Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands

Föstudaginn 23. febrúar var úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs. Um 20 umsóknir bárust í sjóðinn að þessu sinni og voru mjög fjölbreytt og spennandi verkefni sem óskuðu eftir stuðningi úr sjóðnum. Að lokum ákvað valnefnd Framtíðarsjóðs að styrkja sex verkefni og hlýtur hvert verkefni 1 m.kr. í styrk. 

Meginhlutverk Framtíðarsjóðs er að veita styrki vegna rannsókna og annarrar vinnu tengdri framþróun menntunar og eflingar íslensks atvinnulífs. 

Valnefnd Framtíðarsjóðs skipa Andri Heiðar Kristinsson, fjárfestingastjóri hjá Frumtaki Ventures, Kolbrún Hrafnkelsdóttir, stofnandi lyfjafyrirtækisins Florealis, og Þór Sigfússon, stofnandi íslenska sjávarklasans. 

Þau verkefni sem hljóta styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs eru eftirfarandi: 

Bidd Útboðsvefur 

Markmið með Bidd Útboðsvef er að bjóða upp á aðgengilega leið til að einfalda útboðsferli opinberra aðila og fyrirtækja, með aukinni sjálfvirknivæðingu og hagnýtingu gagna m.a. með notkun á gervigreind, til þess að ná fram betri árangri og sparnaði í innkaupum. 

Þróun og forritun grunnútgáfu vefsins er komin vel á veg og er stefnt að því að smíða fullbúna lausn í apríl/maí á þessu ári fyrir stofnanir sem inniheldur öllum grunnþáttunum sem útboðsvefur þarf að hafa. Í kjölfarið verður innleidd virkni fyrir einkamarkaðinn. 

Bidd stefnir á að fara á erlendan markað á 3ja ári reksturs, en þetta ár og næsta verður eingöngu á Íslandi. Mikil tækifæri eru á að bjóða upp á vöruna á erlendum markaði, þar sem vandamálin í innkaupum eru ekki aðeins til staðar á Íslandi heldur um allan heim. 

Þeir sem standa að Bidd útboðsvef eru: Baldvin Bjarki Gunnarsson, Kristinn Þór Sigurðsson, Gylfi Már Hrafnsson og Leó Fannar Sævarsson.  Andri Heiðar Kristinsson f.h. valnefndar og Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Dr. Edda Blumenstein 

Dr. Edda Blumenstein er með doktorsgráðu í Omni channel umbreytingu verslunar (e. retailing transformation) og færni til framþróunar (e. dynamic capabilities) frá Leeds University Business School. 

Verkefnið er að þróa samkeppnisrýni (e. retail index) fyrir verslunarfyrirtæki á Íslandi. Markmiðið er að efla samkeppnishæfni verslunar á Íslandi við landamæralausa verslun, með árlegri vísitölumælingu sem veitir stjórnendum mælanlegar upplýsingar um hæfni fyrirtækisins og væntingar viðskiptavina. Í dag eru engar rannsóknir til um samkeppnishæfni verslunarfyrirtækja á Íslandi og engar rannsóknir til um kröfur viðskiptavina á Íslandi til verslunarfyrirtækja. 

Ávinningur af samkeppnirýni er heildrænt mat á samkeppnishæfni verslunar á Íslandi og einstakra markaða innan hennar, sem og skýr sýn á hvaða framþróunarverkefni verslunarfyrirtækin í landinu þurfa að ráðast í til að efla samkeppnishæfni sína við landamæralausa verslun. 

Thelma Sif Sófusdóttir, tengdadóttir Eddu, tók við styrknum fyrir hönd tengdamóður sinnar.

Eyja Camille Pauline Bonthonneau 

Eyja Camille Pauline Bonthonneau stundar meistaranám í Efnaverkfræði (e. Process Engineering) við ETH háskólann í Zürich.  Meistaraverkefni hennar snýst að því að þróa tölvulíkan af háhita-varmadælu en þær má nota til að rafvæða orkufrekan iðnað, með það að markmiði að nýta endurnýjanlega orkugjafa. 

Varmadælur má nýta í ýmiss konar iðnaði til þess að auka orkunýtni og til að nýta varma frá varmauppsprettum sem annars eru ónothæfar, svo sem glatvarma (e. waste heat) frá öðrum iðnaðarferlum. Helsta áskorun háhitavarmadæla er að finna rétta kælivökvann og samsvarandi breytur í efnaferlinu sem hámarka orkunýtnina. Áhersla verður lögð á náttúrulega kælivökva sem eru umhverfisvænni valkostir en ýmis gerviefni sem hafa verið notuð í gegnum tíðina.  

Rannsóknin snýst um að útbúa líkan sem gefur heildarsýn á efnaferli háhita-varmadælu. Rétt val á kælivökva fyrir ákveðið kerfi af varmauppsprettu og varmasvelg er gífurlega mikilvægt en valið er einnig háð hönnun efnaferlisins sjálfs. Til að tryggja bestu orkunýtnina þarf því að hanna bæði kælivökvann og efnaferlið samtímis. 

Varmadælur henta mjög vel í iðnaði á Íslandi þar sem stærsti hluti rafmagns kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Með því að nota háhitavarmadælur við framleiðslu háhitavarma má stuðla að aukinni orkunýtni og um leið hámarka nýtingu verðmætra auðlinda. Varmadælur má nýta í ýmsum iðnaði á Íslandi eins og í sjókvíaeldi, við spreyþurrkun í mjólkurframleiðslu, til húshitunar og til nýtingar glatvarma frá jarðvarmavirkjunum. Auknar rannsóknir á háhitavarmadælum eru því mikilvægar til að þróa tæknina áfram og flýta þannig fyrir innleiðingu hennar í íslenskum iðnaði svo hægt sé að nýta orkuna betur og auka verðmætasköpun. 

Guðrún Fanney Sigurðardóttir, móðir Eyju, tók við styrkjnum fyrir hönd dóttur sinnar.

Icelandic Corporate Venture Investing Newtork (ICVIN) 

Tilgangurinn með stofnun Icelandic Corporate Venture Investing Network (ICVIN) er að skapa faglegan vettvang (e. platform) byggðan á trausti sem tengir saman sprotafyrirtæki og fyrirtæki í hugverkaiðnaði, hvort sem um ræðir íslensk fyrirtæki og íslenska sprota eða þá erlend fyrirtæki (e. CVC) og íslenska sprota í hugverkaiðnaði. Þannig næst að virkja þetta annars ónýtta tækifæri og skapa tækifæri til framtíðar fyrir íslenskt atvinnulíf. 

Markmiðið með fyrstu stigum er að hafa náð að byggja faglegan vettvang (e.platform), tengja nokkur fyrirtæki (og/eða þeirra sjóði, íslensk og erlend) við íslensk sprotafyrirtæki í hugverkaiðnaði og halda fræðandi viðburð (sem er nú þegar í undirbúningi) vorið 2024 þar sem að fyrirtækjum, sprotum og hagaðilum verður boðið að koma saman. Nú þegar mun eitt af stærri hátæknifyrirtækjum í Þýskalandi taka þátt og vera með ´Masterclass´ á því hvernig þeir hafa gert þetta og einnig verður sprotafyrirtæki sem segir frá þeirra samstarfi við þá. 

Aðalsteinn Kornelíus Gunnarsson og Alexander Jóhönnuson standa að ICVIN. 

Dr. Magnús Kjartan Gíslason 

Dr. Magnús Kjartan Gíslason er dósent við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Verkefni hans er þróun á kerfi sýndarveruleika til greiningar og meðferðar á stoðkerfisvandamálum. Notkun sýndarveruleika (e. mixed reality) getur haft mikil áhrif í heilbrigðistækni í framtíðinni og í raun þá er þetta svið best til þess fallið til að nýta styrkleika tækninnar. Nú þegar er verið að framkvæma rannsóknir á sjóveiki í Háskólanum í Reykjavík með notkun svipaðrar tækni. Nú þegar er notast við sýndarverleikagleraugu en þau geta fylgt eftir hreyfingum augnanna sem oft geta gefið vísbendingar um ástand sjúklingsins. 

Þegar hafa verið keypt gleraugu frá finnska fyrirtækinu Varjo sem uppfylla þær gæðakröfur sem til þeirra eru gerðar. Fengnir hafa verið sérfræðingar á sviði forritunar á þessu sviði með í verkefnið og er stefnt á að hafa grunnvirkni í kerfinu tilbúna um mitt ár 2024, þar sem fókusað er á háls-og höfuðhreyfingar. Grunnrannsóknir verða framkvæmdar á síðari  hluta 2024 sem hluti af M.Sc. verkefnum við HR með því markmiði að spinna út verkefninu yfir í nýsköpunarfyrirtæki. 

Magnús Kjartan Gíslason ásamt Andra Heiðari og Svanhildi Hólm.

Dr. Paolo Gargiulo  

Dr. Paolo Gargiulo er prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík og forstöðumaður heilbrigðistækniseturs HR. Paolo er frumkvöðull í þróun og þrívíddaprentun líffæralíkana til nota í klínískum aðgerðum.  

Verkefni hans sem færa þekkingu í sýndarveruleika, þrívíddarprentun og AR tækni í heilbrigðisfræðslu mun þjóna fjölþættum tilgangi; efla menntun, mat, þjálfun, rannsóknir og öryggi sjúklinga. 

Sigmundína Sara Gargiulo tók við styrknum fyrir hönd föður síns.

Viðskiptaráð vill koma á framfæri kærum þökkum til allra þeirra sem sóttu um í Framtíðarsjóð og vonum við að styrkurinn komi að góðum notum hjá styrkþegum.

Tengt efni

Viðskiptaráð leitar að framkvæmdastjóra

Viðskiptaráð Íslands er heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í ...
22. jan 2024

Vilt þú efla samkeppnishæfni Íslands?

Nú er opið fyrir umsóknir um styrki úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands. ...
5. des 2023