Í fjárlögum 2025 er áformað að reka ríkissjóð með 41 ma. kr. halla, sem væri sjöunda ár hallarekstrar í röð. Að mati Viðskiptaráðs er tímabært að stjórnvöld loki fjárlagagatinu. Ráðið leggur fram níu hagræðingartillögur sem bæta afkomu ríkissjóðs um 44,6 ma. kr. og leiða til 3,6 ma. kr. afgangs í stað halla.
Hallalaus fjárlög tímabær
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er afkoma ríkissjóðs neikvæð sem nemur 41 milljarði króna. Árið 2025 verður því sjöunda árið í röð sem ríkissjóður er rekinn með halla. Þrátt fyrir mikinn tekjuvöxt samhliða uppgangi í hagkerfinu áætla stjórnvöld að ríkissjóður skili ekki afgangi fyrr en árið 2028.
Hallarekstur ríkissjóðs eykur verðbólguþrýsting og hamlar lækkun vaxta, heimilum og fyrirtækjum til óheilla. Viðskiptaráð fagnar því að aðhaldsstig ríkisfjármála fari vaxandi. [1] En betur má ef duga skal. Að mati ráðsins er tímabært að stjórnvöld leggi fram hallalaus fjárlög. Lokun fjárlagagatsins leiðir til minni verðbólgu og lægri vaxtabyrði fyrir heimili, fyrirtæki og ríkissjóð.
Þegar kemur að því að loka fjárlagagatinu stendur val stjórnvalda milli skattahækkana og niðurskurðar. Viðskiptaráð telur að seinni kosturinn sé betri. Illa hefur gengið að vinda ofan af útgjaldaaukningu sem stofnað var til í heimsfaraldri og skattar hér á landi eru þegar háir í alþjóðlegum samanburði. Til viðbótar hefur verðbólga undanfarinna ára virkað sem viðbótarskattur sem rýrir verðgildi tekna og eigna Íslendinga. Svigrúm til skattahækkana er því takmarkað. [2]
Níu hagræðingartillögur um bætta afkomu
Viðskiptaráð leggur fram níu tillögur sem loka fjárlagagatinu og bæta afkomu ríkissjóðs um 44,6 ma. kr. á næsta ári (mynd 1). [3] Tillögurnar draga ekki úr fjárveitingum til mennta-, heilbrigðis- og öldrunarþjónustu, eða almannaöryggis- og samgöngumála. Fjárlagagatinu er því lokað með aðhaldi og breyttri umgjörð á öðrum sviðum. Þannig verður ríkissjóður rekinn með 3,6 milljarða króna afgangi í stað 41 milljarða króna halla nái tillögurnar fram að ganga.
Áhrifamesta tillagan er að falla frá viðbótarútgjöldum vegna aðgerða í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Næst á eftir kemur hækkun almennrar aðhaldskröfu. Þá vega einnig þungt lægri fjárheimild og endurskoðað hlutverk Loftlags- og orkusjóðs, ásamt breyttu fyrirkomulagi veðmála, þak á endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og endurskoðun á húsnæðisaðgerðum. Lesa má nánar um allar tillögur í viðaukum I og II, sem fylgja með umsögn þessari.
Það er von ráðsins að hagræðingartillögurnar nái fram að ganga. Afgangur af rekstri ríkissjóðs leggur grundvöll að lægri verðbólgu og vöxtum. Í því fælist meiriháttar kjarabót fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Tillögurnar auka sömuleiðis burði ríkissjóðs til að takast á við ófyrirséðar áskoranir í framtíðinni. Síðustu ár hafa sýnt hversu mikilvægt er fyrir þjóðarbúið að búa yfir slíku svigrúmi. Það er til mikils að vinna að skila afgangi af rekstri ríkissjóðs.
---
Uppfært 6. Nóvember 2024.
Sparnaður vegna 1% aðhalds sem þegar var í frumvarpinu var tvítalinn. Því hefur nú verið bætt við og lækkar sparnaður tillögunnar í samræmi við það.
---
Hagræðingartillögur Viðskiptaráðs
#1 Kjarasamningar
Viðskiptaráð leggur til að þau viðbótarútgjöld sem eru tilkomin vegna aðkomu stjórnvalda að kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði verði dregin til baka. Tillagan bætir afkomu ríkissjóðs um 14 ma. kr.
Viðbótarútgjöldin skiptast í hækkun barnabóta (5,0 ma. kr.), gjaldfrjálsar skólamáltíðir (3,9 ma. kr.), fæðingarorlofssjóð (2,5 ma. kr.) og húsnæðisbætur (2,5 ma. kr.), auk annarra smærri aðgerða (0,1 ma. kr.).
Viðskiptaráð telur útgjöldin fela í sér óeðlilega samþættingu stjórnvaldsaðgerða við frjálsa samninga aðila á almennum vinnumarkaði. Samningarnir eru tvíhliða á milli launþega og atvinnurekenda. Að mati ráðsins skýtur umfangsmikil aðkoma ríkissjóðs að þeim því skökku við. [4] Til viðbótar auka umrædd útgjöld verðbólguþrýsting þar sem þau eru ófjármögnuð.
Á undanförnum árum hefur aðkoma stjórnvalda að kjarasamningagerð með þessum hætti aukist. Það er óheillaþróun að mati Viðskiptaráðs. Eðli kjarasamninga er að þeir eiga sér stað undir tímapressu, og inngrip stjórnvalda í þá stangast á við lýðræðisleg sjónarmið um að aðgerðir séu vel ígrundaðar og ræddar á vettvangi stjórnmála.
#2 Loftslags- og orkusjóður
Viðskiptaráð leggur til að hlutverk Loftslags- og orkusjóðs verði endurskoðað og fjárveitingar til sjóðsins lækkaðar. Tillagan bætir afkomu ríkissjóðs um 7,7 ma. kr.
Nær öll framlög til Loftslags- og orkusjóðs fara í stuðning vegna rafbílakaupa. Áætluð ráðstöfun sjóðsins árið 2024 nemur 8.871 m. kr. Um 80% fjármunanna fara til styrkja vegna kaupa á hreinorkubifreiðum, 6% til styrkja vegna hreinorkuvörubifreiða og það sem eftir stendur til uppsetninga á hleðslustöðvum, í úrræði sem eiga að draga úr olíunotkun og til framleiðslu á raf- og lífeldsneyti.
Árið 2023 hafði Ísland næst hæsta hlutfall rafbíla allra ríkja heims og er það til marks um árangur í rafbílavæðingu. [7] Upphaflegt markmið stjórnvalda með stuðningi við rafbílakaup var að greiða fyrir orkuskiptum í samgöngum með því að gera rafbíla samkeppnishæfari gagnvart ökutækjum knúnum jarðefnaeldsneyti. [8] Samtals nemur stuðningur stjórnvalda vegna rafbílakaupa 49 ma. kr. á tímabilinu 2012 til 2025. [9]
Í úttekt Hagfræðistofnunar kemur fram að hrein efnahagsleg áhrif af stuðningi stjórnvalda við rafbílakaup séu neikvæð um 39 ma. kr. yfir tímabilið 2019 – 2023. Þar er tekið tillit til ríkisútgjalda, loftslagsávinnings í formi lægri útblásturs, og neytendaábata í formi lægra verðs við rafbílakaup. Niðurgreiðsla rafbílakaupa er því óhagkvæm leið til að ná markmiðum stjórnvalda um samdrátt í útblæstri. [10]
Þjóðir á borð við Svíþjóð hafa afnumið stuðning af þessu tagi með þeim rökum að markmiði hans sé þegar náð og rafbílar orðnir samkeppnishæfir í verði. [11] Hlutfall rafbíla heldur enda áfram að rísa í Svíþjóð engu að síður. Nýverið kynntu sænsk stjórnvöld þó tímabundinn stuðning til kaupa á flutninga- og sendibifreiðum knúðum rafmagni til ársins 2025. [12]
Að mati Viðskiptaráðs má hagræða í stuðningi við rafbílakaup. Ávinningur stuðningsins er óljós og hlutfall rafbíla er næst hæst allra ríkja. Samhliða aukinni markaðshlutdeild hreinorkubíla hafa hleðsluinnviðir byggst upp. Einnig er hækkun kolefnisgjalds í kílómetragjaldinu til þess fallið að viðhalda hvata til orkuskipta. [13] Rafmagnsbílar eru því nú þegar raunhæfur kostur og innviðir þeim tengdum samkeppnishæfir samanborið við jarðefnaeldsneytisbíla. Því er ekki lengur þörf á því að skattfé sé veitt í niðurgreiða kaup á rafbílum.
Með framangreint fyrir augum leggur Viðskiptaráð til að umfang Loftslags- og orkusjóðs verði lækkað um 90% og eftirstandandi fjárveiting verði varið í hagkvæmari úrræði til stuðnings við orkuskipti.
#3 Aðhaldskrafa
Viðskiptaráð leggur til að almenn aðhaldskrafa á rekstrarútgjöld annarra málaflokka en heilbrigðis-, mennta-, öldrunar-, löggæslu- og samgöngumála verði hækkuð úr 1% í 3%. Tillagan bætir afkomu ríkissjóðs um 6,0 ma. kr [*]
Opinber útgjöld hafa aukist meira hér á landi en í samanburðarríkjum undanfarin ár. Þá hefur gengið verr að vinda ofan af útgjaldavexti vegna Covid í sama mæli og á öðrum Norðurlöndum. [5] Hvort um sig gefur tilefni til hærri aðhaldskröfu en gert er ráð fyrir í frumvarpinu.
Í fjárlagafrumvarpi 2024 var almenn aðhaldskrafa ríkisins tvöfölduð úr 1% í 2%, en 0,5% á skóla. Þá var þar gerð 3% aðhaldskrafa á aðalskrifstofur Stjórnarráðsins. Undanskilin voru löggæslu-, heilbrigðis-, öldrunarstofnanir og tilfærslukerfi. [6]
Að mati Viðskiptaráðs gefur framangreint tilefni til að útfæra almenna aðhaldskröfu með sambærilegum hætti nema með hærra aðhaldsstigi. Þannig má styðja við markmið frumvarpsins um aðhald en um leið standa vörð um grunnþjónustu.
#4 Starfsleyfi í veðmálum
Viðskiptaráð leggur til upptöku starfsleyfa fyrir veðmálastarfsemi á Íslandi í stað almenns banns með undanþágum. Tillagan byggir á úttekt Viðskiptaráðs á veðmálastarfsemi á Íslandi og bætir afkomu ríkissjóðs um 4,8 ma. kr.
Ströng umgjörð stjórnvalda um veðmálamarkaðinn á Íslandi hefur orðið til þess að um 44% veðmála fara nú fram utan landssteinanna. Þar skilar starfsemin engum skatttekjum og er utan reglusetningarvalds íslenskra stjórnvalda. Að mati Viðskiptaráðs er tímabært að gera markaðinn frjálsari og heimila veðmál með starfsleyfum í stað núverandi fyrirkomulags. Tillögurnar auka atvinnufrelsi, jafnræði og skila auknum skatttekjum ásamt því að gera stjórnvöldum kleift að setja starfseminni skynsamlegar skorður. [14]
#5 Kvikmyndagerð
Viðskiptaráð leggur til að þak verði sett á kostnað ríkissjóðs vegna endurgreiðslna kostnaðar kvikmyndagerðar. Tillagan bætir afkomu ríkissjóðs um 3,6 ma. kr.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar frá 2015 um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi segir að íslensk kvikmyndagerð hafi náð þeim sessi að vera alþjóðlega samkeppnishæf. Þá megi slá því föstu að opinber endurgreiðsla framleiðslukostnaðar eigi þar stóran hlut að máli. [15] Þar segir einnig að standi atvinnugrein ekki undir sér án opinberra styrkja eru vísbendingar um að landið hafi ekki samkeppnisforskot í þeim iðnaði.
Síðan úttektin kom út hafa stjórnvöld hækkað endurgreiðsluhlutfallið um 75%, eða úr 20% kostnaðar upp í 35%. Í frumvarpi stjórnvalda um hækkun endurgreiðslu til kvikmynda frá árinu 2022 segir að sífellt fleiri lönd bjóði upp á slíkar ívilnanir og fari endurgreiðsluhlutfall hækkandi, og sé víða komið upp í 35%. [16]
Í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarpið vakti ráðið athygli á því að kostnaður af frumvarpinu væri ekki metinn. [17] Varnarorð Viðskiptaráðs um að breytingin væri ófjármögnuð og óvissu um kostnað ríkissjóðs hafa raungerst. Frávik útgjalda vegna þessara endurgreiðslna á milli fjárlaga og ríkisreiknings hefur verið að jafnaði 103% síðustu þrjú ár, en 2021 og 2022 jukust útgjöldin um rúmlega 130% milli fjárlaga og reikningsins, en lækkuðu um 49% árið 2023. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að fjárlagaliðurinn hækki um 3,6 ma. kr. frá fjárlögum 2024.
Viðskiptaráð telur tímabært að umgjörð endurgreiðslukerfisins verði breytt með það fyrir augum að auka fyrirsjáanleika um kostnað ríkissjóðs. Það verður gert með því að setja þak á hámarkskostnað, en ráðið leggur til að þakið nemi kostnaði fjárlagaliðarins í fjárlögum síðasta árs, eða 2.494 m. kr.
#6 Húsnæðisaðgerðir
Viðskiptaráð leggur til að dregið verði úr húsnæðisaðgerðum stjórnvalda, annars vegar með endanlegri aflagningu vaxtabótakerfisins og hins vegar með afnámi hlutdeildarlána. Tillagan bætir afkomu ríkissjóðs um 2,9 ma. kr.
Að mati Viðskiptaráðs er afnám vaxtabótakerfisins tímabært, en útgjöld til þess samkvæmt frumvarpinu nema 2,1 ma. kr. Lengi vel hafa aðilar á borð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn bent á að hagfellt væri að draga úr þessum stuðningi m.a. vegna þess að hann vinnur gegn eigin markmiðum. [18] Vaxtabætur hvetja til skuldsetningar, aðstoða ekki fólk við að eignast húsnæði og hafa áhrif til hækkunar á húsnæðisverði. [19]
Þá leggur Viðskiptaráð til að stjórnvöld hætti að veita hlutdeildarlán. Sú breyting myndi bæta afkomu ríkissjóðs um 0,8 ma. kr. Í umsögn ráðsins um frumvarp hlutdeildarlána taldi ráðið úrræðið ekki til þess fallið að ná fram sínum markmiðum og vakti athygli á nokkrum göllum á fyrirkomulaginu. Í fyrsta lagi eru engin haldbær rök fyrir því að stjórnvöld eigi að beina fyrstu kaupendum í nýbyggingar. Yfirlýst markmið stjórnvalda með úrræðinu var að auka framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði. Það skýtur skökku við þar sem nýbyggingar eru jafnan dýrasta húsnæðið.
Í öðru lagi skekkja hlutdeildalán húsnæðismarkaðinn að því leyti að húsbyggjendur verða líklegri til að byggja húsnæði eftir viðmiðum hlutdeildarlánakerfis stjórnvalda en ekki þörfum markaðarins. Í þriðja lagi er óeðlilegt að skattgreiðendur eigi hluti í fasteignum en hafi síðan ekkert að segja um hvernig þeim er ráðstafað. [20]
Viðskiptaráð mælir með að aðrar og skilvirkari leiðir verði farnar til að stuðla að auknu húsnæðisframboði. [21]
#7 Stofnanaumhverfi
Viðskiptaráð leggur fram hagræðingartillögu um breytingar á stofnanaumhverfinu sem skiptast í þrjá flokka: sameiningar, niðurlagningar og hagræðingarkröfur. Tillagan bætir afkomu ríkissjóðs um 2,2 ma. kr.
Viðskiptaráð leggur til fimm stofnanasameiningar. Tillögurnar fækka stofnunum um 21, úr 26 stofnunum í 5, og spara 1.073 m. kr. á ári. Ráðið leggur til að Samkeppniseftirlitið, Fjarskipta- og Neytendastofa verði sameinaðar í eina stofnun sem sinnir neytendavernd. Þá verða Geislavarnir ríkisins og Umhverfis- og orkustofnun sameinaðar í eina stofnun. Einnig að Mannréttindastofnun, Persónuvernd, Jafnréttisstofa og Umboðsmaður barna verði sameinaðar í eina stofnun á sviði borgaralegra réttinda. [22] Þá verði héraðsdómstólarnir átta sameinaðir í eina stofnun og Sýslumannaembættin níu sameinuð í eitt sýslumannsembætti. [23]
Hagræðing vegna sameininganna miðar við 7% hagræðingarkröfu á allar aðrar sameiningar en sýslumannaembættin, þar sem hagræðingarkrafan er 17%. Fyrri krafan byggir á viðmiðum í nýlegri sameiningu tíu stofnana Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins í þrjár. [24] Sú seinni á reynslu af sameiningu skattaembætta árið 2010 en hún leiddi til 17% samdráttar í opinberri fjárveitingu. [25]
Viðskiptaráð leggur einnig til að tvær stofnanir verði lagðar niður. Tillögurnar spara 494 m. kr. Ráðið leggur til að Fjölmiðlanefnd verði lögð niður og verkefni stofnunarinnar sem snúa að neytendavernd verði færð til sameinaðrar stofnunar Samkeppnis- og Neytendaeftirlitsins og Fjarskiptastofu. [26] Viðskiptaráð leggur einnig til að Umboðsmaður skuldara verði lagður af. Ráðið telur að hlutverki þessarar stofnunar sé þegar sinnt af dómstólum og þeim stofnunum sem er ætlað að tryggja neytendavernd. [27]
Viðskiptaráð leggur einnig til að hagræðingarkrafa verði sett á Skattinn vegna fyrri sameiningar. Tillagan sparar 674 m. kr. á næsta ári. Á árunum 2019 – 2020 voru Ríkisskattstjóri, Tollurinn og Skattrannsóknarstjóri sameinaðir í eina stofnun. Í greinargerð frumvarpsins sem fól í sér sameininguna segir: „[g]era má ráð fyrir því að mikil samlegðaráhrif og hagræði hljótist af fullri sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra.“ Árið 2023 voru útgjöld sameinaðar stofnunar hins vegar 3% hærri að raunvirði en samanlögð útgjöld stofnananna þriggja árið fyrir sameiningu. Að mati ráðsins á Alþingi að gera kröfu um að framangreind samlegðaráhrif og hagræði raungerist.
Í fjárlagafrumvarpi 2025 hækka fjárheimildir Skattsins einnig um 245 m. kr. vegna kostnaðar vegna upptöku kílómetragjalds, eftirlits með frádrætti vegna rannsóknar og þróunarverkefna og vegna innleiðingar nýs virðismatskerfis sem byggir á tillögum um launajafnrétti. Stofnunin fær þannig sérgreiðslur á næsta ári vegna nýrra verkefna þrátt fyrir að sameinuð stofnun hafi verið vel í stakk búin að skila auknu hagræði ásamt því að sinna fleiri verkefnum. Með framangreint fyrir augum leggur ráðið til sömu hagræðingarkröfu á Skattinn sem nemur 7%, jafnt og á aðrar sameiningar.
#8 Ýmsir styrkir
Viðskiptaráð leggur til lækkun eða afnám ýmissa styrkja úr ríkissjóði. Þeir eru styrkir til stjórnmálasamtaka, stuðningur við einkarekna fjölmiðla og styrkir til frjálsra félagasamtaka. Tillagan bætir afkomu ríkissjóðs um 1,9 ma. kr.
Viðskiptaráð leggur til að styrkir til stjórnmálasamtaka verði afnumdir. Samhliða því yrði rýmkað um fjármögnunarmöguleika stjórnmálasamtaka. Tillagan sparar 622 m. kr. Styrkjakerfinu var komið á fót árið 2006 samhliða miklum takmörkunum á tækifæri til fjáröflunar. [28] Síðan lögin voru samþykkt hafa styrkirnir hækkað umfram verðlag.
Að mati Viðskiptaráðs er ákjósanlegra að stjórnmálasamtök fjármagni sig með frjálsum framlögum einstaklinga og fyrirtækja, líkt og þau höfðu gert fram að lagabreytingunni, í stað beinna framlaga úr ríkissjóði. Gagnsæi um slíka fjármögnun þarf jafnframt að vera tryggt.
Viðskiptaráð leggur til að styrkir til einkarekinna fjölmiðla verði afnumdir samhliða því að Ríkisútvarpið (RÚV) verði tekið af auglýsingamarkaði. Tillagan sparar 675 m. kr. Ráðið telur að með styrkjunum sé ráðist í úrbætur á krefjandi umhverfi fjölmiðla frá röngum enda. Nærtækara væri að horfa á RÚV, sem nýtur mikillar opinberrar meðgjafar til viðbótar við auglýsingatekjur sem miðillinn aflar. Auglýsingatekjur miðilsins námu 2.465 m. kr. árið 2023. Í stað beinna styrkja leggur ráðið til að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði og hlutverk stofnunarinnar á fjölmiðlamarkaði endurskoðað. Það myndi auka auglýsingatekjur einkarekinna fjölmiðla og stuðla þannig að aukinni samkeppni og jafnræði á markaðnum. [29]
Viðskiptaráð leggur einnig til að dregið verði úr styrkveitingum ráðuneyta og undirstofnana þeirra til frjálsra félagasamtaka. Tillagan sparar 636 ma. kr. Styrkirnir námu samtals 2.542 m.kr. árið 2023. [30] Ráðið hefur ekki forsendur til að meta hver útgjöld verða í fjárlögum ársins 2025 þar sem að ekki ríkir gagnsæi um framlögin. Viðskiptaráð telur tækifæri til hagræðingar vegna þess litla gagnsæis sem ríkir um útgjöldin og þeirrar staðreyndar að engin krafa er gerð um þjónustu í skiptum fyrir framlögin. Ráðið áætlar því að spara megi 636 m. kr. með 25% niðurskurði á þessum framlögum, byggt á tölum frá árinu 2023.
#9 Annað
Viðskiptaráð leggur til ýmsar aðrar hagræðingartillögur sem snúa að samkeppnissjóðum ríkisins, stuðningi til sóknaráætlanagerðar landshluta og öðrum útgjöldum. Tillögurnar spara 1,6 ma.kr.
Stærstan hluta sparnaðarins, eða 738 m. kr., má rekja til endurskoðunar fyrirkomulags og aflagningu samkeppnissjóða. Þær tillögur byggja á úttekt og tillögum Viðskiptaráðs varðandi samkeppnissjóði ríkisins. [31]
Næst þyngst vegur tillaga um að fjárframlög ríkis til gerða sóknaráætlana landshluta verði hætt. Eðlilegra væri að sveitarfélög í hverjum landshluta kæmu sér saman um slíkar áætlanir og fjármagna þær. Þannig væri betur stuðlað að skilvirkari ráðstöfun fjármuna.
Þá leggur ráðið til að fallið verði frá átaki í lýðheilsutengdum aðgerðum, en áætlaður kostnaður við það er 300 m. kr. Ekki liggur fyrir í fjárlagafrumvarpinu í hvað eigi að ráðstafa þessum fjármunum. Loks leggur ráðið til að fallið verði frá auknum fjárheimildum kærunefndar húsamála samhliða því að undið verði ofan af nýlegri breytingu á húsaleigulögum, en sú tillaga bætir afkomu ríkissjóðs um 20 m. kr.
---
1 Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taldi til dæmis í júlímánuði að núverandi aðhaldsstig peninga- og fjármálastefnu sé til þess fallið að draga úr verðbólguþrýstingi. Slóð: https://www.imf.org/en/Publications/CR/Issues/2024/07/15/Iceland-2024-Article-IV-Consultation-Press-Release-and-Staff-Report-551849
2 Ítarlegri yfirferð um framangreind atriði má finna í umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029. Slóð: https://vi.is/frettir/fjarmalaaetlun-2025
3 Áhrif lægri skuldastöðu vegna afgangs í stað halla af fjárlögum á vaxtagjöld eru ómeðtalin
4 Nánar í umsögn Viðskiptaráðs um fjármálaáætlun 2025-2026. Slóð: https://vi.is/umsagnir/fjarmalaaetlun-2025
5 Sjá nefndarálit fjárlaganefndar við fjármálaáætlun 2025-2026: Slóð: https://althingi.is/altext/pdf/154/s/1831.pdf
6 Sjá Fjárlagafrumvarp 2024. https://www.stjornarradid.is/library/03-Verkefni/Efnahagsmal-og-opinber-fjarmal/Fjarlagafrumvarp-fyrir-2024/Skjolin/Frumvarp-til-fjarlaga-2024.pdf
7 Sjá „Share of cars currently in use that are electric“. Our World in Data. Slóð: https://ourworldindata.org/electric-car-sales
8 https://www.althingi.is/altext/150/s/0596.html
9 Sjá svör við fyrirspurnum RÚV um kostnað vegna ívilnana vegna rafbílakaupa 2012 – 2023. Áætlað er að stuðningurinn nemi 7.500 m. kr. 2024 og 2025. Slóð: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-03-09-rafbilavaedingin-er-annad-saetid-nog-422501
10 Sjá kostnaðar- og ábatamat aðgerða stjórnvalda í loftslagsmálum. Hagfræðistofnun (2022). Slóð: https://ioes.hi.is/sites/ioes.hi.is/files/2022-07/A%C3%B0ger%C3%B0aa%CC%81%C3%A6tlun%20skilaeintak%201507_2022.pdf
11 Sjá “Impact of Sweden’s Incentive Abolishment on Electric Vehicle Demand“ (2024). Slóð: https://hj.diva-portal.org/smash/get/diva2:1862760/FULLTEXT01.pdf
12 Sjá Sweden to offer subsidies of up to 25% on new electric HGVs. Slóð: https://trans.info/en/sweden-to-subsidy-new-electric-hgvs-378235
13 Sjá „greining og mat á fjárhagslegum áhrifaþáttum“ í áformum um kílómetragjald. Slóð: https://samradapi.island.is/api/Documents/cd710ee9-9d3f-ef11-9bc4-005056bcce7e
14 Sjá úttekt Viðskiptaráðs (september 2024): „Veðjað á rangan hest: umgjörð veðmálastarfsemi á Íslandi.“ Slóð: https://vi.is/skodanir/vedjad-a-rangan-hest
15 Sjá úttekt Hagfræðistofnunar: „Hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi“ (2012). Slóð: https://www.althingi.is/altext/145/s/0664.html
16 Sjá Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Slóð: https://www.althingi.is/altext/152/s/1039.html
17 Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Slóð: https://vi.is/umsagnir/fullkomin-ovissa-um-kostnad-rikissjods
18 Sjá Viðskiptaráð (2015): „Úttekt AGS áfellisdómur yfir húsnæðisstefnu stjórnvalda.“ Slóð: https://vi.is/frettir/uttekt-ags-afellisdomur-yfir-husnaedisstefnu-stjornvalda
19 Sjá umfjöllun um húsnæðisstuðnings í umsögn Viðskiptaráðs um Fjármálaáætlun 2025 – 2029. Slóð: https://vi.is/frettir/lagt-a%C3%B0haldsstig-og-illa-gengi%C3%B0-a%C3%B0-draga-ur-utgjol
20 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál (hlutdeildarlán). Slóð: https://vi.is/greinar/gollud-og-oljos-leid-hlutdeildarlana
21 Lesa má um þær tillögur í umsögn ráðsins um Fjármálaáætlun 2025 – 2029. Slóð: https://vi.is/frettir/lagt-a%C3%B0haldsstig-og-illa-gengi%C3%B0-a%C3%B0-draga-ur-utgjol
22 Tillagan byggir á úttekt Viðskiptaráðs á opinberu eftirliti (2024). Slóð: https://www.vi.is/skodanir/rettum-kursinn
23 Tillagan byggir á úttekt Viðskiptaráðs á stofnanaumhverfinu hér á landi (2015). Slóð: https://vi.is/files/%C3%BAtg%C3%A1fa/skodanir/snidum-stakk-eftir-vexti.pdf
24 Í áformum um sameiningu tíu stofnana orku-, umhverfis- og loftslagsráðuneytis segir að almenn sé hagræðing vegna sameininga stofnana 7%. (2024) Slóð: https://island.is/samradsgatt/mal/3475
25 Sjá sameiningu skattaembætta á bls. 94 í tillögum verkefnisstjórnar samráðsvettvangs um aukna hagsæld (2013). Slóð https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/samradsvettvangur/fundargogn-samradsvettvangur-3-fundur-netid.pdf
26 Tillagan byggir á úttekt Viðskiptaráðs á opinberu eftirliti (2024). Slóð: https://www.vi.is/skodanir/rettum-kursinn
27 Tillagan byggir á úttekt Viðskiptaráðs á stofnanaumhverfinu hér á landi (2015). Slóð: https://vi.is/files/%C3%BAtg%C3%A1fa/skodanir/snidum-stakk-eftir-vexti.pdf
28 Sjá “Lög um starfsemi stjórnmálasamtaka”. Slóð: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2006162.html
29 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um drög að tillögu til þingsályktunar um fjölmiðlastefnu og aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla til 2023. Slóð: https://vi.is/umsagnir/umsogn-um-drog-a-tillogu-til-ingsalyktunar-um-fjol
30 Styrkir frá mennta- og barnamálaráðuneytinu eru ekki inni í þessari tölu, þar sem þær tölur liggja ekki fyrir.
31 Sjá “Fæstum þykir sinn sjóður of þungur” (2024). Slóð: https://www.vi.is/skodanir/sjodagreining-2024
Mbl.is: Aðkoma ríkisins óheillaþróun
Vb.is: „Tímabært að stjórnvöld leggi fram hallalaus fjárlög”