Áherslur Viðskiptaráðs Íslands fyrir alþingiskosningar 2021
Framúrskarandi lífskjör verða áfram takmarkið
Niðurstaða þingkosninga og stefna næstu ríkisstjórnar mun skipta miklu fyrir endurreisn Íslands eftir heimsfaraldurinn.
Til þess að geta áfram staðið undir framúrskarandi lífskjörum á Íslandi þurfa stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar að leggjast saman á árarnar.
Hagsmunir viðskiptalífsins eru samofnir hagsmunum einstaklinga, en í fyrirtækjum skapar fólk verðmætin sem standa undir rekstri samfélagsins.
Verðmætasköpun er því undirstaða velferðar.
Innleiða þarf langtímahugsun í stefnumótun og vanda til verka við framkvæmd
Sveigjanleiki og viðbragðsflýtir er styrkur sem Íslendingar geta verið stoltir af. Samt sem áður er stöðugleiki og fyrirsjáanleiki fyrirtækjum ekki síður mikilvægur.
Ísland hefur mælst neðarlega meðal nágrannalanda þegar kemur að því að móta og hrinda í framkvæmd langtímastefnu í helstu málaflokkum. Slík stefnumótun eykur traust og skapar grundvöll fyrir nauðsynlegar fjárfestingar og framþróun. Þannig má stuðla að meiri verðmætasköpun og aukinni velferð.
Loftslagsmálin eru gott dæmi um málaflokk þar sem skýr langtímasýn er til staðar, t.a.m. hvað varðar losun og skattlagningu. Ísland getur auk þess verið á meðal fyrstu landa í heiminum til að ná kolefnishlutleysi. Nýjar og hagkvæmar aðferðir til að beisla sjálfbærar orkulindir hérlendis; vatnsföll, jarðhita og vindorku, auk bindingar kolefnis, skapa tækifæri fyrir Íslendinga.
Hvað er til ráða?
Meiri velferð krefst vaxtar atvinnulífs
Tæplega þrjátíu prósent vinnuaflsins starfa hjá ríki og sveitarfélögum og ríkið eitt ráðstafar um það bil þriðju hverri krónu sem er varið hér á landi.
Samneyslan getur gefið af sér mikil verðmæti, en þau verðmæti verða ekki til án öflugs atvinnulífs. Því er það kappsmál að atvinnulífið fái rými til að vaxa og þróast, sækja á ný mið og skapa fleiri verðmæt störf og bæta lífskjör.
Hluti vaxtarmöguleika atvinnulífsins felst í því að draga úr umsvifum hins opinbera. Ný ríkisstjórn ætti að gera endurskipulagningu ríkisrekstrarins að forgangsmáli.
Hvað er til ráða?
Lágmarka þarf beinan og óbeinan kostnað sem hamlar fyrirtækjum
Íþyngjandi reglur sem hamla samkeppni og skapa aðgangshindranir á markaði leiða til mikils kostnaðar fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Leggja þarf áherslu á að regluverk sé einfalt og skilvirkt og gefi ekki tilefni til túlkunar í framkvæmd sem auki enn á reglubyrði. Þá eru launatengd gjöld hátt hlutfall af launakostnaði fyrir-tækja og vinna gegn hvötum til að greiða hærri laun og fjölga störfum.
Hvað er til ráða?
Verð- og gengisstöðugleiki er ekki einkamál Seðlabankans
Verð- og gengisstöðugleiki eykur velferð, gerir íslensk fyrirtæki sterkari í alþjóðlegri samkeppni og gagnast ekki hvað síst þeim sem hafa minnst á milli handanna. Launaþróun þarf að vera í samræmi við framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið (2,5%).
Hið opinbera má ekki leiða launahækkanir. Þær hafa verið með ósjálfbærum takti síðustu misseri með 18% launahækkunum opinberra starfsmanna frá upphafi faraldursins. Svo virðist sem skautun á vinnumarkaði hafi einnig aukist.
Hvað er til ráða?
Hugvit er lykilþáttur í vexti og verðmætasköpun framtíðarinnar
Með því að leggja áherslu á að byggja upp með hugviti verður hagkerfið ekki eins viðkvæmt og það er nú fyrir sveiflum í auðlindadrifnum atvinnugreinum. Með hugvitsdrifnum útflutningsgreinum í alþjóðageiranum má skjóta stoðum undir breiðari og meiri utanríkisviðskipti en þau eru töluvert umfangsminni en margur telur og stendur Ísland til dæmis fimm efstu þjóðum í alþjóðaviðskiptum töluvert að baki. Í skýrslu Viðskiptaþings 2021 voru kynntar til sögunnar ítarlegar tillögur alþjóðahóps Viðskiptaráðs um alþjóðageirann.
Hvað er til ráða?
Til framtíðar þarf að líta til fleiri þátta en sóttvarna
Atvinnulífið ber ýmiskonar kostnað og hefur orðið fyrir óhagræði vegna sóttvarnaaðgerða. Þannig hafa fjölmörg fyrirtæki ekki getað unnið á fullum afköstum síðustu misseri.
Einnig hafa þau þurft að breyta ýmsu í starfsemi sinni til að lágmarka tjón ef einhver smitast. Slíkar aðgerðir reyna bæði á skipulag og starfsmannaanda og geta komið niður á framleiðni. Fram til þessa hafa fyrirtækin litið á þetta sem tímabundið verkefni en útlit er fyrir að veiran geti orðið viðvarandi um nokkurra ára skeið.
Í faraldrinum hafa komið fram vísbendingar um að heilbrigðiskerfið standist álag ekki nægilega vel, sem bitnar á annarri þjónustu og hefur kallað á harðari samfélagslegar aðgerðir en ella.
Hvað er til ráða?