Viðskiptaráð Íslands

Verðmætasköpun er forsenda velferðar

Áherslur Viðskiptaráðs Íslands fyrir alþingiskosningar 2021

Fyrirtæki eru ein meginstoða velferðarsamfélagsins

Framúrskarandi lífskjör verða áfram takmarkið

Niðurstaða þingkosninga og stefna næstu ríkisstjórnar mun skipta miklu fyrir endurreisn Íslands eftir heimsfaraldurinn.

Til þess að geta áfram staðið undir framúrskarandi lífskjörum á Íslandi þurfa stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar að leggjast saman á árarnar.

Hagsmunir viðskiptalífsins eru samofnir hagsmunum einstaklinga, en í fyrirtækjum skapar fólk verðmætin sem standa undir rekstri samfélagsins.

Verðmætasköpun er því undirstaða velferðar.

Megináherslur og tillögur Viðskiptaráðs Íslands

1. Við þurfum að geta séð framtíðina fyrir okkur

Innleiða þarf langtímahugsun í stefnumótun og vanda til verka við framkvæmd

Sveigjanleiki og viðbragðsflýtir er styrkur sem Íslendingar geta verið stoltir af. Samt sem áður er stöðugleiki og fyrirsjáanleiki fyrirtækjum ekki síður mikilvægur.

Ísland hefur mælst neðarlega meðal nágrannalanda þegar kemur að því að móta og hrinda í framkvæmd langtímastefnu í helstu málaflokkum. Slík stefnumótun eykur traust og skapar grundvöll fyrir nauðsynlegar fjárfestingar og framþróun. Þannig má stuðla að meiri verðmætasköpun og aukinni velferð.

Loftslagsmálin eru gott dæmi um málaflokk þar sem skýr langtímasýn er til staðar, t.a.m. hvað varðar losun og skattlagningu. Ísland getur auk þess verið á meðal fyrstu landa í heiminum til að ná kolefnishlutleysi. Nýjar og hagkvæmar aðferðir til að beisla sjálfbærar orkulindir hérlendis; vatnsföll, jarðhita og vindorku, auk bindingar kolefnis, skapa tækifæri fyrir Íslendinga.

Hvað er til ráða?

  • Tillaga 1: Stjórnvöld setji í auknum mæli fram langtímastefnu í mikilvægum málaflokkum, sem endurspeglast í vel undirbúinni og vandaðri löggjöf, skýrum ákvörðunum og traustri framkvæmd.
  • Tillaga 2: Gera þarf ráð fyrir hækkandi aldri þjóðarinnar og bregðast við hlutfallslegri fækkun á vinnumarkaði.

2. Fyrirtæki þurfa rými til að vaxa

Meiri velferð krefst vaxtar atvinnulífs

Tæplega þrjátíu prósent vinnuaflsins starfa hjá ríki og sveitarfélögum og ríkið eitt ráðstafar um það bil þriðju hverri krónu sem er varið hér á landi.

Samneyslan getur gefið af sér mikil verðmæti, en þau verðmæti verða ekki til án öflugs atvinnulífs. Því er það kappsmál að atvinnulífið fái rými til að vaxa og þróast, sækja á ný mið og skapa fleiri verðmæt störf og bæta lífskjör.

Hluti vaxtarmöguleika atvinnulífsins felst í því að draga úr umsvifum hins opinbera. Ný ríkisstjórn ætti að gera endurskipulagningu ríkisrekstrarins að forgangsmáli.

Hvað er til ráða?

  • Tillaga 3: Beita samvinnuleið við fjármögnun framkvæmda auk þess sem verkefnum ríkis á borð við forritun og ýmsa stoðþjónustu verði útvistað í auknum mæli.
  • Tillaga 4: Leggja áherslu á að auka einkarekstur sem víðast í starfsemi sem greidd er af opinberu fé, ekki síst í heilbrigðis- og menntakerfinu til að bæta þjónustu við fólk. Fé fylgi einstaklingum þangað sem þeir vilja sækja þjónustu, en sé ekki bundið við stofnanir.
  • Tillaga 5: Halda áfram að losa um eignarhluti ríkisins í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði og hvetja almenning til virkrar þátttöku á hlutabréfamarkaði.

3. Fyrirtæki þurfa svigrúm til að athafna sig

Lágmarka þarf beinan og óbeinan kostnað sem hamlar fyrirtækjum

Íþyngjandi reglur sem hamla samkeppni og skapa aðgangshindranir á markaði leiða til mikils kostnaðar fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Leggja þarf áherslu á að regluverk sé einfalt og skilvirkt og gefi ekki tilefni til túlkunar í framkvæmd sem auki enn á reglubyrði. Þá eru launatengd gjöld hátt hlutfall af launakostnaði fyrir-tækja og vinna gegn hvötum til að greiða hærri laun og fjölga störfum.

Hvað er til ráða?

  • Tillaga 6: Gæta þess að innleiða EES-löggjöf ekki með sérstaklega íþyngjandi hætti og að séríslenskar reglur skapi ekki aukið flækjustig.
  • Tillaga 7: Koma á fót óháðu regluráði þar sem greind eru áhrif lagafrumvarpa þannig óþarflega íþyngjandi reglur yrðu að veruleika.
  • Tillaga 8: Leggja áherslu á þjónustu- og leiðbeiningarhlutverk stofnana og liðka samskipti eftirlitsstofnana og fyrirtækja.
  • Tillaga 9: Einfalda og flýta leyfisveitingarferlum og hraða afgreiðslutíma erinda. Hraða þarf uppbyggingu stafrænnar stjórnsýslu og innleiða á sem flestum sviðum.
  • Tillaga 10: Endurskoða álögur sem lagðar eru á launagreiðslur.

4. Aukin hagsæld með öruggri hagstjórn

Verð- og gengisstöðugleiki er ekki einkamál Seðlabankans

Verð- og gengisstöðugleiki eykur velferð, gerir íslensk fyrirtæki sterkari í alþjóðlegri samkeppni og gagnast ekki hvað síst þeim sem hafa minnst á milli handanna. Launaþróun þarf að vera í samræmi við framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið (2,5%).

Hið opinbera má ekki leiða launahækkanir. Þær hafa verið með ósjálfbærum takti síðustu misseri með 18% launahækkunum opinberra starfsmanna frá upphafi faraldursins. Svo virðist sem skautun á vinnumarkaði hafi einnig aukist.

Hvað er til ráða?

  • Tillaga 11: Verð- og gengisstöðugleiki þarf að vera forgangsmál næstu ríkisstjórnar. Mikilvægast er að ríkisfjármálin, einkum afkoma ríkissjóðs og aðkoma ríkisins að kjarasamningum, stuðli að slíkum markmiðum.
  • Tillaga 12: Styrkja þarf vald ríkissáttasemjara og gera gerðardómsúrræði í vinnudeilum virkara.

5. Ótakmarkaðir möguleikar og óþrjótandi lind verðmæta

Hugvit er lykilþáttur í vexti og verðmætasköpun framtíðarinnar

Með því að leggja áherslu á að byggja upp með hugviti verður hagkerfið ekki eins viðkvæmt og það er nú fyrir sveiflum í auðlindadrifnum atvinnugreinum. Með hugvitsdrifnum útflutningsgreinum í alþjóðageiranum má skjóta stoðum undir breiðari og meiri utanríkisviðskipti en þau eru töluvert umfangsminni en margur telur og stendur Ísland til dæmis fimm efstu þjóðum í alþjóðaviðskiptum töluvert að baki. Í skýrslu Viðskiptaþings 2021 voru kynntar til sögunnar ítarlegar tillögur alþjóðahóps Viðskiptaráðs um alþjóðageirann.

Hvað er til ráða?

  • Tillaga 13: Leggja þarf aukna áherslu á háframleiðnigreinar og verðmæt störf m.a. til að standa undir auknum kostnaði heilbrigðiskerfisins og almannatrygginga.
  • Tillaga 14: Gera tímabundna hækkun endurgreiðslna vegna rannsókna og þróunar varanlega.
  • Tillaga 15: Draga úr hömlum á beina erlenda fjárfestingu og auðvelda fyrirtækjum að ráða til sín erlenda sérfræðinga.
  • Tillaga 16: Bjóða upp á menntun sem stenst alþjóðlegan samanburð og styrkja alþjóðlegt nám á öllum stigum skólakerfisins. Fjölga þarf STEM-menntuðum, auka sveigjanleika í kennslu til að mæta þörfum nemenda og fjölga valkostum með auknum einkarekstri.

6. Eðlilegt líf og öflug starfsemi án takmarkana

Til framtíðar þarf að líta til fleiri þátta en sóttvarna

Atvinnulífið ber ýmiskonar kostnað og hefur orðið fyrir óhagræði vegna sóttvarnaaðgerða. Þannig hafa fjölmörg fyrirtæki ekki getað unnið á fullum afköstum síðustu misseri.

Einnig hafa þau þurft að breyta ýmsu í starfsemi sinni til að lágmarka tjón ef einhver smitast. Slíkar aðgerðir reyna bæði á skipulag og starfsmannaanda og geta komið niður á framleiðni. Fram til þessa hafa fyrirtækin litið á þetta sem tímabundið verkefni en útlit er fyrir að veiran geti orðið viðvarandi um nokkurra ára skeið.

Í faraldrinum hafa komið fram vísbendingar um að heilbrigðiskerfið standist álag ekki nægilega vel, sem bitnar á annarri þjónustu og hefur kallað á harðari samfélagslegar aðgerðir en ella.

Hvað er til ráða?

  • Tillaga 17: Mikilvægt er að skerðingar á frelsi séu í jafnvægi við ógn af faraldrinum. Í kjölfar víðtækrar bólusetningar þjóðarinnar er brýnt að líta til fleiri mikilvægra þátta en sóttvarna. Endurskoða þarf sóttvarnareglur til að gera fólki kleift að lifa með veirunni. Þannig má tryggja eðlilega starfsemi fyrirtækja og daglegt líf fólks, sem og efla styrk hagkerfisins.
  • TIllaga 18: Nauðsynlegt er að styrkja viðnámsþrótt heilbrigðiskerfisins.

Tengt efni

Veðjað á rangan hest: Umgjörð veðmálastarfsemi á Íslandi

Þótt veðmálastarfsemi sé sniðinn þröngur stakkur hérlendis veðja fáar þjóðir …
12. september 2024

Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti

Opinbert eftirlit stendur samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi …
27. ágúst 2024

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mars 2024