Viðskiptaráð Íslands

Óháðir stjórnarmenn í þágu hluthafa

Þann 19. mars sl. birtist í Viðskiptablaðinu grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, lögmann á LEX, undir yfirskriftinni „Óháða ógnin“. Í greininni er fjallað um leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, sem gefnar eru út af Viðskiptaráði Íslands, Kauphöll Íslands og Samtökum atvinnulífsins.

Heiðrún gagnrýnir þau tilmæli leiðbeininganna að meirihluti stjórnarmanna skuli vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess og að minnsta kosti tveir stjórnarmenn skuli vera óháðir stórum hluthöfum ef stjórn er skipuð fimm aðilum. Telur hún þessi tilmæli falla illa að norrænni hlutafélagalöggjöf.

Um þessar mundir stendur yfir vinna við endurskoðun leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja en ekki stendur til að breyta ákvæðum um óháða stjórnarmenn. Ástæðan fyrir því er þríþætt.

Í fyrsta lagi eru ákvæði leiðbeininganna um óháða stjórnarmenn samhljóða ákvæðum í leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja á öllum öðrum Norðurlöndum. Í þessu samhengi þarf að gera greinarmun á annars vegar tilmælum um að tveir stjórnarmenn skuli vera óháðir stórum hluthöfum og hins vegar tilmælum um að meirihluti stjórnarmanna skuli vera óháðir fyrirtækinu og stjórnendum þess. Ólík rök liggja að baki hvorum þætti fyrir sig.

Tilmælunum um að tveir stjórnarmenn í fimm manna stjórn skuli vera óháðir stórum hluthöfum er ætlað að koma í veg fyrir alræði stórra hluthafa á kostnað þeirra smærri. Tilmælin um að meirihluti stjórnar skuli vera óháður fyrirtækinu og stjórnendum þess er í samræmi við það hlutverk stjórnarinnar að hafa eftirlit með stjórnendum fyrirtækis. Þannig er þeim ætlað að koma í veg fyrir að stjórnin verði meðvirk með stjórnendum fyrirtækisins og styðji þá hugsanlega til verka sem ganga gegn almennum hagsmunum hluthafa. Þannig eru bæði tilmælin um óháða stjórnarmenn til þess fallin að gæta hagsmuna hluthafa þótt þau séu af ólíkum toga.

Í öðru lagi eru leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja ekki síst ætlaðar fyrirtækjum sem hafa verðbréf sín skráð á skipulögðum verðbréfamarkaði, lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum. Í slíkum félögum er sérstaklega mikilvægt að stjórn starfi sem ein heild í þágu hagsmuna félagsins en stjórnarmenn gangi ekki erinda ákveðinna hluthafa, hluthafahópa eða annarra hagsmunaaðila. Til að auka tiltrú fjárfesta á sjálfstæði stjórnar gagnvart stórum hluthöfum hefur á öllum Norðurlöndunum verið talið nauðsynlegt að gera þær kröfur sem kveðið er á um í leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja.

Í þriðja lagi er rétt að benda á að leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja eru leiðbeinandi tilmæli og grundvallast á „fylgið eða skýrið“ reglunni. Í því felst að stjórnendum fyrirtækja er veitt svigrúm til að víkja frá einstökum atriðum í leiðbeiningunum en þá skal skýra ástæður frávika í stjórnarháttayfirlýsingu. Séu slíkar aðstæður uppi í félögum að réttlætanlegt þyki að víkja frá umræddum kröfum um óhæði stjórnarmanna er það því heimilt.

Leiðbeiningum um góða stjórnarhætti er ætlað að auka fagmennsku hjá æðstu stjórn fyrirtækja, vekja forsvarsmenn til umhugsunar um góða stjórnarhætti og auka bæði skilvirkni og gagnsæi í stjórnarstörfum. Aukinn áhugi á góðum stjórnarháttum og gagnrýnin umræða um stjórnarhætti hérlendis er því jákvæð þróun sem styður vel við markmiðin með útgáfu leiðbeininganna.

Fyrir hönd útgáfuaðila leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja,

Marta Guðrún Blöndal, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Þóranna Jónsdóttir, formaður starfshóps um stjórnarhætti og forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024