Viðskiptaráð Íslands

Annarra manna fé

„Það er engu líkara en að Reykjavíkurborg sé að vinna með kómóreyska franka en ekki krónur. Að setja upp jólaljós við Vesturbæjarlaug kostar til dæmis tvær milljónir.“

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Til er hugtak sem kallað er „annarra manna fé“ og gengur nokkurn veginn út á að það sé heldur líklegra að fólk fari betur með peninga sem það á sjálft. Þannig reki fólk fyrirtæki betur ef það á eitthvað undir því að reksturinn gangi vel og skili hagnaði (eins hræðilega og það kann að hljóma fyrir suma) og af hagnaðinum verði jafnvel greiddur arður (mögulega enn hræðilegra).

Ef fólk efast um réttmæti þessa hugtaks þá er góð hugmynd að bregða sér á vefsíðu sem borgin hefur sett upp um verkefnið Hverfið mitt. Þar geta borgarbúar kosið um breytingar í eigin hverfi. Hver þátttakandi fær ákveðna upphæð til að deila niður á ýmis verkefni.

Vesturbærinn fær til dæmis 53 milljónir. Ég, sem íbúi þar, get valið úr 25 verkefnum sem hljóma öll frekar vel. Sum gætu meira að segja talist meðal þess sem borgin ætti að gera án þess að búa til sérstakt átak í kringum það.

En það er engu líkara en að Reykjavíkurborg sé að vinna með kómóreyska franka en ekki krónur. Að setja upp jólaljós við Vesturbæjarlaug kostar til dæmis tvær milljónir, sem er þó milljón minna en að setja upp útigrill við Landakotstún. Vatnspóstur við Ægissíðu kostar fimm milljónir og hjólageymsla tólf.

En ef maður er með valkvíða er lausnin einföld. Það vill svo til að það kostar nákvæmlega alla þá upphæð sem Vesturbæingar hafa, 53 milljónir, að bæta kalda pottinn við Vesturbæjarlaugina.

Vissulega gæti einhver hengt sig í smáatriði á borð við að þessi upphæð virkar fáránlega há og að kaldi potturinn þar er alveg ágætur. En það eru sennilega bara áhyggjur fyrir fólk sem hefur áttað sig á því að iðulega eru annarra manna peningar okkar eigin.

Birtist fyrst á vb.is 20. september.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024