Viðskiptaráð Íslands

Skilvirkni og hagkvæmni til lausnar á vanda heilbrigðiskerfisins

Það er mat Viðskiptaráðs að leggja skuli áherslu á að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri innan heilbrigðiskerfisins og hefur ráðið skilgreint fimm leiðir í þá átt.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, og Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar Höfða

Biðlistar í heilbrigðiskerfinu lengjast, þjónustu er ábótavant og Landspítalinn hefur lýst yfir miklum vanda á sama tíma og stórar áskoranir eru framundan. Ljóst má þykja að stóraukin framlög hafa ekki – og munu líklega ekki – leysa þann vanda sem til staðar er. Það er því mat Viðskiptaráðs að leggja skuli áherslu á að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri innan heilbrigðiskerfisins og hefur ráðið skilgreint fimm leiðir í þá átt.

Þetta er á meðal þess sem kom fram á fundi Viðskiptaráðs Íslands um stöðu og framtíðarhorfur í heilbrigðismálum sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins í gær. Fundurinn var haldinn undir yfirskriftinni Alltaf á þolmörkum sem einnig er heiti nýútgefinnar kynningar Viðskiptaráðs um sama málefni.

Gestir fundarins voru þau Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins og Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar Höfða. Ari Fenger, formaður VÍ opnaði fundinn og Svanhildur Hólm, framkvæmdastjóri VÍ, stýrði umræðum.

Mönnunarvandinn þarf ekki að koma á óvart

Í opnunarávarpi sínu fór Ari Fenger yfir þá staðreynd að umræða um heilbrigðismál sé bæði flókin og viðkvæm. Viðfangsefnið sé gjarnan tæknilegs eðlis og upplýsingar óaðgengilegar en um leið sé gerð sterk krafa um greitt aðgengi að heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki. Umræðan einkennist of oft af yfirborðskenndum upphrópunum og pólitískri tækifærismennsku en í umræðu á grundvelli staðreynda sé fólgið tækifæri til að marka stefnu sem tryggi að Íslendingar búi við fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu.

Ari ræddi einnig um þau þrjú úrræði sem teikna má upp til að bregðast við stöðunni í íslensku heilbrigðiskerfi, það er aukna skattheimtu; aukna kostnaðarþáttöku; og aukna hagkvæmni. Hann sagði Viðskiptaráð Íslands hvorki telja ráðlegt að auka skattheimtu né kostnaðarþáttöku og sagði því til rökstuðnings að skattar hér á landi séu nú þegar með þeim hæstu meðal OECD-ríkja og að aukin kostnaðarþátttaka sjúklinga myndi einfaldlega draga úr jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Hann undirstrikaði því það mat Viðskiptaráðs að leggja ætti áherslu á að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri innan heilbrigðiskerfisins en ráðið hefur einmitt skilgreint fimm leiðir í þá átt og eru þær útlistaðar í kynningu ráðsins.

Þá ávarpaði Ari margumræddan mönnunarvanda heilbrigðiskerfisins og sagði: „Mönnunarvandinn þarf í raun kannski ekki að koma á óvart. Ef ég sem stjórnandi segði að starfsfólkið á mínum vinnustað fengi lág laun, slæman aðbúnað og þyrfti að búa við erfiða vinnustaðamenningu þá kæmi það mér að minnsta kosti ekki á óvart þó það gengi erfiðlega að ráða inn nýtt fólk.“

Róðurinn þyngist en sveigjanleiki er lykillinn

Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins, sem ávarpaði fundinn frá Stokkhólmi, fór meðal annars yfir hvernig það að einfalda hlutina og minnka skriffinnsku hafi aukið skilvirkni sjúkrahússins undir hans stjórn. Hann sagði ljóst að bæta þyrfti samtal innan íslenska heilbrigðiskerfisins, gegnsæi þurfi að vera meira og að auka þurfi aðgengi allra aðila kerfisins að upplýsingum. Þá lagði hann áherslu á að nýta þurfi fámennið í íslensku samfélagi til að auka sveigjanleika kerfisins enda hafi það kristallast í faraldri síðustu mánaða að sveigjanleiki sé það sem þurfi. Þar segir Björn að fjárhagslegir hvatar geti skipt miklu en benti einnig á að þó að íslenska þjóðin sé ennþá ung þá sé mikilvægt að halda vel á spilunum því róðurinn muni halda áfram að þyngjast samhliða hækkandi meðalaldri.

Mismunun í kerfi þar sem öll eiga að vera jöfn

Ástæður þess að fara í einkarekstur eru meðal annars „að skapa, upplifa sjálfstæði, njóta endurgjalds fyrir framlag umfram starfsskyldur​ og að skapa umhverfi sem er eftirsóknarvert fyrir hæft fólk sérhæfa sig í“ að því er Gunnar Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar Höfða, sagði í framsögu sinni. Þá benti Gunnar Örn á að í samanburðarlöndum okkar sé heilsugæsla oftar en ekki einkarekin þó löndin búi að öðru leyti við opinbert heilbrigðiskerfi og lagði um leið áherslu á að í umræðunni megi ekki rugla saman einkavæddu kerfi, líkt og í Bandaríkjunum, annars vegar og einkarekstri sem hluta af opinberu heilbrigðiskerfi, eins og víða tíðkast með góðum árangri, hins vegar.

Gunnar sagði að þrátt fyrir að Höfði sýnt fram á mikla framleiðsluaukningu, verið leiðandi á sviði nýsköpunar og borið sigur úr býtum í þjónustukönnunar Sjúkratrygginga Íslands, þá upplifi starfsfólk Höfða skort á samskiptum og áhuga af hálfu hins opinbera. Þetta skeytingarleysi, sem og fjárhagsleg mismunun, komi spánskt fyrir sjónir í kerfi sem þó segir að öll eigi að standa jafnfætis en í því samhengi benti Gunnar á að einkareknar heilsugæslustöðvar fái ekki bara lægra fjármagn en heilsugæslur hins opinbera heldur sé þeim einnig gert að greiða hærri kostnað. Að sögn Gunnars hafa Sjúkratryggingar Íslands viðurkennt þessa mismunun án þess að gripið hafi verið til aðgerða og voru skilaboð hans til ráðherra heilbrigðismála því skýr – „að leiðrétta mismunun og sameina heilbrigðiskerfið aftur​.“

Mikilvægt að fjölga úrræðum og beita réttum hvötum

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ræddi í erindi sínu heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og verkefni á grundvelli hennar sem unnið hefur verið að á kjörtímabilinu. Hún ræddi svo einnig útskriftarvanda heilbrigðiskerfisins og sagði meðal annars að dýrustu legupláss heilbrigðiskerfisins gætu ekki til lengdar verið nýtt af einstaklingum sem sveitarfélögin sjái sér ekki fært að taka við sökum smæðar og skorts á þjónustu. Í því samhengi sagði ráðherrann æskilegt að horfa til frekari sameiningar sveitarfélaga. Svandís sagði það mikilvægt að fjölga þjónustuúrræðum fyrir aldraða og nefndi sem dæmi reynslusögu frá Akureyri þar sem sama fjármagn og þarf til að reka 10 hjúkrunarrými nægir til að bjóða tugum einstaklinga upp á sveigjanlega dagdvöl og þannig gefa þeim kost á að búa heima lengur en ella.

Þá kom Svandís einnig inn á fjármögnun heilbrigðismála og samanburð íslenska kerfisins við nágrannalönd okkar, sem hún telur að mestu koma vel út. Ráðherra tók þó undir orð Björns Zoëga að réttir hvatar gætu skipt miklu og nefndi í því samhengi hið svokallaða DRG fjármögnunarkerfi sem er ætlað að skapa tengsl milli fjármögnunar og kröfunnar um gæði veittrar heilbrigðisþjónustu en Svandís segir að til standi að innleiða slíkt kerfi að fullu á Landspítala og sjúkrahúsinu á Akureyri um komandi áramót.

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands
Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og Björn Zoëga, forstjóri Karolinska sjúkrahússins

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024