Ísland fellur niður í 21. sæti í árlegri úttekt IMD á samkeppnishæfni ríkja
Niðurstöður úttektar IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni ríkja liggja nú fyrir. Eftir nokkrar sveiflur síðustu ár lækkar Ísland um eitt sæti á listanum að þessu sinni og er í 21. sæti, mitt á milli Kína og Nýja-Sjálands. Eftir hækkun um heil fjögur sæti árið 2019 eru vonbrigði að sú þróun hafi ekki haldið áfram.
Í efnahagslegri frammistöðu lækkar Ísland úr 54. í 58. sæti en það skrifast að miklu leyti á kólnun hagkerfisins 2019 og verri atvinnuhorfur. Hvað skilvirkni hins opinbera varðar lækkar Ísland um tvö sæti í það sautjánda. Ástæðan er samspil nokkurra þátta, t.d. lakari afkomu hins opinbera og verra mats á regluverki. Skilvirkni atvinnulífs heldur áfram að hækka og er Ísland þar í 15. sæti sem öðru fremur má þakka hærra mati á stjórnarháttum. Loks fellur Ísland aftur niður í 17. sæti í flokki innviða vegna samspils ólíkra þátta þar sem Ísland hækkar þrátt fyrir allt í þremur af fimm undirflokkum.
Singapúr heldur toppsæti sínu í ár en landið hefur um árabil verið mörgum fyrirmynd þegar kemur að samkeppnishæfni, t.d. varðandi alþjóðaviðskipti, menntun og tæknivæðingu. Næst á eftir kemur Danmörk í 2. sæti sem skýst upp um heil sex sæti frá því í fyrra vegna sterkar stöðu efnahagsmála og samspils fjölda annarra þátta. Þar á eftir koma Sviss (3. sæti), Holland (4. sæti) og Hong Kong (5. sæti).
Strax á hæla Hong Kong koma Svíþjóð (6. sæti) og Noregur (7. sæti) sem hækka um nokkur sæti á listanum. Þá er Finnland í 15. sæti og hækkar um tvö sæti. Þetta þýðir að Norðurlöndin eru öll ofar á listanum en Ísland og hækka á meðan Ísland lækkar. Ísland hefur aldrei dregist jafn mikið aftur úr Norðurlöndunum og stendur þeim að baki í flestum undirþáttum. Verður það að teljast talsvert áhyggjuefni þar sem við viljum almennt bera okkur saman við hin Norðurlöndin.
Hægt er að nota niðurstöður úttektarinnar til að stefna markvisst að því að bæta samkeppnishæfnina og standa jafnfætis Norðurlöndunum. Byggja þarf áfram upp og hlúa að styrkleikum landsins, t.d. innviðum, háu menntunarstigi og sveigjanleika í atvinnulífinu. Einnig þarf að vinna í veikleikum eins og skorti á erlendri fjárfestingu og skilvirkni samkeppnislöggjafar.
Kynning Viðskiptaráðs á helstu niðurstöðum
Skýrsla IMD um samkeppnishæfni Íslands
Úttekt IMD á samkeppnishæfni þjóða er ein sú umfangsmesta í heimi og hefur verið framkvæmd í 32 ár. Úttektin samanstendur af 255 mælikvörðum. Tveir þriðju þeirra eru í formi haggagna sem safnað er af IMD og samstarfsaðilum í hverju ríki fyrir sig. Þriðjungur byggir á alþjóðlegri stjórnendakönnun sem þúsundir stjórnenda fyrirtækja og annarra samtaka taka þátt í.