Viðskiptaráð Íslands

Ísland upp um fjögur sæti í samkeppnishæfni

Ísland fer upp um fjögur sæti milli ára í samkeppnishæfniúttekt IMD og situr nú í 20. sæti, af þeim 63 ríkjum sem úttektin nær til, eftir að hafa lækkað um fjögur sæti á síðasta ári. Í fyrra var niðurstaðan nokkur vonbrigði þar sem Ísland hafði skriðið upp listann fjögur árin þar á undan. Það má því segja að vonir hafi glæðst á ný.

Ísland hækkar í öllum meginþáttum úttektarinnar en er þó enn alls staðar undir meðaltali hinna Norðurlandanna. Þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu fer Ísland upp um þrjú sæti í það 54. að þessu sinni. Meiri hagvöxtur en í öðrum ríkjum skýrir þá þróun að miklu leyti. Skilvirkni hins opinbera eykst einnig milli ára og fer Ísland þar upp um eitt sæti og ræður þar miklu jákvæðara mat stjórnenda á stofnanaumgjörð. Skilvirkni atvinnulífsins batnar milli ára og situr Ísland nú í 19. sæti, þökk sé m.a. aukinni framleiðni og bættum stjórnarháttum. Loks hækkar Ísland um fjögur sæti og upp í það 13. í samfélagslegum innviðum þar sem margir ólíkir þættir spila saman.

Til að auka samkeppnishæfni þarf stefnumótun atvinnulífs og stjórnvalda að takast á við áskoranir, hlúa að styrkleikum og bæta úr veikleikum. Umbætur í skattamálum, endurskoðun stuðningskerfis nýsköpunar, lækkun vaxta og bætt viðskiptatengsl við umheiminn eru á meðal þess sem myndi stuðla að aukinni samkeppnishæfni. Um þetta var nánar fjallað í kynningu hagfræðings Viðskiptaráðs á morgunfundi ráðsins og Íslandsbanka nú í morgun.

Útkoma annarra ríkja

Breytingar og órói í alþjóðastjórnmálum og -viðskiptum lita niðurstöðurnar í ár. Bandaríkin, sem trónuðu á toppi listans í fyrra falla um tvö sæti og víkja fyrir Singapúr sem kemst aftur á toppinn. Hong Kong stendur í stað í öðru sæti en Sviss fer upp um eitt sæti og endar í því fjórða. Holland lækkar um tvö sæti úr fjórða í það sjötta.

Ísland stendur Norðurlöndunum enn nokkuð að baki og má þar meðal annars telja smæð hagkerfisins, stofnanir og tækniinnviða meðal áhrifaþátta. Danmörk er enn efst af Norðurlöndunum og lækkar um tvö sæti (8. sæti), Svíþjóð er næst og stendur í stað (9. sæti). Noregur fellur um þrjú sæti (11. sæti). Finnland fer upp um eitt sæti, úr 16. í 15. og sem fyrr segir er Ísland neðst af Norðurlöndunum í 20. sæti.

Hér má sjá kynningu Viðskiptaráðs á stöðu Íslands

Hér má sjá skýrslu IMD um samkeppnishæfni Íslands

Tengt efni

Samkeppnishæfni Íslands minnkar á milli ára

Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfni og situr í 17. sæti af 67 …
20. júní 2024

Kynning á samkeppnishæfniúttekt IMD 2023

Kynning Viðskiptaráðs á niðurstöðum samkeppnishæfniúttektar IMD háskóla

Með skilvirkt skattkerfi að leiðarljósi

Erindi Öglu Eirar Vilhjálmsdóttur, lögfræðings Viðskiptaráðs, á Skattadeginum …
19. janúar 2022