Viðskiptaráð Íslands

Styrkir til félagasamtaka: hið nýja skúffufé?

Ár hvert hljóta frjáls félagasamtök milljarða króna í styrki frá ráðuneytum og ríkisstofnunum. Lítið gagnsæi ríkir um umfang þessara styrkja, til hverra þeir eru veittir og á hvaða grundvelli. Viðskiptaráð leggur til þrjár leiðir til að auka gagnsæi og aðhald með þessum styrkveitingum.

Stjórnvöld hafa nú birt sundurliðun á styrkjum til frjálsra félagasamtaka í kjölfar fyrirspurnar frá Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, alþingismanni. Í svörum við fyrirspurninni kemur fram að styrkir ráðuneyta og ríkisstofnana til frjálsra félagasamtaka námu 2,5 ma. kr. árið 2023. [1]

Svörin vöktu athygli Viðskiptaráðs fyrir þær sakir að meirihluti þessara styrkja hefur hvorki verið sundurliðaður áður í fjárlögum né í ársskýrslum ráðherra. Það er í andstöðu við lög um opinber fjármál og reglugerð um styrkveitingar ráðherra, þar sem kveðið er á um slíka birtingu, m.a. svo gætt sé að jafnræði, hlutlægni, gagnsæi og samkeppnissjónarmiðum við styrkveitingar. [2]

Þegar styrkirnir eru skoðaðir eftir ráðuneyti sést að utanríkisráðuneytið vegur þar þyngst, en það veitti 962 milljónum króna í 34 styrki til frjálsra félagasamtaka. Þar á eftir kemur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, sem veitti alls 703 milljónum í 77 slíka styrki. Menningar- og viðskiptaráðuneytið var það þriðja umfangsmesta, en það veitti 513 milljónum í 48 styrki.

Einungis í tilfelli utanríkisráðuneytisins er meirihluta styrkjanna getið í sérstöku fylgiriti fjárlaga um styrktar- og samstarfssamninga. Meirihluti styrkja annarra ráðuneyta virðist því veittur án samninga sem lágu fyrir við fjárlagagerð.

Meirihluti styrkja án samninga

Af framangreindu er ljóst að meirihluti styrkja er veittur án þess að samningur um þjónustu liggi fyrir við gerð fjárlaga. Þá er víða misbrestur á því að áform um styrkveitingar séu auglýst svo kalla megi eftir umsóknum frá styrkhæfum aðilum. Einnig skal gera skriflegan samning sem tryggir eftirfylgni með styrkveitingunni.

Dæmi um styrki sem ekki er getið í fjárlögum má sjá á meðfylgjandi mynd. Árið 2023 hlaut Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar 45,2 milljónir í styrk, Íslenski ferðaklasinn 28 milljónir, Hið íslenska fornritafélag 21 milljón, Landssamband eldri borgara 15 milljónir, Alþýðusamband Íslands 15 milljónir og Minningarfélag um síldarstúlkuna 15 milljónir.

Endurskoðum umgjörðina

Af framangreindu má ráða að mörg dæmi eru um að stjórnvöld veiti opinberum fjármunum til félagasamtaka án þess að samningur um þjónustu, rökstuðningur eða kvaðir um skýrslugjöf séu uppfylltar. Þá eru upplýsingar um upphæðir og viðtakendur þessar styrkja einungis aðgengilegar almenningi vegna sérstakrar fyrirspurnar á Alþingi.

Viðskiptaráð er fylgjandi því að hið opinbera útvisti verkefnum og nýti krafta frjálsra félagsamtaka til að hámarka hagkvæmni. Fyrirkomulag þar sem frjáls félagasamtök þiggja milljarða króna í styrki án þess að fyrir liggi samningar þar sem upphæðir og viðtakendur eru tilgreindir skýtur hins vegar skökku við. Margir þessara styrkja hafa lítið með grunnhlutverk hins opinbera að gera og Viðskiptaráð telur einsýnt að umfang þeirra væri minna ef sundurliðun þeirra lægi fyrir.

Viðskiptaráð leggur til eftirfarandi breytingar:

  • Samningar liggi fyrir: Opinberir styrkir séu einungis veittir til frjálsra félagasamtaka á grundvelli samnings að undangenginni auglýsingu. Samningurinn liggi fyrir opinberlega svo skattgreiðendur séu upplýstir um efni hans.
  • Bætt upplýsingagjöf: Upplýsingagjöf í tengslum við fjárlög hvers árs verði aukin þannig að þeim fylgi sundurliðað yfirlit yfir alla opinbera styrki til frjálsra félagasamtaka ásamt upphæðum og rökstuðningi, samanber svör við fyrirspurn Berglindar Óskar Guðmundsdóttur.
  • Stöðluð eftirfylgni: Eftirfylgni með styrkveitingunum verði innleidd með samræmdum hætti svo stjórnvöld gangi úr skugga um að opinberu fé sé varið í samræmi við undirliggjandi samninga. Þetta mætti til dæmis útfæra með staðlaðri skýrslugjöf af hálfu viðkomandi félagasamtaka.

Framangreindar aðgerðir myndu tryggja að farið væri að núgildandi lögum og reglum, auka gagnsæi um styrkveitingarnar og gefa almenningi kost á aðhaldi gagnvart þessum fjárveitingum.

---

Tilvísanir:

1 Mennta- og barnamála-; umhverfis-, orku- og loftslags; dómsmála-; og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið svöruðu ekki fyrirspurninni. Heildarupphæð styrkveitinga ráðuneyta til frjálsra félagasamtaka er því hærri en 2,5 ma. kr.

2 Sjá 42. gr. laga um opinber fjármál (nr. 2015/123) og reglugerð (nr. 642/2018) um styrkveitingar ráðherra

Umfjöllun í fjölmiðlum:

Viðskiptaráð vill aðhald í styrkveitingum - mbl.is, 31. október 2024

Tengt efni

Tvær af hverjum þremur loftslagsaðgerðum hafa neikvæð efnahagsleg áhrif

Viðskiptaráð hefur metið efnahagsleg áhrif 150 loftslagsaðgerða stjórnvalda. …
18. september 2024

Allt að 43% lægra matvöruverð án tolla

Afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%. Þetta kemur fram í nýrri …
8. ágúst 2024

Hvernig stóð ríkisstjórnin sig í vetur?

Viðskiptaráð hefur gert úttekt á efnahagslegum áhrifum þingmála …
4. júlí 2024