Viðskiptaráð Íslands

Hömlulaus höft

Þessa dagana hefur Alþingi til umræðu frumvarp um lögfestingu gjaldeyrishafta. Í gildi eru gjaldeyrishöft sem sett voru á með reglum útgefnum af Seðlabanka Íslands, með heimild í lögum um gjaldeyrismál. Heimildin var bundin við lengd efnahagsáætlunar Íslands gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en hún var framlengd fram á haust í samræmi við framlengingu á samstarfi stjórnvalda við sjóðinn.

Í þeirri tillögu sem liggur fyrir á Alþingi er lagt til að gildistími haftanna verði út árið 2015, með heimild til að fella þau niður komi til réttra aðstæðna. Tvö álitamál vakna þegar slík lögfesting er rædd. Annars vegar hvort slík lög samrýmist forsendum fyrir setningu haftanna og hins vegar hvort þau samrýmist undanþágum frá fjármagnsfrelsisákvæðum EES-samningsins og samþykktum OECD.

Neyðarúrræði sem mikilvægt er að afnema sem fyrst
Í frumvarpi sem varð að lögum árið 2008 var Seðlabankanum veitt heimild til að setja reglur um gjaldeyrishöft. Í greinargerð með því frumvarpi kemur skýrt fram að takmarkanir á fjármagnshreyfingum væru neyðarúrræði og hefðu talsverð neikvæð áhrif. Því væri mikilvægt að afnema þær eins fljótt og auðið væri. Með því að festa höftin í lög er gengið gegn þessu markmiði og um leið verið að takmarka verulega möguleika á reglulegri endurskoðun í samræmi við breyttar efnahagslegar aðstæður. Er þar aftur gengið þvert á upphaflegar ætlanir, sem gerðu ráð fyrir reglulegri endurskoðun, en í greinargerð með lögunum er heimiluðu höftin segir m.a. „Þar sem um verulega íþyngjandi takmarkanir er um að ræða, sem æskilegt er að standi eins stutt og mögulegt er, er lagt til að reglurnar komi til reglulegrar endurskoðunar a.m.k. á sex mánaða fresti.“

Einnig er álitamál hvort lögfesting gjaldeyrishafta samræmist undanþáguákvæði EES-samningsins og samþykktum OECD. Undanþágur frá reglum um frjálst flæði fjármagns gera ráð fyrir að um tímabundna neyðarráðstöfun sé að ræða. Með því að festa höftin í lög þar til þau hafa staðið í yfir sjö ár er tæplega hægt að tala um neyðarúrræði lengur. Þá er ekki um lausn til bráðabirgða að ræða, heldur ráðstöfun sem breytir efnahagsumhverfinu hérlendis til  margra ára.

Regluleg endurskoðun
Í ljósi þess að gjaldeyrishöftum þarf að vera hægt að breyta, hraðara afnám þarf að vera mögulegt og mikilvægt er að standa við ákvæði alþjóðasamninga er réttlæting þess að festa núverandi reglur í lög vandséð. Vera má að einhver ákvæði í því frumvarpi sem nú er rætt auðveldi Seðlabankanum að afnema gjaldeyrishöftin. Hinsvegar réttlætir það ekki fyrirvaralitla lögfestingu þeirra til ársloka 2015.

Með því að veita Seðlabanka Íslands almennar og víðtækar valdheimildir til rúmlega fjögurra ára hefur Alþingi framselt stóran hluta þess efnahagslega valds sem því er ætlað að fara með. Í stað þess að kjörnir fulltrúar taki ákvörðun um áframhald gjaldeyrishafta er málið lagt í hendur Seðlabankans næstu árin. Óeðlilegt er að þingið samþykki svo víðtækt framsal valdheimilda. Eðlilegra væri að heimild til áframhaldandi hafta sé veitt til styttri tíma í einu og að Seðlabankinn komi fyrir Alþingi reglulega og rökstyðji nauðsyn áframhaldandi hafta til að fá hana framlengda.

Aðhald fyrir Seðlabankann og höftin
Höftin voru íþyngjandi íslensku atvinnulífi þegar þau voru sett og verða æ meira íþyngjandi eftir því sem þau standa lengur. Því er nauðsynlegt, ef af lögfestingu verður, að tryggja að til staðar verði ákvæði til aðhalds fyrir Seðlabanka og aðrar stofnanir um að höftum verði aflétt sem fyrst. Því er eðlilegt að skoða annan af tveimur kostum, að lögfesta höftin til skamms tíma eða lögfesta með kröfu um endurskoðun og réttlætingu með reglulegu millibili, líkt og gert er ráð fyrir í reglum Seðlabankans um höftin sem nú eru í gildi.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024