Nú liggur fyrir frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2012. Að því tilefni er ástæða til að huga að þeim skilaboðum eða hvötum sem skattastefna síðustu ára felur í sér. Þar stendur upp úr að þær ríflega 100 breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á sl. þremur árum vinna almennt gegn vinnubrögðum sem eru forsenda efnahagslegrar endurreisnar. Breytingarnar draga úr áhuga og getu til neyslu, þær draga úr umbun fyrir að fólk taki hóflega áhættu, t.d. með þátttöku í atvinnurekstri, þær vinna gegn því að fólk telji fram tekjur, þær hvetja til brottflutnings fólks og fyrirtækja í grænni lendur og þær minnka áhuga heimila og fyrirtækja á fjárfestingu og allri uppbyggingu.
Það er sjálfsagt að rökræða hvort og með hvaða hætti nauðsynlegt var að gera breytingar á skattkerfinu eftir hrun og flestir sættast á að einhverjar þurfti að gera. Einnig er ljóst að eitt mikilvægast verkefni stjórnvalda er og hefur verið að ná tökum á fjármálum hins opinbera. En staðreyndin er þó sú að nú hefur verið búið til skattkerfi þar sem skynsamleg hegðun fyrir einstaklinginn felst í einhverju allt öðru en því sem telst heppilegt fyrir hagkerfið í heild.
Á síðustu árum hafa komið fram mörg dæmi um þetta, þ.e. að fólk breyti skynsamlega fyrir sig en til óhagræðis fyrir heildina. Í fyrra tvöfaldaðist fjöldi þeirra sem tók út fyrirframgreiddan arf vegna hækkunar á erfðafjárskatti, reglur um arðgreiðslur hafa dregið úr áhuga á sjálfstæðri atvinnustarfsemi eins og sjá má á hnignandi fjölda nýskráninga félaga, tvískattlagning á arðgreiðslum hefur komið í veg fyrir að fjármagn komi til landsins frá dótturfélögum, samspil bótakerfis og skattlagningar eru að festa í sessi svarta atvinnustarfsemi, fólk keyrir minna í takti við auknar álögur á eldsneyti og af svipuðum ástæðum drekka Íslendingar minna af áfengi frá ÁTVR og meira af heimabruggi. Fólk flytur búferlum meira en nokkru sinni í seinni tíð og fyrirtæki hafa slitið starfsemi eða flutt hana annað, m.a. vegna þeirrar skattastefnu sem hér er rekin. Svona mætti telja áfram.
Sum þessara dæma eru alvarleg og önnur síður, en það safnast þegar saman kemur. Það væri til mikilla bóta ef skattkerfisbreytingar miðuðu ákveðnar að því að hanna kerfi sem hyglir vinnubrögðum sem eru í samræmi við hagsmuni heildarinnar. Þó það komi ekki á óvart, veldur það samt vonbrigðum að í nýju frumvarpi til fjárlaga er ekki hugað að þessu.
Íslenskt samfélag býr að góðu fólki og stórkostlegum landgæðum og hér er því allt til alls til að skapa lífskjör eins og þau gerast best. En til að nýta þessa styrkleika landsins þarf að búa svo um hnútana að það sé hagfellt fyrir fólk og fyrirtæki að skapa verðmæti - að fólk finni á eigin skinni, hag fjölskyldu sinnar eða fyrirtækis, raunverulegan ávinning af því að láta hendur standa fram úr ermum. Til þess að svo verði þá þarf nýja stefnu í gerð fjárlaga. Um leið og slíkri stefnu verður framfylgt, þá sjá Íslendingar um sig sjálfir og leggja sig eftir því að framleiða eftirsóknarverða vöru eða þjónustu, hagvöxtur styrkist, störf verða til og lífskjör batna. Að þessu ættu þingmenn að huga í umfjöllun um fjárlög á næstu vikum.
Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs