Viðskiptaráð Íslands

Umsögn um drög að frumvarpi um loftslags- og orkusjóð

Viðskiptaráð skilaði á dögunum inn umsögn um drög að frumvarpi til laga um Loftslags- og orkusjóð. Viðskiptaráð telur meginefni þess til bóta og fagnar því að stigin séu skref til að einfalda sjóðakerfi ríkisins, en telur nauðsynlegt að endurskoða hlutverk nýs sameinaðs sjóðs.

Núverandi skipulag styrkveitinga ráðuneytisins er óþarflega flókið og kostnaðarsamt og víða leynast tækifæri til að auka skilvirkni við úthlutun fjármagns úr sameiginlegum sjóðum. Viðskiptaráð fagnar einnig áformum um aukinn stuðning við nýsköpun og grænar lausnir en telur að þeim markmiðum megi ná fram með skilvirkari hætti með því að festa endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar í sessi.

Að öðru leyti er erfitt að sjá annað en að sjóðurinn auki á þann vanda sem honum er ætlað að leysa í ljósi þess að orkuframboð hefur staðið nánast óbreytt undanfarin ár. Forgangsraða ætti í ríkisfjármálum til að liðka fyrir uppbyggingu í orkukerfinu í stað beinna niðurgreiðslna á raforkutækjum.

Niðurgreiðsla á hreinorkutækjum óskynsamleg í orkuskorti

Viðskiptaráð telur það ekki skynsamlega ráðstöfun fjármuna skattgreiðenda í ljósi yfirvofandi orkuskorts að niðurgreiða tæki sem ganga fyrir raforku. Í þannig ástandi er skilvirkast að ríkið leggi áherslu á að styðja við aukið framboð af raforku. Niðurgreiðsla á vöru þar sem framboð stendur í stað en eftirspurn eykst mun óhjákvæmilega leiða til hærra verðs. Ríkið getur stutt við framboðshliðina með því að einfalda leyfisveitingaferli, afgreiða rammaáætlun og styrkja stofnanir sem fara með orkumál, með það að markmiði að flýta afgreiðslu og úrlausnum kærumála. Í umhverfi þar sem aðgengi að hreinni orku er tryggt munu fyrirtæki sjá hag sinn í því að færa sig yfir í hreinorkutæki. Jafnvægi á raforkumarkaði væri því til hagsbóta fyrir alla.

Einföldun og aukinn stuðningur við nýsköpun jákvæð skref

Meginefni frumvarpsins er jákvætt, þar sem að í því felst sameining tveggja sjóða í umsjón hins opinbera, sem báðir vinna að sambærilegum markmiðum. Viðskiptaráð fagnar öllum breytingum sem miða að því að einfalda sjóðakerfi ríkisins, sem þegar er flókið, kostnaðarsamt og stuðlar að óskilvirkri ráðstöfun skattpeninga.

Jafnframt er ánægjulegt að sjá áherslu á aukinn stuðning við nýsköpun og þróun grænna lausna. Ljóst er að ef ná á markmiðum í loftslagsmálum er mikilvægt að styðja við markaðinn í þróun lausna sem eru hagkvæmar og árangursríkar. Viðskiptaráð ítrekar að ná má þessum markmiðum með skilvirkari hætti, t.d. með því að festa í sessi endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar.

Tækifæri til sparnaðar í sjóðakerfi ríkisins

Viðskiptaráð hvetur ríkið til að ráðast í heildarendurskoðun á sjóðaumhverfi ríkisins, en þetta frumvarp er skref í áttina að því. Ráðið hefur lagt fram 28 tillögur sem snúa að sjóðunum, fimm sem taka á rekstri þeirra og 23 sem ætlað er að einfalda kerfið. Tillögurnar mundu spara ríkissjóði tæplega 2.600 milljónir á ári og draga úr umsýslukostnaði um meira en þriðjung. Jafnframt mundu þær tryggja aukna skilvirkni og gagnsæi í rekstri sjóðanna, sem fjármagnaðir eru með skattfé. Lesa má nánar um tillögurnar hér.

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024