Fjárlög 2010: skaðlegar áherslur

Fjármálaráðherra kynnti í dag Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010. Það kemur fáum á óvart að í frumvarpinu er gert ráð fyrir stórtækum aðgerðum í ríkisfjármálum sem ætlað er að brúa þann mikla fjárlagahalla sem ríkið stendur nú frammi fyrir. Samkvæmt frumvarpinu er stefnt að bata í rekstri sem nemur tæplega 100 mö.kr. en óhætt er að segja að megnið af þeim aðgerðum eigi sér stað í gegnum skattahækkanir.

Samkvæmt stöðugleikasáttmála sem undirritaður var af ríkisstjórn og aðilum vinnumarkaðar í sumar var lögð áhersla á að hlutdeild tekjuöflunar í ríkisfjármálum yrði ekki of mikil. Miðað var við að skattar yrðu lækkandi hlutfall aðlögunaraðgerða og ekki samtals hærri en 45% þeirra fyrir árin 2009 – 2011.

Nú þegar aðgerðir ársins 2009 liggja fyrir í formi bandorms (sem samþykktur var á sumarþingi) og fjárlagafrumvarp ársins 2010 hefur verið kynnt má telja ljóst að verulega er vegið að áðurnefndum stöðugleikasáttmála. Um leið er vegið að heimilum og fyrirtækjum í landinu og jafnvægi milli hins opinbera og almenns vinnumarkaðar. Aðlögunaraðgerðir sumarsins voru nær eingöngu á tekjuhliðinni, í formi hækkaðra skatta og nú eru enn frekari skattahækkanir boðaðar án samsvarandi aðhaldsaðgerða hjá hinu opinbera. 

Meðal þess sem lagt er til í fjárlagafrumvarpinu eru umtalsverðar hækkanir á beinum sköttum einstaklinga og heimila, þ.e. tekju- og fjármagnstekjuskatti, nýir auðlinda-, orku- og umhverfisskattar sem leggjast ekki eingöngu á fyrirtæki í stóriðju heldur á öll fyrirtæki og heimili í landinu í formi hærra orkuverðs, stóraukning á neyslusköttum og vörugjöldum og svo mætti lengi telja.

Það er ljóst að breikka þarf tekjugrunn hins opinbera og ekki getur talist raunhæft að brúa fjárlagagatið eingöngu með aðhaldi í ríkisrekstri – sér í lagi til skemmri tíma. Engu að síður er forkastanlegt hvernig stjórnvöld hyggjast varpa stærstum hluta vandans á löskuð heimili og fyrirtæki í landinu. Nú hefur þegar átt sér stað veruleg aðlögun hjá heimilum og fyrirtækjum sem sést best á verulegum samdrætti í einkaneyslu, hruni í fjárfestingu einkaaðila, auknum gjaldþrotum fyrirtækja og lækkandi launum á almennum vinnumarkaði. Hið opinbera verður að taka þátt með sama hætti. Í ljósi þenslu í ríkisútgjöldum síðustu ár er með öllu ótækt að jafn máttlítil skref séu stigin í átt til niðurskurðar og aðhalds og raun ber vitni í fjárlagafrumvarpinu.  Skattpíning fyrirtækja og heimila, til að verja útgjöld og störf í opinbera geiranum eru í besta falli skammgóður vermir. 

Viðskiptaráð Íslands mótmælir harðlega skattastefnu stjórnvalda, enda vinnur hún gegn markmiðum um endurreisn hagkerfisins, auknu atvinnustigi og uppbyggingu sterks og sjálfbærs velferðarkerfis.

Viðskiptaráð mun á næstu vikum kanna fjárlögin til hlítar og mögulegar leiðir til úrlausnar á bágri stöðu ríkissjóðs. Í nóvember mun ráðið svo gera grein fyrir tillögum sínum í skýrslu. Þetta yrði ekki í fyrsta skipti sem ráðið myndi láta sig varða stöðu ríkissjóðs, en ráðið fjallaði ítarlega um útþenslu ríkissjóðs í skýrslunni Útþensla hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur.

Tengt efni

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023

Reiðir pennar

Haukur Viðar Alfreðsson, doktorsnemi í skattahagfræði, segir Viðskiptaráð fara ...
15. sep 2022