Nú stendur yfir á Alþingi árviss umfjöllun um fjárlög. Þrátt fyrir að skattheimta á Íslandi flokkist nú í alþjóðlegum samaburði undir skattpíningu, þá stendur til að ganga enn lengra. Það er gert með breytingum á skattþrepum tekjuskatts, lægri leyfilegum frádrætti vegna séreignarsparnaðar og ýmsum krónutöluhækkunum gjalda, t.d. á akstur, eldsneyti, áfengi og útvarpshlustun. Þessu til viðbótar er auðlegðarskattur hækkaður enn á ný og hann framlengdur um tvö ár.
Auðlegðarskattur felur í sér eignaupptöku...
Auðlegðarskattur felur í sér tvískattlagningu og beina eignaupptöku sem á sér fá fordæmi. Skattlagning eigna á Íslandi stefnir í að verða hærr en sú ávöxtun sem fjárfestar geta gert ráð fyrir. Boðaður eignaskattur er nú 2% en raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða, sem hafa staðið sig betur en aðrir fjárfestar, er 1,6% að meðaltali síðustu 10 árin.
...sem dregur úr fjárfestingu og tefur uppbyggingu
Nú þegar almenn hræðsla er við að fjárfesta getur aukin skattheimta á fjármagn og eignir varla talist skynsamleg ráðstöfun. Hví að fjárfesta í atvinnustarfsemi þegar allur ávinningur er skattlagður auk þess sem tapsáhætta er ávallt til staðar?
Auðlegðarskatturinn dregur því úr virkni fjármagnsmarkaða og vegur að fjárfestingaumhverfi á Íslandi. Í fyrsta lagi ýta samvirkandi áhrif auðlegðarskatts, verulega hækkaðs fjármagnstekjuskatts og væntinga um afnám gjaldeyrishafta undir skammtímahugsun í fjárfestingum. Verkefni sem þurfa þolinmótt fjármagn, t.d. sprotafyrirtæki eða önnur atvinnuvegafjárfesting, eru hinsvegar sniðgengin eða fjárfestingaráformum frestað. Í öðru lagi eru þeir sem ekki eiga laust fé þvingaðir til sölu eigna til að standa undir auðlegðarskattgreiðslunni, óháð því hvort eignir séu seljanlegar eður ei. Í þriðja lagi þá veldur skatturinn auknum þrýstingi á arðgreiðslur fyrirtækja, til hluthafa sem þurfa að standa skil á auðlegðarskatti. Þessum sömu fjármunum er því ekki varið í að styrkja eiginfjárgrunn fyrirtækja né í uppbyggingu eða fjárfestingu á þeirra vegum. Í fjórða lagi felst í auðlegðarskattinum skýr hvati fyrir eignafólk að flytja skattafesti til annara landa, enda er hvergi að finna sambærilega háa eignaskatta auk þess sem skattalegur sparnaður getur verið vel umfram kostnað þess að halda heimili í öðru landi. Skaðinn af slíkum fólksflutningum felst þá í flótta fjármagns og töpuðum skatttekjum, bæði vegna tekjuskatta sem þessi hópur og fjölskyldur þeirra greiða en einnig allra annara skatta, t.a.m. af neyslu.
Neikvæð áhrif auðlegðarskattsins eru fyrirsjáanleg og langt umfram það sem réttlætanlegt er í ljósi þeirra tekna sem hann skilar ríkissjóði. Þegar horft er til þess að neysla og fjárfesting á Íslandi teljast nú við sögulegt lágmark þá er áhersla stjórnvalda á auðlegðarskatta, og aðra skatta sem vinna gegn fjárfestingu, afar misráðin.
Hvað myndi Buffet borga í auðlegðaskatt?
Algeng réttlæting fyrir álagningu auðlegðarskattsins er sú að eðlilegt sé að breiðu bökin beri aukna skatta og að það sé nauðsynlegt vegna bágrar stöðu ríkissjóðs. Svo er gjarnan vísað til óska útlendra auðmanna um að þeir greiði sjálfir meira í skatta.
Því markmiði að breið bök beri þyngstar byrðar var náð í því skattkerfi sem hér var fyrir umbyltingu þess á síðustu árum, í formi hlutfallslegra tekjuskatta einstaklinga með frítekjumörkum, án eignarskatta. Þannig greiddu þeir sem hærri tekjur höfðu fleiri krónur í skatta og hærra hlutfall launa sinna en þeir sem höfðu lægri tekjur. Hvað varðar samanburð á skattalegum aðstæðum auðugra Íslendinga og útlendinga, þá er hann í besta falli villandi. Til fróðleiks má leggja út af nýlegum fréttum um skattgreiðslur bandaríska fjárfestisins Warren Buffet, en eignir hans voru metnar á tæpa 6.000 milljarða króna og heildartekjur á síðasta ári námu rúmum 7 milljörðum. Skattgreiðslur Buffet námu 800 milljónum það ár, eða 17% af skattskyldum tekjum (11% af heildartekjum).
Ef gert er ráð fyrir að Buffet byggi í vesturbæ Reykjavíkur, hann borgaði skatta á Íslandi og að stofn hans til auðlegðarskatts væri matsverð eigna, þá hefði auðlegðarskattsgreiðsla hans fyrir síðasta ár verið um 90 milljarðar og myndi hækka í um 120 milljarða á næsta ári ef breytingatillögur verða að lögum. Það er um það bil þrettánföld sú upphæð sem hann hafði í tekjur þetta ár og meira en hundrað sinnum það sem hann greiddi í skatta. Þetta er líklega ekki það sem Buffet og aðrir auðugir útlendingar hafa kallað eftir. Þeir eru væntanlega að horfa til þess sem sanngjarnt er, að þeir greiði sambærilegt hlutfall tekna sinna í skatta og aðrir skattgreiðendur. Íslenski auðlegðarskatturinn leggst hinsvegar ekki á tekjur, sem er eðlilegra form skattheimtu, heldur eignir.
Þetta ætti að vera stjórnmálamönnum umhugsunarefni við afgreiðslu fjárlaga og frumvarpa þeim tengdum.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 24. nóvember 2011