Kristín Friðgeirsdóttir, stjórnarformaður Haga og prófessor við London Business School, fjallaði í ræðu sinni á Viðskiptaþingi um þær miklu áskoranir sem íslensk fyrirtæki þurfa að takast á við til að geta keppt á sístækkandi mörkuðum.
Talaði Kristín um að erlend samkeppni færðist í sífellt auknum mæli til Íslands, bæði þegar fyrirtæki færa starfsemi sína til landsins og í gegnum vefinn. Þannig eykst samkeppnin hér á landi og sagði hún að í ljósar lágrar framleiðni yrði það mikil áskorun fyrir innlenda þjónustugeirann að bregðast við samkeppninni.
Stjórnvöld verða að bregðast við áskorunum
Kristín sagði samkeppni þó vera lykilhvata til að auka framleiðni. Stjórnvöld þyrftu því að búa um spottana svo íslensk fyrirtæki geti keppt en íþyngjandi regluverk gæti valdið því að mikill tími fyrirtækja fari í annað en kjarnastarfsemi. Kristín nefndi í því samhengi að stór hluti regluumhverfis á Íslandi væri séríslenskt og skerði stöðu fyrirtækjanna gagnvart erlendri samkeppni.
Setja þarf markmið
Kristín sagði ómögulegt að ná fram breytingum án þess að skýr markmið liggi fyrr. Bæði fyrirtækjastjórnendur og stjórnvöld geti unnið að umbótum og nefndi Kristín nokkur verkefni fyrir báða aðila. Meðal annars sagði hún að stjórnvöld þyrftu að opna markaði, auka stöðugleika og fyrirsjáanleika í ytri umgjörð fyrirtækja og tryggja hagfellt regluverk og stofnanaumhverfi. Stjórnvöld þyrftu enn fremur að ráðast í samkeppnishæfa fjárfestingu í menntun.
Kristín sagði að fyrirtæki gætu náð samkeppnisforskoti með því að ná fram stærðarhagkvæmni, byggja upp innviði í fastafjármunum og fjárfesta í nýrri þekkingu. Einnig þyrftu þau að geta aðlagast breytingum með skjótum hætti og taka upp nýjungar.
Að lokum sagði Kristín að fagna ætti útvíkkun markaða en gæta þyrfti að því að fyrirtæki og stjórnvöld séu tilbúin fyrir hana.