Viðskiptaráð Íslands

Uppnám eða uppbygging?

Nú í upphafi vetrar, fjórum árum eftir hrun fjámálakerfis og gjaldmiðils og í upphafi kosningaveturs er forvitnilegt að meta stöðu íslensks efnahags- og atvinnulífs. Ýmislegt hefur gengið þokkalega en annað verr. Hagkerfið hefur náð mikilvægum viðsnúningi, úr samdrætti í hagvöxt, þó hóflegur sé.

Kunnuglegt ójafnvægi
Það er hinsvegar spurning hvort þessi viðsnúningur sé varanlegur og hvort hann nægi til að byggja hér það samfélag samkeppnishæfra lífsgæða og velferðar sem Íslendingar telja ásættanlegt. Sérstaklega er spurningin áleitin nú þegar blikur eru á lofti um efnahagsþróun, til skemmri og lengri tíma. Á sama tíma og hagkerfið er að ná ákveðnu jafnvægi, hefur neysla aukist og innflutningur sömuleiðis. Útflutningur hefur einnig aukist en ef krónan styrkist meira mun enn draga úr útflutningsverðmætum, sérstaklega í ljósi þess að magnaukning útflutnings hefur verið hófleg á síðustu þremur árum. Við þetta bætist að fjárfesting er undir meðallagi og enn of lítil til að byggja nægilega undir aukna verðmætasköpun, bæði í framleiðslugreinum og þekkingariðnaði.

Það mynstur sem hér er lýst er lítt eftirsóknarvert. Ef fram fer sem horfi gæti íslenska hagkerfið fyrr en síðar runnið inn í kunnuglegan farveg ójafnvægis, skuldsettrar neyslu og viðskiptahalla, leiðréttinga í gegnum gengi, verðbólgu og kaupmáttarskerðingar. Þennan farveg þekkja Íslendingar vel, nógu vel til að forðast eins og heitan eldinn.

Uppnám um mikilvæg mál
Þegar horft er til þeirra grunnþátta sem ráða hagvexti og lífskjörum má segja að uppnám lýsi stöðu þeirra best. Það virðist sama hvar borið er niður. Óvissa eða óeining ríkir um flest það sem einhverju máli skiptir um hagþróun; hver verði gjaldmiðill Íslands og hvort gjaldeyrishöft verði hér lengur eða skemur, hvert verði samband okkar við önnur ríki eða ríkjasambönd, hvort og hvernig standa skuli að frekari vinnslu og nýtingu orkuauðlinda, hvort breyta eigi fiskveiðistjórnunarkerfi og hvernig ráðstafa eigi rentu, hvernig skattleggja eigi ferðaþjónustu, fjármálageira og atvinnustarfsemi yfirleitt, hvort breyta eigi stjórnarskránni, hvernig skuli virða eignarétt og hvort ávinningur sé af öflugu atvinnulífi á forsendum einkareksturs og frjálsu markaðshagkerfi, með þeim drifkröftum sem þá knýja nýsköpun og framfarir.

Ósannfærandi framtíðarsýn
Þetta eru ekki lítilvæg mál og það vekur því furðu að þrátt fyrir ósamstöðu um þau flest gætir hér hagvaxtar. Sú staðreynd sýnir líklega best grunnstyrk íslenska hagkerfisins. Til lengdar er óvissan hinsvegar afleit. Við slíkar aðstæður er hvorki raunhæft að gera ráð fyrir verulegri uppbyggingu atvinnustarfsemi né aukinni verðmætasköpun í formi útflutnings sem byggir á náttúrauðlindum eða íslenskri þekkingu. Þetta eru hinsvegar aðstæður okkar nú. Sagan sem við höfum að segja um hvað muni í framtíð standa undir verðmætasköpun og bættum lífskjörum hérlendis er því ekki nægilega sannfærandi.

Á okkar færi að leysa vandann
Það kostulega er að við höfum það í hendi okkar að breyta þessu. Vandræðagangurinn sem lýst er hér að ofan er mannanna verk. Því blasir við að það er á okkar færi að bæta þar úr, að skipta um farveg, og skapa aðstæður til vaxtar og uppbyggingar. Það gæti falist í að:

  1. Almenn sátt næðist um trúverðuga og aðlaðandi framtíðarsýn um verðmætasköpun og lífskjör á Íslandi. Óhugsandi er annað en að slík sýn byggi á traustri hagrænni greiningu á efnahagslífi og valkostum um hvernig Ísland mun sjá sér farborða á næstu áratugum.
  2. Nálgast breytingar á grunnþáttum gangverks hagkerfisins þannig að um þær ríki breið pólitísk samstaða, jafnvel bandalög. Eingöngu þannig má vænta nauðsynlegs stöðugleika til lengri tíma í kjölfar grundvallarbreytinga.
  3. Skilgreina aðgerðir og verkefni sem fleyta hagkerfinu raunverulega í átt að markmiðum. Þar ber sérstaklega að huga að samræmi í orðum (stefnu) og athöfnum.
  4. Unnið verði skipulega og stöðugt eftir skilgreindum aðgerðaáætlunum, metið hvernig miðar að settu marki og vinna aðlöguð til samræmis.

Þó þetta séu almennar tillögur, þá má vera ljóst að það er hægara um að tala en í að komast. Engu að síður er það verkefni stjórnmála að hafa forgöngu um fyrstu tvö atriðin og stjórnvalda hverju sinni að framkvæma hin síðari tvö. Hvorugt gerist án samstarfs við helstu hagsmunaðila og þá eingöngu með breyttu hugarfari og vinnubrögðum allra hlutaðeigandi. Mögulega þarf að skapa til þess nýjan vettvang stefnumótunar, skipulagningar og samstarfs.

Verkefnið er ögrandi, en áhugaverðara fyrir vikið. Takist okkur að sameinast um að nýta styrkleika landsins sem felast í auðlindum og vinnusömu fólki, þá verður of mikill hagvöxtur líklegra áhyggjuefni en of lítill.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 18. október 2012

Tengt efni

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024

Ólympíuleikar í loftslagmálum

"Ísland er ekki lítið land. Ísland er stórasta land í heimi," sagði Dorrit …
21. ágúst 2024