Viðskiptaráð Íslands

Kosningaáttavitinn: afstaða framboða misjöfn

Afstaða stjórnmálaflokkanna til efnahagsmála er misjöfn. Þetta kemur fram í nýjum kosningaáttavita Viðskiptaráðs, sem kom út í dag vegna komandi alþingiskosninga. Áttavitinn varpar ljósi á stefnu stjórnmálaframboða út frá tveimur þáttum: efnahagslegu frelsi og skýrleika stefnu. Myndrænt lítur niðurstaðan svona út:

Til að kortleggja stefnu framboðanna sendi Viðskiptaráð spurningakönnun til allra framboða á landsvísu. [1] Könnunin innihélt sextíu fullyrðingar. Fimm svarmöguleikar voru við hverri fullyrðingu; mjög fylgjandi, frekar fylgjandi, hlutlaus, frekar andvíg og mjög andvíg. Jafnframt gafst framboðunum færi á að láta skýringu fylgja hverju svari.

Fyrir hverja fullyrðingu fengu framboðin svo einkunn á bilinu -1 til +1 stig, út frá því hvort afstaðan auki eða dragi úr efnahagslegu frelsi. Þannig var hægt að fá stig á bilinu -60 til +60 á þann mælikvarða. Heildarstigafjöldi ræður því hvar flokkarnir raðast á lárétta ásinn, sem mælir efnahagslegt frelsi.

Skýrleiki stefnu flokkanna var síðan metinn út frá því hversu skýra afstöðu þeir tóku gagnvart þeim fullyrðingum sem fyrir þá voru lagðir. Stigin gátu verið frá 0 og upp í 60; 0 stig ef framboðið var alveg hlutlaust og 60 stig ef það tók afdráttarlausa afstöðu gagnvart öllum fullyrðingum.

Ólík afstaða til málefna

Á eftirfarandi myndum má sjá afstöðu framboðanna í sjö málaflokkum, en þeir eru skattar, útgjöld, sala ríkiseigna, stofnanaskipulag, atvinnuvegir, regluverk og grunnstoðir.

Efnisrík umræða um efnahagsmál

Kosningaáttavitinn og kosningafundurinn eru efnisleg framlög Viðskiptaráðs í kosningabaráttuna fyrir komandi alþingiskosningar. Markmið ráðsins með hvoru tveggja er að varpa skýrara ljósi á stefnu framboðanna í efnahagsmálum og stuðla að upplýstri og efnisríkri umræðu um þau.

Niðurstöður kosningaáttavitans voru kynntar í morgun á kosningafundi í Hörpu. Samhliða eru þær nú birtar hér á vef ráðsins. Meðfylgjandi töflureiknis-skjal sýnir afstöðu og skýringar allra framboða gagnvart öllum 60 fullyrðingum sem lögð voru fyrir þau.

Ráðið þakkar þeim framboðum sem skiluðu inn svörum kærlega fyrir þátttökuna og óskar frambjóðendum góðs gengis á þeim lokaspretti baráttunnar sem fram undan er.

---

Ítarefni

Kosningaáttavitinn - svör og útreikningar (Excel-skjal)

---

Tilvísanir

[1] Sósíalistaflokkur Íslands svaraði ekki spurningum Viðskiptaráðs og er því ekki á kosningaáttavita ráðsins.

---

Breytingar

Uppfært 13. nóv kl. 14.15: Svör frá Viðreisn uppfærð:
(#36) Leyfa ætti auglýsingar á áfengi í innlendum miðlum - úr frekar andvíg yfir í frekar fylgjandi
(#38) Rýmka ætti reglur í kringum kaupaukagreiðslur á fjármálamarkaði - úr frekar andvíg yfir í hlutlaus

Uppfært 14. nóv kl 09:15: Svar frá Miðflokki uppfært:
(#1) Afnema ætti tolla á innflutt matvæli - úr mjög fylgjandi yfir í mjög andvíg

Tengt efni

Tvær af hverjum þremur loftslagsaðgerðum hafa neikvæð efnahagsleg áhrif

Viðskiptaráð hefur metið efnahagsleg áhrif 150 loftslagsaðgerða stjórnvalda. …
18. september 2024

Allt að 43% lægra matvöruverð án tolla

Afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%. Þetta kemur fram í nýrri …
8. ágúst 2024

Hvernig stóð ríkisstjórnin sig í vetur?

Viðskiptaráð hefur gert úttekt á efnahagslegum áhrifum þingmála …
4. júlí 2024