Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður og Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs skrifa undir stofnun samstarfsvettvangsins fyrir hönd Viðskiptaráðs Íslands ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Fjöldi fyrirtækja opinberra og einkarekinna skrifaði undir stofnun samráðsvettvangsins. Mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson
Skrifað var undir stofnun samstarfsvettvangs stjórnvalda og fjölda stórra aðila í atvinnulífinu um samstarf í loftslagsmálum.
Forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið; Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Orkuklasinn, Viðskiptaráð Íslands, Bændasamtök Íslands, Íslandsstofa, auk fjölda annarra fyrirtækja standa að samstarfsvettvangnum. Markmiðið er að bæta árangur í loftslagsmálum en jafnframt að miðla árangri Íslands í þeim efnum á alþjóðavettvangi. Horft er annars vegar til þess hvernig hægt er að miðla grænum lausnum og hugviti sem hefur reynst Íslandi vel við að ná árangri og hins vegar að atvinnulíf og stjórnvöld sammælast um markmið um kolefnislaust Ísland 2040.
„Ég fagna því að íslenskt atvinnulíf sýni hug sinn í verki með þessum hætti. Viðskiptaráð Íslands sýndi framsýni fyrir að verða þremur árum þegar umhverfislinsan var kynnt til leiks sem ein af fjórum framtíðarlinsum ráðsins og inn í hana stígum við nú full af bjartsýni og krafti," sagði Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður ráðsins af þessu tilefni.