Eftirlitsmisskilningur Þórunnar 

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess að minnka ávinninginn. Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, svarar gagnrýni Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingkonu Samfylkingar.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, birti grein í Morgunblaðinu í vikunni þar sem hún gagnrýnir nýja úttekt Viðskiptaráðs: „Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti“. Þórunn segir úttektina athyglisverða en grein Þórunnar er ekki síður athyglisverð. Þar tínir hún til atriði sem ekki koma fram í úttektinni og gerir lítið úr þeim samfélagslega kostnaði sem fylgir opinberu eftirliti. Förum nánar yfir úttektina og gagnrýni Þórunnar. 

Á Íslandi starfa 3.750 manns hjá 49 opinberum stofnunum sem sinna eftirliti. Meirihluti þeirra starfar við svokallað stjórnsýslueftirlit. Undir það falla til dæmis lögreglu- og sýslumannsembætti auk Skattsins og Landhelgisgæslunnar. Til viðbótar starfa 1.600 manns við svokallað sérhæft eftirlit, en undir það falla stofnanir eins og Samkeppniseftirlitið, Neytendastofa og Fjölmiðlanefnd. Þessar stofnanir eru jafnan kallaðar eftirlitsstofnanir.  

Eftirlitsstofnanir eru frábrugðnar stjórnsýslueftirliti að því leyti að þær framfylgja takmörkunum á athafnafrelsi og starfa samkvæmt lögum um opinberar eftirlitsreglur. Þótt markmið stjórnvalda með eftirlitsreglum séu göfug er gjarnan litið fram hjá þeirri staðreynd að reglunum fylgir einnig kostnaður. Af þeirri ástæðu voru eftirlitsstofnanir meginefni úttektar okkar - en ekki stjórnsýslueftirlit eins og Þórunn heldur fram. 

Kostnaður samfélagsins vegna eftirlitsstofnana er bæði beinn og óbeinn. Undir beinan kostnað fellur rekstrarkostnaður stofnananna, leyfis- og eftirlitsgjöld sem þær innheimta og kostnaður borgaranna við að framfylgja reglum og fyrirmælum stofnananna. Viðskiptaráð áætlar að beinn kostnaður vegna eftirlitsstofnana nemi 92 milljörðum króna á ári.  

Til viðbótar valda eftirlitsstofnanir óbeinum kostnaði í formi hamlandi áhrifa á verðmætasköpun, framleiðni og nýsköpun. Í skýrslu Hagfræðistofnunar um opinbert eftirlit á Íslandi segir að neikvæð áhrif eftirlitsreglna á framleiðni geti verið umtalsverð til lengri tíma. 

Úttekt Viðskiptaráðs leiddi einnig í ljós að eftirlitsstofnanir eru þrefalt til sexfalt umsvifameiri en í grannríkjum þegar tillit er tekið til íbúafjölda. Þá hefur starfsmannafjöldi vaxið hraðar hjá eftirlitsstofnunum en í þeim atvinnugreinum sem þær hafa eftirlit með. Loks eru valdheimildir stofnananna svo víðtækar að dæmi eru um að þær undirriti samstarfssamninga til að skipta með sér verkum. 

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess að minnka ávinninginn. Í fyrsta lagi mætti fækka opinberum eftirlitsstofnunum úr 26 í 19, t.d. með sameiningu Neytendastofu, Fjarskiptastofu og Samkeppniseftirlitsins í eina stofnun. Í öðru lagi mætti festa í lög að einungis verði stofnað til eftirlits sé samfélagslegur ávinningur meiri en kostnaður þess. Í þriðja lagi mætti útvista eftirliti í ríkari mæli til faggiltra aðila líkt og gert er með öryggisskoðanir bifreiða. Þar hafa einkaaðilar séð um framkvæmd bifreiðaeftirlits með góðum árangri á meðan reglusetningin er áfram í höndum stjórnvalda. 

Við hvetjum stjórnvöld til að innleiða þessar tillögur, enda myndu þær auka athafnafrelsi, verðmætasköpun og hagsæld á Íslandi. Ólíkt því sem Þórunn heldur fram fögnum við öllum stjórnmálaflokkum sem deila okkar sýn í þeim efnum. Vonandi tilheyrir Samfylkingin þeim hópi. 

Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2024.

Tengt efni

Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti

Opinbert eftirlit stendur samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi ...
27. ágú 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið ...
26. ágú 2024

Umsögn um drög að þingsályktunartillögu um stefnu í neytendamálum til 2030

Viðskiptaráð Íslands gerir athugasemdir við að þrátt fyrir að eðli máls samkvæmt ...