Viðskiptaráð Íslands

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan er á ensku og fjallar um íslenskt efnahagslíf í víðu samhengi.

Í skýrslunni er að vanda fjallað um hagþróun síðustu mánaða, skammtímahagvísa, þróun í utanríkisviðskiptum, samkeppnishæfni og stofnanaumgjörð, svo eitthvað sé nefnt.

Íslenska hagkerfið hefur tekið hressilega við sér eftir skarpa og djúpa lægð í heimsfaraldrinum. Hagvöxtur mældist 6,4% á síðasta ári, en það var mesti hagvöxtur sem mælst hefur undanfarin 15 ár. Þrátt fyrir að hann hafi verið á breiðum grunni vó kröftug innlend eftirspurn og vaxandi þjónustuútflutningur þungt. Hagspár gera ráð fyrir minni hagvexti í ár, en þar mun minnkandi fjárfesting og samdráttur í einkaneyslu vega þyngst.

Þessi mikli hagvöxtur kom samhliða mikilli gerjun á húsnæðismarkaði og aukinni innlendri eftirspurn sem orsakaði mikla verðbólgu. Samhliða hárri verðbólgu hefur taumhald peningastefnunnar aukist, en stýrivextir hafa verið hækkaðir fjórtán sinnum í röð og standa nú í 9,25%. Þrátt fyrir að merki séu um að hægja muni á verðbólgunni á næstu misserum, með samdrætti í innlendri eftirspurn, er ljóst að hún er enn mjög há, en spár gera ráð fyrir að hún verði 8,7% árið 2023.

Fjöldi starfandi á vinnumarkaði var 229.000 í júlí, sem er mikil fjölgun frá heimsfaraldrinum, þegar fjöldi starfandi fór niður í 179.000 í júlí 2021. Störfum hefur fjölgað mest í ferðaþjónustu. Sömuleiðis hefur fjöldi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði aldrei verið meiri, en innflytjendur voru 23% af starfandi hér á landi í ágúst síðastliðnum.

Ísland er fremst meðal þjóða í endurnýjanlegri orku í heiminum, þar sem 85% af orku sem neytt er hér á landi er endurnýjanleg. Ísland hefur jafnframt sett sér það markmið að vera óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þrátt fyrir þessi háleitu markmið hefur verið stöðnun í frekari nýtingu grænna orkuauðlinda og stór óvissuþáttur í nýjustu hagspám er hvort takast muni að mæta orkuþörfum framtíðarinnar.

d3ccb4ec-0a4a-4b3e-9ab9-ce654a36915b

Ísland er í 16. sæti í árlegri samkeppnishæfniúttekt IMD árið 2023 og stendur í stað á milli ára. Niðurstöðurnar endurspegla góða innviði Íslands og miklar framfarir í efnahagslegri frammistöðu. Þó ber að líta til þess að skilvirkni hins opinbera hefur ekki verið minni í átta ár og auk þess dregst Ísland lítillega aftur úr þegar kemur að skilvirkni atvinnulífs. Samhliða úttektinni eru einnig birtar niðurstöður úr stjórnendakönnun, þar sem stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru beðnir um að útlista atriði sem þeir telja eftirsóknarverð við Ísland þegar kemur að því að stunda viðskipti. Þar kemur fram að hátt menntunarstig, aðlögunarhæfni hagkerfisins og opið og jákvætt viðhorf séu á meðal helstu styrkleika Íslands.

Viðskiptaráð býður upp á kynningar á skýrslunni. Nánari upplýsingar veita Gunnar Úlfarsson (gunnaru@vi.is), hagfræðingur Viðskiptaráðs og Ragnar Sigurður Kristjánsson (ragnars@vi.is), sérfræðingur á hagfræðisviði.

Tenglar

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024