Viðskiptaráð Íslands

Vegna athugasemda Landspítala

Landspítali hefur gert athugasemdir við umfjöllun Viðskiptaráðs sem birtist þann 19. september síðastliðinn undir yfirskriftinni „Óskilgreind fjárútlát gagnast ekki sjúklingum“.

Viðskiptaráð tekur undir sjónarmið Landspítalans um að ýmis atriði greinarinnar verðskuldi ítarlegri umfjöllun. Þá má jafnframt taka undir að orðalag úttektarinnar hafi verið of afdráttarlaust með hliðsjón af því að ekki er um tæmandi umfjöllun að ræða. Ráðið hefur því tekið tillit til athugasemda spítalans og uppfært umfjöllunina til samræmis.

Að því sögðu eru meginskilaboð umfjöllunarinnar þau sömu og áður: Stjórnvöldum hvers tíma ber að tryggja að aukin fjárframlög til heilbrigðismála nýtist í aukna þjónustu við sjúklinga eða lækkun kostnaðarþátttöku þeirra. Til að svo megi verða ættu aukin fjárútlát til heilbrigðismála að vera eyrnamerkt slíkum umbótum. Það er því eðlileg krafa að stjórnmálaöfl geri betur grein fyrir með hvaða hætti þau hyggjast ráðstafa þeim auknu útgjöldum sem lofað hefur verið til heilbrigðismála. Skýr stefna í heilbrigðismálum skiptir sköpum fyrir árangur.

Í umfjölluninni var ekki tekin afstaða til þess hvort þörf hafi verið á umframlaunahækkunum heilbrigðisstarfsfólks. Jafnframt var tekið fram að Viðskiptaráð geri ekki lítið úr mikilvægi þess að heilbrigðisstarfsfólki bjóðist samkeppnishæf laun á Íslandi. Markmið launahækkana ætti þó alltaf að vera betri þjónusta fyrir skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins. Það eru sanngjörn og skynsamleg sjónarmið.

Þá er rétt að undirstrika að allar þær upplýsingar sem birtar eru í umfjöllun ráðsins byggja á opinberum gögnum. Þar ber helst að nefna nýlega úttekt McKinsey & Company á starfsemi Landspítalans. Í umræddri úttekt birtist orðrétt eftirfarandi texti:

„Frá árinu 2012 hefur launakostnaður verið helsta ástæða aukins rekstrarkostnaðar Landspítalans. Aukningin hefur einkum verið vegna aukins kostnaðar á hvert stöðugildi en fjölgun stöðugilda hefur verið takmörkuð. Vegna nýlegra kjarasamninga hins opinbera hafa laun á Landspítalanum hækkað hraðar en meðallaun á Íslandi. Sérstaklega hafa laun lækna hækkað en það var talið nauðsynlegt til þess að gera störf þeirra meira aðlaðandi. Á sama tíma og kostnaður hefur aukist hafa afköst á sjúkrahúsinu minnkað […]“

Jafnframt hefur landlæknir reifað þá skoðun sína að úttekt McKinsey sýni fram á alvarlegan skort á stefnumörkun þar sem engin heildarstefna sé ráðandi. Jafnframt komu fram hjá honum sömu sjónarmið og í umfjöllun Viðskiptaráðs um að lítið hafi komið fram um með hvaða hætti stjórnmálaöfl hyggist ráðstafa þeim fjármunum sem stefnt er að því að leggja í heilbrigðiskerfið. Orðrétt segir hann “að setja meiri fjármuni í heilbrigðiskerfið án þess að marka skýra stefnu er held ég bara að henda peningum í sjóinn”. Stjórnmálamenn þurfa að taka þessi sjónarmið alvarlega.

Það er öllum til hagsbóta að heilbrigðiskerfið skili sem mestum árangri með sem hagkvæmustum hætti. Viðskiptaráð tekur undir þá skoðun forsvarsmanna Landspítalans að úttekt McKinsey sé góður grunnur að samtali um Landspítalann og heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Með það í huga hyggst ráðið standa að opnu málþingi fyrir kosningar þar sem fulltrúum stjórnmálaflokkanna gefst kostur á að reifa skoðanir sínar á úttekt McKinsey og kynna áherslur sínar í heilbrigðismálum. Landspítalanum er boðið að halda málþingið í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands.

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024