Viðskiptaráð Íslands

Hikum ekki

Í núverandi ástandi er ómögulegt að vita fyrir víst hvaða ákvarðanir munu reynast best, en líklega er hið fornkveðna aldrei sannara en nú; að hik getur þýtt öruggt tap.

Ekki þarf að fjölyrða um þann bráðavanda sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir. Íslensk fyrirtæki gera nú allt sem í þeirra valdi stendur til að taka á þessum vanda með hagræðingu, fjarvinnu, breyttum vaktaplönum og öðru. En jafnvel slíkar aðlaganir gera lítið til þess að bæta upp það tjón sem fyrirtæki horfast í augu við vegna samdráttar í veltu og eftirspurn. Þess vegna þurfa allir að leggja sitt af mörkunum til að fyrirtækin komist í gegnum þetta ástand og tryggja að tímabundið áfall breytist ekki í varanlegt tjón.

Þótt langsamlega mikilvægast sé að huga að heilbrigði fólks, hlúa að þeim sem veikjast og standa saman sem samfélag gagnvart bæði ógn og ótta þá þarf ekki að fjölyrða um áhrifin á efnahagslífið. Skýrasta dæmið er ferðaþjónustan, sem stendur undir meira en þriðjungi útflutnings, og horfir ekki einungis fram á samdrátt heldur að lágmarki nokkurra vikna stopp. Hún rær nú lífróður. Aðrar greinar finna áhrifin fyrr eða síðar. Höggbylgjan stendur yfir og óvíst er hver endanleg áhrif verða.

Ríkið hefur þegar gefið fyrirheit og sett af stað aðgerðir til að bregðast við stöðunni. Frekari útspils er að vænta en tíminn er naumur. Þá hefur Seðlabankinn lækkað vexti um eitt prósentustig, lækkað bindiskyldu og afnumið sveiflujöfnunarauka – allt aðgerðir sem munu gera fyrirtækjum og heimilum auðveldara um vik að standa af sér storminn. Enn er beðið aðgerða sveitarfélaga, sem geta ekki verið stikkfrí.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um atvinnuleysistryggingar þar sem fyrirtækjum verður gert kleift að lækka starfshlutföll tímabundið án þess að starfsfólk verði fyrir óásættanlegri kjaraskerðingu. Meginmarkmið frumvarpsins er að að aðstoða fyrirtæki við að halda ráðningarsambandi við starfsfólk þar til aðstæður skýrast. Viðskiptaráð telur þetta lykilskref og fagnar áformum um hraða gildistöku til að sporna gegn yfirvofandi fjöldauppsögnum. Ef aðgerðin heppnast mun hún fleyta fleiri fyrirtækjum og fjölskyldum yfir skaflinn og færri fara í þrot.

Við erum reglulega minnt á hvernig ófyrirsjáanlegir atburðir breyta lífi okkar. Á þetta ekki síst við um atvinnurekstur. Á Viðskiptaþingi 2019 var fjallað var um hvernig leiðtogi þarf að „feta farsælan veg í heimi óvissu þar sem skyggni er nánast ekkert“. Engan grunaði þá hvað væri í vændum rúmu ári síðar. Staðan vegna COVID-19 er allt annarrar gerðar en fjármálakreppan 2008, hrun fiskistofna eða fall flugfélags, en við höfum lært af fyrri áföllum. Sá lærdómur á að geta nýst núna, ekki síst stjórnvöldum sem gegna lykilhlutverki.

Góðu fréttirnar eru að faraldurinn mun ganga yfir og við erum að mörgu leyti vel undir áföll búin. Þó blikur séu á lofti yfir heimshagkerfinu verður tæknilega séð lítið því til fyrirstöðu að atvinnulífið og samfélagið geti náð sér á strik þegar veiran er gengin yfir. Það mun að sjálfsögðu taka tíma. Það sem helst getur hægt á endurreisninni er ef fyrirtækin fara í þrot.

Þegar þetta er skrifað ríkir mikill ótti víða um heim. Í slíku ástandi er mikilvægt að halda dómgreind sinni og hvorki fyllast bölsýni, né flýja veruleikann. Við þurfum að hugsa hratt í ástandi þar sem óvissa er mikil. Í slíku ástandi er ómögulegt að vita fyrir víst hvaða ákvarðanir munu reynast best, en líklega er hið fornkveðna aldrei sannara en nú; að hik getur þýtt öruggt tap.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. mars 2020.

#covid19vaktin

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024