Greining á kostnaði fyrirtækja vegna innleiðingar á sjálfbærniregluverki Evrópusambandsins
Viðskiptaráð hefur framkvæmt greiningu á innleiðingu sjálfbærniregluverks Evrópusambandsins. Hluti regluverksins hefur verið innleiddur með meira íþyngjandi hætti hér á landi en þörf krefur og leiðir greiningin m.a. í ljós að íslensk fyrirtæki búa við meiri kostnað en fyrirtæki í öðrum Evrópulöndum vegna þessa.
Greiningu Viðskiptaráðs má finna hér en helstu niðurstöður hennar eru:
Evrópusambandið hefur verið leiðandi í sjálfbærri þróun en markmið sambandsins er að verða fyrsta loftslagshlutlausa hagkerfið. ESB hefur sett aðgerðaráætlun sem útlistar hvernig sambandið hyggst stýra flæði fjármagns í átt til sjálfbærra lausna. Á grundvelli þessarar áætlunar hafa verið settar reglugerðir, sem hafa verið innleiddar að hluta til hérlendis, en stór hluti verður innleiddur á næstunni. Þessar breytingar munu koma til með að hafa mikil áhrif á íslenskt atvinnulíf, en reglurnar leggja miklar skyldur á fyrirtæki sem mikilvægt er að þekkja.
Regluverkið stuðlar að sameiginlegu markmiði sem ber að fagna og mun því án efa fylgja mikill ávinningur sem er til dæmis fólginn í hegðunarbreytingu meðal fyrirtækja sem stuðlar að aukinni vitund um sjálfbærnimál, endurbótum á ferlum og breytingu á áhættustefnu fyrirtækja. Þó þarf einnig að horfast í augu við það að regluverkinu fylgir umtalsverður kostnaður fyrir fyrirtæki í landinu. Það skiptir miklu máli að regluverkið sé ekki innleitt með séríslenskum íþyngjandi skilyrðum, þ.e. að ekki verði settar strangari kröfur eða að áhrif þess séu víðtækari en í nágrannalöndunum. Því miður eru mörg dæmi um að íslensk stjórnvöld innleiði EES-reglur með meira íþyngjandi hætti en reglugerðirnar sjálfar krefjast. Hluti sjálfbærniregluverksins hefur þegar verið innleiddur með meira íþyngjandi hætti en þörf er á, sem leiðir af sér mun meiri kostnað fyrir íslenskt atvinnulíf.
Árið 2016 var NFRD tilskipunin (Non financial reporting directive) innleidd hérlendis. Tilskipunin fjallar um birtingu tiltekinna fyrirtækja á ófjárhagslegum upplýsingum og upplýsingum um fjölbreytileika. Í Evrópu nær hún til stórra eininga sem eru tengdar almannahagsmunum, þannig þurfa bæði skilyrði að vera uppfyllt til að falla undir skyldu tilskipunarinnar. Við innleiðingu hérlendis var gildissviðið útvíkkað verulega með því að einingar tengdar almannahagsmunum voru felldar undir ákvæðið óháð fjölda starfsmanna, veltu og stærð, ásamt því að stór félög féllu undir ákvæðið, í víðari merkingu en tilskipunin gerði kröfu um eða með starfsmannafjölda yfir 250 í stað 500. Tæplega átta sinnum fleiri íslensk fyrirtæki falla því undir gildissvið regluverksins vegna óþarflega íþyngjandi innleiðingar hérlendis. Áætlað er að þetta óþarflega íþyngjandi regluverk hafi kostað íslenskt atvinnulíf 9,8 milljarða króna - kostnað sem önnur fyrirtæki innan ESB þurfa ekki að bera.
Ekki var fjallað sérstaklega um það við innleiðinguna að gildissviðið hefði verið útvíkkað á þennan hátt eða hvers vegna valið var að fara þessa leið. Þá var ekki lagt mat á þau áhrif sem innleiðingin hefði í för með sér. Viðskiptaráð hefur margoft bent á nauðsyn þess að efnahagsleg áhrif á fyrirtæki, bæði kostnaður og ávinningur, séu metin við lagasetningu. Þetta skiptir sér í lagi máli þegar kemur að innleiðingu tilskipana og reglugerða þegar valið er að fara meira íþyngjandi leiðir en þörf krefur. Þessu hefur verið verulega ábótavant til þessa.
Nú stendur til að innleiða fleiri sjálfbærnireglugerðir frá ESB, en mun ítarlegra regluverk um birtingu sjálfbærniupplýsinga er væntanlegt með tilskipun sem á að taka við af NFRD og nefnist CSRD (Corporate Sustainability Reporting Directive). Í ljósi þess hversu mikinn kostnað fyrirtæki hafa þegar borið af því að innleiða þær reglur sem CSRD á nú að taka við af, telur Viðskiptaráð afar mikilvægt að stjórnvöld innleiði nýja regluverkið ekki með séríslenskum íþyngjandi ákvæðum og velji ekki víðtækara gildissvið en önnur lönd í Evrópu gera, enda dregur það að lokum úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og þannig íslensks samfélags í heild. Viðskiptaráð leggst eindregið gegn íþyngjandi innleiðingu og telur ótækt að þegar sú leið er valin sé ekki gerð tilraun til að meta áhrif þess og rökstyðja hvers vegna stjórnvöld telja nauðsynlegt að ganga lengra en aðrar þjóðir. Þá er einnig mikilvægt að gæta þess að gefa fyrirtækjum viðeigandi aðlögunartíma og að sá tími sé nýttur til að leiðbeina og tryggja í samstarfi stjórnvalda og fyrirtækja að markmiðum með innleiðingum sé náð með farsælum hætti.