Viðskiptaráð Íslands

Hagvöxtur eða hugmyndafræðilegir sigrar?

Allt frá hruni bankakerfisins hefur legið fyrir að mikil uppstokkun væri framundan í ríkisfjármálum. Til að brúa þá gjá sem myndast hefur í rekstri hins opinbera þurfa stjórnvöld að auka skatttekjur og skera niður útgjöld. Hvorug þessara aðgerða er vinsæl enda fela báðar í sér rýrnun lífsgæða fyrir einhverja hópa samfélagsins. Í aðgerðum til úrlausnar verða stjórnvöld að sýna kjark og framsýni til að tryggja að þær aðgerðir sem ráðist er í skerði ekki möguleika til vaxtar hagkerfisins til frambúðar.

Áhrif hærri fjármagnstekjuskatts
Þrátt fyrir að hamingja ráðist ekki af fjármunum einum saman er undirstaða góðra lífskjara fólgin í hárri framleiðni og verðmætasköpun, nánar tiltekið hagvexti. Í grunninn eru það þrír þættir sem stuðla að langtímahagvexti: Fjármagn, mannauður og tækniframfarir. Óhætt er að segja að á undanförnum mánuðum hafi verið vegið að þeim fyrstnefnda , þ.e. fjárfestingarumhverfinu. Sú stefna virðist hafa verið mörkuð af stjórnvöldum að jafna eigi skattgreiðslur af launatekjum og fjármagnstekjum. Liður í því hefur verið að hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% í 18%, eða um 80% á síðustu 15 mánuðum. Hins vegar ber þessi stefnumörkun með sér skeytingarleysi við eðli þeirra skattstofna sem liggja þar að baki og ber með sér að verið sé að vinna hugmyndafræðilega sigra frekar en að leita eftir hagfelldustu leið til lausna. Eðlilegar ástæður liggja að baki því að fjármagnstekjuskattur skuli vera lægri en tekjuskattur og eru þær tíundaðar nánar í skoðuninni.

Hækkun letur fjárfestingu
Hækkun fjármagnstekjuskatts dregur úr hvata til fjárfestingar sem er forsenda endurreisnar atvinnulífsins. Auka þarf fjárfestingu sem getur aðeins átt sér stað með tvennum hætti. Annars vegar má nýta innlendan sparnað til fjárfestinga og hins vegar má leita eftir erlendri fjárfestingu. Hvort tveggja verður fyrir umtalsverðum neikvæðum áhrifum af hærri fjármagnstekjuskatti á tíma þegar þörfin hefur sjaldan eða aldrei verið brýnni.

Skoðunina í heild sinni má nálgast hér

Tengt efni

Veðjað á rangan hest: Umgjörð veðmálastarfsemi á Íslandi

Þótt veðmálastarfsemi sé sniðinn þröngur stakkur hérlendis veðja fáar þjóðir …
12. september 2024

Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti

Opinbert eftirlit stendur samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi …
27. ágúst 2024

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mars 2024