð Íslands

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - H1 2024

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan er á ensku og fjallar um íslenskt efnahagslíf í víðu samhengi.

Í skýrslunni er að vanda fjallað um hagþróun síðustu mánaða, skammtímahagvísa, þróun í utanríkisviðskiptum, samkeppnishæfni og stofnanaumgjörð, svo eitthvað sé nefnt.

Íslenska hagkerfið tók kröftuglega við sér, eftir skarpa dýfu í heimsfaraldrinum. Hagvöxtur árið 2022 mældist 8,9%, en það er mesti hagvöxtur sem mælst hafði síðan 1971. Hagkerfið hélt áfram að vaxa árið 2023, þegar hagvöxtur mældist 4,1%, þar sem vöxtur í samneyslu og útflutningi vó þyngst. Gert er ráð fyrir því að hægjast muni á hagkerfinu í ár og spáir Seðlabankinn að hagvöxtur verði 1,9%.

Kröftugum hagvexti og hallarekstri ríkissjóðs, samhliða auknum umsvifum á húsnæðismarkaði og því að einkaneysla tók við sér eftir heimsfaraldur, fylgdi í kjölfarið mikill verðbólguþrýstingur. Seðlabankinn brást við því með því að auka taumhald peningastefnunnar verulega. Eftir fjórtán vaxtahækkanir í röð hafa stýrivextir haldist óbreyttir í 9,25% frá því í ágúst 2023. Hægt hefur á verðbólgunni, sem hæst fór í 10,2% í febrúar 2023, en hún stendur nú í 6%. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að verðbólga í ár verði 5%. Verðbólguvæntingar meðal markaðsaðila til næstu fimm ára eru enn yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Merki eru um að húsnæðismarkaðurinn sé tekinn við sér á ný eftir kólnun sem hófst um mitt ár 2022. Vísitala húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu virðist hafa náð ákveðnu jafnvægi um mitt ár 2023, en hækkaði lítillega á milli desember 2023 og janúar 2024. Velta fór að aukast á ný á húsnæðismarkaði á seinni hluta ársins 2023, samhliða fjölgun kaupsamninga.

Kjarasamningar til fjögurra ára voru undirritaðir í mars. Samningarnir kveða á um 3,25% hækkun launa á fyrsta ári samningsins og 3,5% á næstu þremur árum. Hækkunin verður þó aldrei minni en 23.750 krónur á ári hverju. Áhrif samninganna á hagkerfið í heild eiga enn eftir að koma fram, en hækkun launavísitölunnar milli mánaða í mars var 2,4%, sem má að miklu leyti skýra með samningsbundnum hækkunum.

dfc72616-7984-486f-bd51-3ee4b1ff3581

Ísland er í 16. sæti í árlegri samkeppnishæfniúttekt IMD árið 2023 og stendur í stað á milli ára. Niðurstöðurnar endurspegla góða innviði Íslands og miklar framfarir í efnahagslegri frammistöðu. Þó ber að líta til þess að skilvirkni hins opinbera hefur ekki verið minni í átta ár og auk þess dregst Ísland lítillega aftur úr þegar kemur að skilvirkni atvinnulífs. Samhliða úttektinni eru einnig birtar niðurstöður úr stjórnendakönnun, þar sem stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru beðnir um að útlista atriði sem þeir telja eftirsóknarverð við Ísland þegar kemur að því að stunda viðskipti. Þar kemur fram að hátt menntunarstig, aðlögunarhæfni hagkerfisins og opið og jákvætt viðhorf séu á meðal helstu styrkleika Íslands.

Viðskiptaráð býður upp á kynningar á skýrslunni. Nánari upplýsingar veita Gunnar Úlfarsson (gunnaru@vi.is), hagfræðingur Viðskiptaráðs og Ragnar Sigurður Kristjánsson (ragnars@vi.is), sérfræðingur á hagfræðisviði.

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024