Reglubyrði íslenskra fyrirtækja vegna EES-samningsins fer vaxandi. Gullhúðun í formi séríslenskra viðbótarkvaða þyngja þessa byrði enn frekar. Tillögur að lausn liggja nú fyrir en pólitískan vilja þarf til að hrinda þeim í framkvæmd. Þetta kom fram í erindi Maríu Guðjónsdóttur, lögfræðings Viðskiptaráðs, á Sjávarútvegsráðstefnunni í ár.
Í erindinu fjallaði María um mikilvægi EES-samningsins fyrir Ísland sem veitir íslenskum fyrirtækjum aðgang að þúsundfalt stærri markaði og gerir þeim kleift að stunda starfsemi sína nær hindranalaust á Evrópska efnahagssvæðinu. Samningurinn er ekki síður mikilvægur fyrir sjávarútveginn, því þrátt fyrir að fiskveiðar falli utan gildissvið samningsins hefur útvíkkun EES-samstarfsins og ný svið samvinnu áhrif á æ fleiri þætti samfélagsins. Áhrifin sjást einna helst í gegnum matvælalöggjöfina, hollustuhætti og mengunarvarnir, loftslag og umhverfi og svo áhrif EES-samningsins á fyrirtækjarekstur almennt.
Frá gildistöku EES-samningsins hefur reglubyrði farið vaxandi og eru nú í gildi 6.471 reglugerðir og tilskipanir á grundvelli samningsins. Munar þar mest um fjölgun reglugerða en hlutfall þeirra af fjölda EES-gerða sem íslenskum stjórnvöldum ber að innleiða í íslenskan rétt fer sífellt vaxandi.
En það er ekki einungis reglubyrði á grundvelli samningsins sem er að þyngjast, íslensk stjórnvöld hafa til viðbótar aukið reglubyrðina enn frekar með gullhúðun. Meðal annars með því að setja ítarlegri reglur umfram lágmarkskröfur, útvíkka gildissvið, nýta ekki undanþágur, viðhalda strangari skilyrðum í lögum, setja strangari viðurlög og innleiða EES-gerðir of snemma. Gullhúðun skaðar samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og rýrir hag almennings um leið og hún vinnur gegn markmiðum EES-samningsins um að samræma leikreglur á milli landa og örva þannig efnahagsleg tengsl og viðskipti.
Vandamálið er víðtækt hér á landi, sem dæmi má nefna að gullhúðun var beitt í 41% tilvika á málefnasviði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins 2012-2022 og í 33% tilvika á 143. - 145. löggjafarþingi. Þá hafa stjórnvöld sjálf og hagsmunaaðilar ítrekað vakið máls á vandamálinu. Við því hefur verið brugðist með breytingum á regluverki við innleiðingu EES-gerða, en þær hafa ekki dugað til þrátt fyrir að þær áskilji að ef ætlunin sé að gullhúða þurfi að tilgreina og rökstyðja hvers vegna það er gert. Því var það niðurstaða starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðun að bæta þyrfti verklag við innleiðingu EES-gerða í landsrétt.
Tillögur að útbótum liggja fyrir
Starfshópurinn lagði til aukið gagnsæi og skýrari kröfur um að áformaskjöl og greinargerðir lagafrumvarpa innihaldi lýsingu á innleiðingu, hvort tilskipun veiti svigrúm við innleiðingu og hvernig vikið er frá lágmarkskröfum hennar. Einnig þurfi að gera kröfu um rökstuðning og mat á áhrifum og kostnaði. Þegar EES-gerðir eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum eigi að líta til sambærilegra sjónarmiða. Þá eigi hvert ráðuneyti að leggja mat á umfang gullhúðunar á sínu málefnasviði og taka upplýsta afstöðu til þess hvort ástæða sé til að afhúða gildandi löggjöf.
Að lokum áréttaði María að grundvallarforsenda þess að koma í veg fyrir gullhúðun sé að ráðherrar og alþingismenn séu með skýra stefnu í þessum málum. Það sé ljóst að breytingar á regluverki og verklagi einu dugi ekki til, þær séu til þess fallnar að sporna gegn því að EES-gerðir séu innleiddar með íþyngjandi hætti en að endingu sé ábyrgðin ráðherra og Alþingis.
Aðrir þátttakendur á málstofunni voru Hrönn Jörundsdóttir, forstjóri MAST, Heiðmar Guðmundsson, lögfræðingur hjá SFS og Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis. Að loknum erindum fóru fram líflegar pallborðsumræður.
Hafsjór af gulli - erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni 2024 (PDF)