Viðskiptaráð Íslands

Látum ekki fáa hindra framfarir

Afstaða stjórnmálaflokka til efnahagsmála í kosningaáttavita Viðskiptaráðs gefur tilefni til bjartsýni varðandi nokkur þjóðþrifamál sem mikill meirihluti er fylgjandi. Ef fram heldur sem horfir ætti að vera leikur einn fyrir nýja ríkisstjórn að koma þeim á dagskrá.

María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs

Viðskiptaráð birti í síðustu viku kosningaáttavita sem varpar ljósi á stefnu stjórnmálaflokkanna út frá efnahagslegu frelsi og skýrleika stefnu. Áttavitinn byggir á 60 fullyrðingum sem öll framboð sem bjóða fram á landsvísu, að Sósíalistum undanskildum, tóku afstöðu til. Eðli máls samkvæmt er afstaða flokkanna til efnahagsmála misjöfn en þó gefur áttavitinn tilefni til bjartsýni varðandi nokkur þjóðþrifamál sem mikill meirihluti er fylgjandi. Ef fram heldur sem horfir ætti að vera auðvelt fyrir nýja ríkisstjórn að koma þeim á dagskrá.

Þegar kemur að sköttum og ríkiseignum eru flestir flokkar fylgjandi lækkun tryggingagjalds og jöfnun þrepa virðisaukaskatts en um leið andvígir álagningu stóreignaskatts. Þá standa Vinstri græn ein gegn fækkun fasteigna í eigu ríkisins og aðeins Flokkur fólksins er andvígur því að ljúka sölu á Íslandsbanka innan tveggja ára.

Allir flokkar nema Flokkur fólksins vilja fækka umdæmum heilbrigðiseftirlits úr níu í eitt. Þessi samhugur er til viðbótar við sex skýrslur yfir 23ja ára tímabil sem hafa allar lagt til umbætur á kerfinu. Vonandi dugir það til að málið gangi í gegn á næsta kjörtímabili.

Tíu sinnum hafnað – enginn á móti

Enginn flokkur leggst gegn afnámi stimpilgjalda við kaup á fasteignum. Það er áhugavert í ljósi þess að frumvarp um afnám gjaldsins hefur verið lagt fram tíu sinnum á Alþingi án þess að hljóta framgang. Það verður því vonandi leikur einn fyrir nýkjörið þing að afnema skatt sem dregur úr virkni húsnæðismarkaðarins með því að rýra hlut þeirra sem eiga þar viðskipti.

Þá eru nokkur mál sem ætla mætti að væru umdeild miðað við opinbera umræðu, ekki svo umdeild í raun. Í kosningaáttavitanum eru andvígir flokkar í þeim málum bæði örfáir og örsmáir. Sem dæmi um það má nefna aukna aðkomu einkaaðila að innviðaframkvæmdum, fjölbreytt rekstrarform við veitingu heilbrigðisþjónustu, aukna orkuöflun, aukið frjálsræði í veðmálastarfsemi og samræmt námsmat við lok grunnskólagöngu.

Þá er jákvætt að sjá hversu margir flokkar eru fylgjandi því að færa réttindi opinberra starfsmanna nær almennum vinnumarkaði hvað varðar starfsöryggi. Það er mál sem fáir stjórnmálamenn hafa hingað til ljáð máls á þótt það hafi mikil áhrif á hagkvæmni í rekstri hins opinbera.

Einna jákvæðast er að flestir flokkar eru fylgjandi svokallaðri útgjaldareglu eða stöðugleikareglu sem takmarkar vöxt ríkisútgjalda á milli ára. Um er að ræða fjármálareglu sem er ætlað að koma betra jafnvægi á ríkisfjármálin. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lagt til upptöku slíkrar reglu og Moody's hefur sagt að útgjaldaregla sem setji útgjaldavexti mörk yrði jákvæð fyrir lánshæfismat landsins. Þá hafa Fjármálaráð, meirihluti fjárlaganefndar, hagsmunaaðilar í atvinnulífinu og fleiri talað fyrir upptöku slíkrar reglu.

Háværir hópar með lítið fylgi

Kosningaáttavitinn sýnir að mikill meirihluti flokka er fylgjandi tugum góðra mála sem eru til þess fallin að auka hagsæld og byggja undir frekari verðmætasköpun hér á landi. Ef andstæðingum er til að dreifa þá eru það í flestum tilvikum flokkar sem eru örsmáir og mælast jafnvel utan þings.

Það er kjörið tækifæri fyrir þau sem hljóta kjör til Alþingis í komandi kosningum að draga lærdóm af síðastliðnu kjörtímabili og láta ekki háværa minnihluta drepa góð mál. Mikill meirihluti framboða er fylgjandi þörfum framfaramálum og því ætti að vera upplagt að koma þeim á dagskrá - óháð því hverjir setjast við ríkisstjórnarborðið að loknum kosningum.

María Guðjónsdóttir
Lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2024.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024