Upptaka samræmds námsmats og einföldun aðalnámskrár eru meðal lykiltillagna OECD til bæta námsárangur grunnskólabarna á Íslandi. Í nýrri skýrslu stofnunarinnar um íslenskt efnahagslíf er fjallað um þá alvarlegu stöðu sem komin er upp í íslensku menntakerfi. Stofnunin bendir á að árangur í menntamálum sé nátengdur efnahagslegri frammistöðu.
Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur gefið út nýja skýrslu um íslenskt efnahagslíf. Þar má finna ítarlega umfjöllun um stöðuna í menntamálum hérlendis. Í skýrslunni er m.a. sýnt fram á hvaða afleiðingar sú alvarlega staða sem komin er upp í menntamálum á Íslandi gæti haft á efnahag landsins til lengri tíma litið.
Fjallað er um rannsókn OECD þar sem sýnt er fram á samband á milli námsárangurs og framleiðni. Frá 2006 hefur árangur íslenskra nemenda í PISA lækkað um 40 stig, en stigagjöf í PISA virkar þannig að börn hækka um 20 stig að jafnaði á hverju skólaári. Afturför íslenska skólakerfisins undanfarin ár jafngildir því að grunnskólanemar hafi tapað tveimur árum af kennslu. Samkvæmt rannsókn OECD getur þessi afturför leitt til marktæks samdráttar í framleiðni og þar með lífskjara á Íslandi.
Til að sporna við þessari þróun leggur OECD fram tillögur sem miða að því að styrkja stöðu menntakerfisins til lengri tíma litið. Þar vega þyngst tillögur um samræmt námsmat annars vegar og einföldun aðalnámskrár hins vegar.
Þörf á samræmdu námsmati í dreifstýrðu kerfi
Íslenska menntakerfið er meðal þeirra dreifstýrðustu innan OECD. Rannsóknir stofnunarinnar hafa bent til þess að dreifstýrð kerfi, líkt og hið íslenska, geti skilað auknum árangri í menntamálum, að því gefnu að það sé til staðar miðstýrt eftirlit sem framkvæmir mat á árangri skóla í gegnum samræmt námsmat. Þannig megi bera árangur skóla saman, læra af því sem vel gengur og beina stuðningi á þá staði sem helst er þörf á.
Þetta sé aftur á móti ekki raunin á Íslandi. Menntamálaráðuneytið hafi lítið eftirlit með árangri skóla og hlutist afar sjaldan til í einstaka skólum. Stærsti takmarkandi þátturinn þegar kemur að í bættum árangri og stuðningi yfirvalda við skóla sem eiga undir högg að sækja sé skortur á samanburðarhæfum gögnum.
Þá bendir OECD jafnframt á að ef notast sé við skólaeinkunnir sem eina mælikvarðann við inntöku í menntaskóla veki það upp áhyggjur um hvort gætt sé að sanngirni og jafnræði við inntöku í skólana, í ljósi þess að einkunnirnar séu ekki samræmdar.
Af þessu er ljóst að samræmt námsmat og aðgengi að þeim gögnum er lykilatriði í því að bæta ákvarðanatöku í menntakerfinu, styðja við þá skóla sem þurfa á stuðningi að halda og tryggja bættan árangur nemenda og hagkerfisins í heild til lengri tíma litið.
Einföldun námskrár nauðsynleg
Annar lykilþáttur í versnandi árangri í menntamálum er það sem OECD kallar „ofhleðslu námskrár“ (e. curriculum overload). Hugtakið er notað yfir það þegar nýju efni er bætt við námskrá án þess að aðlaga aðra hluta að nýja efninu. Þetta getur komið niður á árangri í kjarnaatriðum í námi grunnskólabarna, líkt og reikningi og læsi.
Aðalnámskrá, sem samþykkt var 2011, leggur áherslu á sjö grunnþætti menntunar; læsi, sjálfbærni, lýðræði, mannréttindi, jafnrétti og heilbrigði auk velferðar og sköpunar. OECD bendir á að Ísland verji minni tíma í lykilþætti menntunar, líkt og lestur, skriftir og bókmenntir, samanborið við önnur lönd. Þá hafi eftirlitsaðilar jafnframt lýst áhyggjum af því hve víðtæk íslenska námsskráin er. Það geti dregið athygli frá færni í kjarnaatriðum.
OECD leggur til að námskráin verði einfölduð, sett verði skýrari markmið í náminu þvert á greinar og aukin áhersla verði lögð á færni í kjarnafögum líkt og læsi og reikningi.
Menntamál eitt stærsta efnahagsmálið
Viðskiptaráð fagnar úttekt OECD á menntamálum á Íslandi og tekur undir þá áherslu sem lögð er á samband menntunar og efnahagslegs árangurs til framtíðar. Ef Ísland ætlar áfram að vera í fremstu röð meðal þjóða er árangur í menntamálum lykilatriði í að byggja stoðir undir hagkerfi framtíðarinnar.
Ráðið bindur vonir við að stjórnvöld taki ábendingum OECD alvarlega og ráðist verði í þær breytingar sem lagðar eru til í skýrslunni. Áhersla á aukinn árangur í menntamálum getur haft veruleg jákvæð efnahagsleg áhrif, nemendum, kennurum og þjóðfélaginu öllu til heilla.