Viðskiptaráð Íslands

Icelandic Economy 2F 2023

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan er á ensku og fjallar um íslenskt efnahagslíf í víðu samhengi.

Í skýrslunni er að vanda fjallað um hagþróun síðustu mánaða, skammtímahagvísa, þróun í utanríkisviðskiptum, vinnumarkaðinn, samsetningu hagkerfisins og stofnanaumgjörð, svo eitthvað sé nefnt.

Áætlað er að hagvöxtur ársins 2022 hafi verið sá mesti í 15 ár, eða um 6,4%. Hagvöxtinn má m.a. rekja til kröftugrar einkaneyslu og viðsnúnings í viðskiptum við útlönd auk ferðaþjónustunnar. Samhliða þessum myndarlega bata jókst þó einnig spenna á vinnumarkaði og fasteignamarkaði sem jók verðbólguþrýsting hér á landi. Verðbólga á mælikvarða vísitölu neysluverðs mælist nú 9,9% og hækkaði um 1,3% í þessum mánuði en spár greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir minni hækkun. Þrátt fyrir kólnun undanfarna mánuði leikur húsnæðismarkaðurinn þar enn lykilhlutverk og skýrir um þriðjung af verðbólgunni sem þó mælist á á breiðari grunni en áður. Landsmenn hafa ekki farið varhluta af viðbrögðum Seðlabankans en hann hefur nú hækkað meginvexti tólf sinnum í röð og standa vextirnir nú í 7,5%.

Smelltu hér til að lesa skýrsluna

1cb114a5-038d-459f-ac8b-40ed817d311c

Þriðji og síðasti fasi í endurflokkun íslenska hlutabréfamarkaðarins upp í flokk nýmarkaðsríkja átti sér stað þann 20. mars síðastliðinn og var velta í Kauphöllinni þá tæplega 14 milljarðar króna. Ætla má að uppfærsla FTSE Russel á íslenska markaðnum hafi í för með sér aukin tækifæri skráðra íslenskra fyrirtækja til fjármögnunar og veki einnig áhuga erlendra fjárfesta.

Stærð fjármálakerfisins sem hlutfall af landsframleiðslu var 411% árið 2022. Bankar og lífeyrissjóðir eiga stærstan hluta eigna í fjármálakerfinu og fara þeir síðarnefndu með 43% af heildareignum. Takmörkuð vanskil heimila gefa til kynna að staðan í hag- og fjármálakerfinu sé góð en áfram hefur dregið úr skuldavexti heimila og mælist hann nú lítillega neikvæður að raungildi. Vert er að nefna að skuldavöxtur fyrirtækja hefur aftur á móti sótt í sig veðrið, þótt raunvöxtur hans sé enn mjög takmarkaður. Skuldsetning einkageirans er jafnframt lítil í sögulegu samhengi. Hækkandi vextir og aukin verðbólga þyngja þó róður heimilanna en á móti kemur að laun hafa hækkað, atvinnustig er hátt og hagvöxtur mikill. Greiðsluerfiðleikar í fjármálakerfinu eru enn mjög takmarkaðir og fjármálafyrirtæki ættu að hafa bolmagn til úrræða ef vanskil aukast.

Íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum miklar breytingar á síðustu árum og fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að upplýsingagjöf til erlendra aðila sé öflug. Skýrsla Viðskiptaráðs er því send til fyrirtækja, alþjóðastofnana, opinberra aðila og viðskiptaráða víðs vegar um heiminn.

Viðskiptaráð býður upp á kynningar á skýrslunni. Nánari upplýsingar veita hagfræðingar ráðsins, Elísa Arna Hilmarsdóttir (elisa@vi.is) og Gunnar Úlfarsson (gunnaru@vi.is).

Tengt efni

The Icelandic Economy – H1 2024

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja útgáfu af The Icelandic Economy. Skýrslan …

Skýrsla Viðskiptaþings 2024

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til …
8. febrúar 2024

The Icelandic Economy – 4F 2023

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic …