Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, fjallaði í erindi sínu á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, um það hvað hið opinbera og einkageirinn eiga sameiginlegt, og hvað sé ólíkt á milli þeirra.
Sagði Ragnhildur hið opinbera og einkageirann eiga margt sameiginlegt. Hjá hinu opinbera ætti það til að mynda ávallt að vera markmið að auka framleiðni og veita betri þjónustu, á sama hátt og í viðskiptalífinu. Hins vegar stefndi atvinnulífið sífellt að auknu umfangi arðbærrar starfsemi og jafnvel fjölgun starfa. Það ekki að vera markmið hjá hinu opinbera að auka umsvif sín og fjölga störfum, þó það kynni að vera óhjákvæmilegt í einhverjum tilfellum.
Þrátt fyrir að margt sé ólíkt milli þeirra lagði Ragnhildur áherslu á að atvinnulífið og hið opinbera myndi eina heild, sem vinni að mörgu leyti að sameiginlegum markmiðum, bættum lífskjörum hérlendis. Því sé mikilvægt að þessir geirar tali reglulega saman.
Innleiðing breytinga er alltaf áskorun
Þá sagði hún innleiðingu breytinga alltaf vera áskorun, jafnt hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Hins vegar væri hið opinbera þess eðlis að mismunandi kraftar í samfélaginu toguðust sífellt á um breytingar og það hvert hlutverk hins opinbera eigi að vera. Velti Ragnhildur upp þeirri spurningu hvort breytingar ættu hreinlega að vera erfiðari hjá hinu opinbera en á einkamarkaði. Hagsmunaaðilar væru margir og ólíkir og ákveðinn stöðugleiki væri nauðsynlegur í framkvæmd hins opinbera.
Tölvan segir stundum já
Í máli Ragnhildar kom fram að hún teldi tækifæri til umbóta hjá hinu opinbera meðal annars felast í auknum sveigjanleika í stjórnsýslu, miðlægri stoðþjónustu, sveiganlegri starfsmannastefnu og einföldun regluverks. Þá nefndi hún einnig að móta mætti skýrari langtímastefnu og auka gagnsæi og upplýsingamiðlun. Hins vegar sagði hún tölvuna í mörgum tilfellum segja já í daglegum störfum stjórnsýslunnar og ekki mætti gleymast að vel hefur tekist til á mörgum sviðum við byggingu innviða samfélagsins. Við ættum að halda áfram að vinna saman því hagsmunir okkar séu sameiginlegir, þegar allt kemur til alls.