Viðskiptaráð Íslands

Vegna ábendingar frá Hagstofu Íslands

Greinin „Hvers vegna vill Viðskiptaráð sameina stofnanir?“ eftir Frosta Ólafsson, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, birtist í Morgunblaðinu þann 12. janúar síðastliðinn. Í greininni var borinn saman starfsmannafjöldi hagstofa í nokkrum ríkjum. Þann 16. janúar birtist í sama blaði grein eftir Ólaf Hjálmarsson, hagstofustjóra, þar sem fram komu athugasemdir Hagstofu Íslands við þær tölur sem fram komu í upphaflegu greininni.

Í grein Ólafs kemur fram að Hagstofan geri tvær athugasemdir. Annars vegar hafi fjöldi ársverka hjá stofnuninni verið 106 árið 2014 en ekki 183 eins og kom fram í grein Frosta. Hins vegar að starfsfólk hagstofa sambandsríkja Þýskalands hafi ekki verið talið með í tölum um fjölda starfsmanna hjá hagstofu Þýskalands, en eðlilegra sé að það sé meðtalið. Sé það gert sé starfsmannafjöldinn 6.757 en ekki 2.770 eins og kom fram í grein Frosta.

Viðskiptaráð hefur leiðrétt þessar tölur í samræmi við framangreindar athugasemdir. Fjöldi stöðugilda hjá Hagstofu Íslands var fenginn með því að telja fjölda starfsmanna á vefsíðu stofnunarinnar sem þá var 183, en ársskýrsla vegna ársins 2014 lá ekki fyrir þegar myndin var útbúin. Þá tekur ráðið undir það sjónarmið að eðlilegra sé að telja svæðisskrifstofur með þegar fjöldi starfsmanna hjá hagstofu Þýskalands er talinn.

Í þessu samhengi telur ráðið þó rétt að benda á að aðrir þættir koma einnig til álita í samanburði sem þessum. Þannig er hagskýrslugerð ítarlegri í fjölmennari ríkjum, til dæmis þegar kemur að tölfræði tengdri fyrirtækjum og einstökum atvinnugreinum, og verkefnaumfangið því meira. Ef bera ætti saman fjölda stöðugilda á hverja milljón íbúa miðað við sambærilegt verkefnaumfang væri munurinn því að öllum líkindum meiri en kemur fram á myndinni.

Samanburðurinn felur ekki í sér gagnrýni á umsvif eða starfsmannafjölda Hagstofu Íslands. Ætlunin með honum er að vekja athygli á þeirri staðreynd að örríki eins og Ísland ber hærri hlutfallslegan kostnað af því að halda uppi stofnanakerfi en fjölmennari ríki. Þannig leiða samræmdar alþjóðlegar skuldbindingar til þess að kostnaður Íslendinga af rekstri hagstofu verður óhjákvæmilega meiri en í fjölmennum ríkjum. Íslendingar njóta einfaldlega minni stærðarhagkvæmni þegar kemur að rekstri stofnanakerfisins en íbúar fjölmennari ríkja.

Þessi staðreynd er meðal ástæðna þess að ráðið lagði nýverið fram 30 tillögur um sameiningar ríkisstofnana. Með þeim tillögum væri unnið gegn þessum áhrifum og opinberum stofnunum hérlendis sniðinn stakkur eftir vexti. Slíkar aðgerðir eru til þess fallnar að skila Íslendingum bæði fjárhagslegum ávinningi í formi lægri umsýslukostnaðar og einnig faglegum ávinning í formri bættrar þjónustu hjá fjölmennari stofnunum.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024