Það er efnahagslífið, kjáninn þinn

Vonandi farnast ríkisstjórn næstu fjögurra ára vel við að treysta undirstöður efnahagslífsins og styðja við áframhaldandi vöxt þess.

Í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum árið 1991 hafði atvinnuleysi farið vaxandi og stóð í 7% á kjördag. Í þessu erfiða efnahagsástandi fæddist eitt frægasta kosningaslagorð allra tíma: „It‘s the economy, stupid“ sem á okkar ylhýra má þýða sem „það er efnahagslífið, kjáninn þinn“. Árangurinn lét líka ekki á sér standa og niðurstaðan varð sú að Bill Clinton sigraði þáverandi forseta, George Bush eldri.

Í allt öðrum aðstæðum, í öðru landi og 30 árum síðar virðist sem þetta slagorð hafi átt vel við þótt lítið hafi borið á því. Í fyrsta lagi sögðu 34% kjósenda að efnahags- og skattamál væru kosningamál í könnun Maskínu, auk þess sem önnur mál, nátengd efnahagsmálum, áttu líka upp á pallborðið. Má þar nefna auðlindir og kvótakerfið, atvinnumál og samgöngumál. Í öðru lagi hjálpaði það eflaust núverandi ríkisstjórn að hagkerfið hefur hingað til sloppið tiltölulega vel út úr faraldrinum, miðað við hvað flestir þorðu að vona. Til marks um það er atvinnuleysi á hraðri niðurleið og kaupmáttur meginþorra landsmanna jókst í faraldrinum, einkum hjá þeim tekjulægstu. Fyrir þetta virðast margir kjósendur hafa verðlaunað ríkisstjórnina og með því að kjósa meðaltal hennar: Framsóknarflokkinn.

Hvort sem sama ríkisstjórn starfi áfram eða nýtt stjórnarmynstur taki við, eru verkefnin framundan í efnahagsmálum risastór og þar blasa að minnsta kosti þrjú við:

Í fyrsta lagi á atvinnuleysið enn töluvert í land að ná ásættanlegu stigi og sumar atvinnugreinar eru enn í sárum eftir faraldurinn. Við því er engin töfralausn en almennt þarf rekstrarumhverfið að tryggja að fyrirtæki geti áfram unnið hratt bug á atvinnuleysinu. Til lengri tíma þarf ennfremur að skapa forsendur fyrir því að hér verði til tugþúsundir nýrra starfa í nýjum útflutningsgreinum. Ellegar er hætt við að menntað fólk fái ekki vinnu við hæfi og ekki takist að standa undir velferðarkerfinu samhliða öldrun þjóðarinnar.

Í öðru lagi er mikilvægt að stjórnvöld sigli með en ekki á móti markmiði Seðlabankans um að ná verðbólgu úr 4,4% og niður í 2,5% sem fyrst. Jákvæðir hagvísar og þrálát verðbólga benda til að stíga þurfi frekar á bremsuna í ríkisfjármálunum og til þess þarf sterk bein eftir kosningabaráttu sem einkenndist af útgjaldabólgnum kosningaloforðum.

Til að stuðla að háu atvinnustigi og vinna gegn verðbólgu þurfa aðilar vinnumarkaðarins ekki síður að ganga í takt. Síðast, en alls ekki síst, þarf næsta ríkisstjórn kjark til að leiða nauðsynlegar breytingar á vinnumarkaðslíkaninu hér á landi. Líkani sem ýtir undir hvers kyns óstöðugleika sem spákaupmenn hagnast einna helst á. Líkani sem þau lönd sem við berum okkur saman við hafa löngu horfið frá. Síðustu tíu ár af ellefu hafa laun hækkað umfram það svigrúm sem samræmist verðbólgumarkmiði og spá Seðlabankans gerir ráð fyrir launahækkunum umfram svigrúm til og með 2023. Ef það raungerist mun verðbólgan líklega haldast yfir markmiði með aukinni hættu á að hún fari úr böndunum.

Hér eru ótalin önnur en ekki síður mikilvæg viðfangsefni næstu ríkisstjórnar, t.d. að halda áfram að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi og tryggja að Ísland standi við skuldbindingar í loftslagsmálum. Sumir myndu segja að hvort tveggja sé ekki efnahagsmál, en því fer fjarri. Öflugt heilbrigðiskerfi er styrkleiki atvinnulífsins og á sama tíma er öflug verðmætasköpun í atvinnulífinu forsenda þess. Þá snúast loftslagsmálin að miklu leyti um að það verði mikil og almenn hagsæld eftir 100 ár, en ekki bara eftir fjögur ár.

Það er efnahagslífið, kjáninn þinn, sem málið snýst um. Vonandi farnast ríkisstjórn næstu fjögurra ára vel við að treysta undirstöður efnahagslífsins og styðja við áframhaldandi vöxt þess. Það gæti skilað sér í kjörklefanum (aftur?).

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogganum 29. september 2021.

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Klæðlausar Kjarafréttir

Enn og aftur eru nýju fötin sem Keisarinn fékk frá Kjarafréttum í efnisminni ...
20. okt 2022

Leysa peningar allan vanda?

Heilbrigðiskerfið á að snúast um sjúklingana, fjármagn ætti að fylgja þeim í ...
16. ágú 2021