Viðskiptaráð Íslands

Skýrsla Viðskiptaráðs um tvísköttun

Viðskiptaráð Íslands kynnti í dag skýrslu um tvísköttun. Í skýrslunni fjallar Viðskiptaráð um gerð tvísköttunarsamninga og þá hagsmuni sem eru í húfi vegna mikilvægi þeirra í alþjóðaviðskiptum. Að mati ráðsins hefur Ísland ekki gert nægilega marga tvísköttunarsamninga við önnur ríki og mikilvægt er að bæta úr því til að liðka fyrir fjárfestingum inn í landið og út úr því. VÍ áréttar að gildir tvísköttunarsamningar séu ein af meginforsendum þess að viðskipti milli landa verði arðbær og að fyrirtæki staðsetji höfuðustöðvar sínar eða dótturfélög á Íslandi. Mikilvægi þess að ríki hafi yfir að ráða öflugu neti tvísköttunarsamninga verður því seint ofmetið. 

Séu tvísköttunarsamningar ekki í gildi milli landa hafa þróast einhliða aðferðir til að koma í veg fyrir tvísköttun einstaklinga og fyrirtækja. Í skýrslunni eru þessar aðferðir reifaðar og lagt til að svokallaðri undanþáguaðferð verði beitt sem aðalaðferð af íslenskum skattayfirvöldum við að aflétta tvísköttun. Vegna smæðar landsins geta verið raunhæf vandamál því tengd að fá önnur ríki til samningaviðræðna. Sökum þessa leggur Viðskiptaráð til að athugaðir verði möguleikar þess að óska viðræðna og fara út í þær í samfloti við önnur ríki.

Smelltu hér til að sækja skýrsluna á PDF-sniðmáti

Helstu fréttapunktar:

  • Viðskiptaráð áréttar mikilvægi þess að tvísköttunarsamningum Íslands verði fjölgað enda hefur Ísland aðeins gert 23 gilda tvísköttunarsamninga á sama tíma og Danir hafa gert 91 gildan tvísköttunarsamning.
  • Fjölgun tvísköttunarsamninga myndi liðka fyrir fjárfestingum erlenda aðila inn í landið og innlendra aðila í útlöndum.
  • Við gerð tvísköttunarsamninga skal leggja áherslu á ríki þar sem Íslendingar eiga þegar viðskipti við, t.a.m. Japan og í kjölfarið er eðlilegt að leggja áherslu á fyrirsjáanlega framtíðarmarkaði íslenskra fyrirtækja.
  • Lagt er til að tekið verði til endurskoðunar hvernig komið er í veg fyrir tvísköttun arðstekna.
  • Viðskiptaráð leggur til að athugaðir verði möguleikar þess að fara í tvísköttunarviðræður í samfloti við önnur ríki, t.a.m. aðrar Norðurlandaþjóðir.

Nánari upplýsingar veitir

Halldór Benjamín Þorbergsson, staðgengill framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, í síma 510-7100 eða á netfangið halldor@vi.is.

Tengt efni

The Icelandic Economy – H1 2024

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan …

Skýrsla Viðskiptaþings 2024

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til …
8. febrúar 2024

The Icelandic Economy – 4F 2023

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic …