Viðskiptaráð fagnar því að í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ársreikninga sé félögum heimilað að semja ársreikning og samstæðureikning á ensku.
• Viðskiptaráð fagnar því enn fremur að ekki sé gert ráð fyrir að fyrirtæki þurfi sérstakt leyfi til að nýta sér þessa undanþáguheimild heldur sé það félaganna sjálfra að meta hvort þessi þörf sé til staðar.
• Viðskiptaráði þykir hins vegar miður að ekki hafi verið tekið tillit til ábendinga ráðsins í meiri mæli en gert er í frumvarpinu.
• Ráðið kallar eftir því að félög sem telja þörf á að semja ársreikning eða samstæðureikning á ensku fái til þess heimild og að jafnframt verði aflétt að fullu þeirri kvöð að þau þurfi að þýða ársreikninginn.
• Kröfur um þýðingu þeirra eru óþarfa álögur á íslenskt atvinnulíf og getur kostnaður fyrirtækja við slíkar þýðingar hlaupið á milljónum króna.
• Slíkar álögur eru til þess fallnar að draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, sem ýtir öðru fremur undir að fólk og fyrirtæki velji önnur og samkeppnishæfari lönd undir sína starfsemi.