Viðskiptaráð Íslands

Styrkir án skýringa: opinber framlög til félagasamtaka

Ár hvert hljóta frjáls félagasamtök milljarða króna í styrki frá ráðuneytum og ríkisstofnunum. Lítið gagnsæi ríkir um umfang þessara styrkja, til hverra þeir eru veittir og á hvaða grundvelli. Viðskiptaráð leggur til þrjár leiðir til að auka gagnsæi og aðhald með þessum styrkveitingum. Að mati ráðsins er tímabært að draga úr umfangi þeirra.

Styrkir ráðuneyta og ríkisstofnana til frjálsra félagasamtaka námu 2,5 ma. kr. árið 2023. Lítið gagnsæi ríkir um umfang slíkra styrkja, til hverra þeir eru veittir og á hvaða grundvelli en stórt hlutfall styrkjanna birtist hvergi í fjárlögum, nema undir svokölluðum safnliðum án sundurliðunar.

Flest ráðuneyti hafa nú birt slíka sundurliðun í kjölfar fyrirspurna frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, alþingismanni. Rétt er að geta þess að mennta- og barnamála-; umhverfis-, orku- og loftslags; dómsmála-; og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið svöruðu ekki fyrirspurninni svo heildarupphæð styrkveitinga er hærri.

Þegar styrkirnir eru skoðaðir eftir ráðuneyti er ljóst að utanríkisráðuneytið veitti mestum fjármunum í styrki árið 2023 eða um 962 milljónum króna. Styrkirnir ráðuneytisins voru alls 34 talsins og nær allir veittir undir fjárlagaliðnum „Alþjóðleg þróunarsamvinna.“ Þeir fóru þannig að mestum hluta til samtaka sem starfa á sviði þróunarsamvinnu.

Næst á eftir utanríkisráðuneytinu kemur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, sem veitti alls 703 milljónum í 77 styrki til frjálsra félagasamtaka. Stærsti styrkurinn var til Krýsuvíkursamtakanna, en hann nam tæpum 150 milljónum og var veittur á grundvelli samnings um stuðning og þjónustu við einstaklinga sem dvelja á meðferðarheimilum. Menningar- og viðskiptaráðuneytið var það þriðja umfangsmesta í styrkveitingum, en það veitti 513 milljónum í 48 styrki.

Fjöldi styrkja án samninga

Þegar einstakir styrkir eru skoðaðir kemur í ljós að margir þeirra eru veittir án þess að samningur um þjónustu liggi fyrir. Þessum styrkjum fylgja heldur ekki upplýsingar um á hvaða grundvelli þeir hafi verið veittir né heldur kvaðir um starfsemi, eftirfylgni eða upplýsingagjöf. Þetta er í andstöðu við lög um opinber fjármál, sem kveða á um að gætt sé að jafnræði, hlutlægni, gagnsæi og samkeppnissjónarmiðum við styrkveitingar og að gerður sé skriflegur samningur sem tryggi eftirfylgni með styrkveitingunni.

Svo nokkur dæmi séu tekin um slíka styrki þá hlaut Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar 45,2 milljónir í slíkan styrk, Mannréttindaskrifstofa Íslands 33,9 milljónir, Hið íslenska fornritafélag 21 milljón, Landssamband eldri borgara 15 milljónir, Alþýðusamband Íslands 15 milljónir og Minningarfélag um síldarstúlkuna 15 milljónir.

Endurskoðum umgjörðina

Af framangreindu er ljóst að mörg dæmi eru um að stjórnvöld veiti opinberum fjármunum til félagasamtaka án þess að samningur um þjónustu, rökstuðningur eða kvaðir um upplýsingagjöf liggi fyrir. Þá voru upplýsingar um framangreinda styrki einungis aðgengilegar vegna fyrirspurnar þingmanns til ráðuneytanna.

Úrbóta er þörf þegar kemur að styrkveitingum til félagasamtaka með aukið gagnsæi, eftirfylgni og aðgengi að leiðarljósi. Viðskiptaráð leggur til eftirfarandi breytingar:

  • Opinberir styrkir séu einungis veittir til frjálsra félagasamtaka á grundvelli samnings þar sem tilgreint er á hvaða forsendum styrkveitingin byggir. Samningurinn liggi fyrir opinberlega svo skattgreiðendur séu upplýstir um innihald hans.
  • Eftirfylgni með styrkveitingunum verði innleidd með samræmdum hætti svo stjórnvöld gangi úr skugga um að opinberu fé sé varið í samræmi við undirliggjandi samninga. Þetta mætti til dæmis útfæra með staðlaðri skýrslugjöf af hálfu viðkomandi félagasamtaka.
  • Upplýsingagjöf í tengslum við fjárlög hvers árs verði aukin þannig að þeim fylgi sundurliðað yfirlit yfir alla opinbera styrki til frjálsra félagasamtaka ásamt upphæðum og rökstuðningi.

Framangreindar aðgerðir myndu tryggja gagnsæi um styrkveitingarnar og gefa almenningi kost á aðhaldi gagnvart þessum fjárveitingum.

Viðskiptaráð telur jafnframt tilefni til að endurskoða enn frekar opinbera styrki til félagasamtaka með lækkun að leiðarljósi. Þegar hefur verið lögfest breyting sem gerir einstaklingum og fyrirtækjum kleift að draga framlög sín til almannaheillafélaga frá skattstofni, svo hvatar borgaranna til að styðja við frjáls félagasamtök hafa verið auknir. Að mati ráðsins er almennt heillvænlegra að félagasamtök séu styrkt af almennum borgurum en ekki hinu opinbera.

Tengt efni

Tvær af hverjum þremur loftslagsaðgerðum hafa neikvæð efnahagsleg áhrif

Viðskiptaráð hefur metið efnahagsleg áhrif 150 loftslagsaðgerða stjórnvalda. …
18. september 2024

Allt að 43% lægra matvöruverð án tolla

Afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%. Þetta kemur fram í nýrri …
8. ágúst 2024

Hvernig stóð ríkisstjórnin sig í vetur?

Viðskiptaráð hefur gert úttekt á efnahagslegum áhrifum þingmála …
4. júlí 2024