Frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir markar mikilvægt skref í endurskoðun stuðningskerfa vinnumarkaðarins. Brýnt er að breytingarnar stuðli bæði að skilvirkara kerfi og auknu gagnsæi, þannig að fjármunir nýtist sem best og skili ávinningi fyrir atvinnulíf og samfélag í heild.

Samtök atvinnulífsins, SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráð Íslands (samtökin) hafa tekið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir sem birt var á samráðsgátt stjórnvalda 15. október sl. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, m.a. er lagt til að hámarkslengd þess tímabils sem atvinnuleysistryggingar eru greiddar verði stytt um tólf mánuði þannig að heimilt verði að greiða atvinnuleysistryggingar í samtals 18 mánuði í stað 30 mánaða. Þá eru lagðar til ýmsar breytingar til einföldunar á stjórnsýslu atvinnuleysistrygginga auk þess sem lagt er til að desemberuppbót atvinnuleysistrygginga verði lögfest.
Samtökin taka undir mikilvægi þess að stuðla að aukinni virkni hjá þeim hópi sem er útsettur fyrir langtímaatvinnuleysi – áhersla atvinnuleysistryggingakerfisins á að vera á aðstoð við endurkomu atvinnuleitenda á vinnumarkaðinn. Rannsóknir hafa sýnt fram á að meðaltímalengd atvinnuleysis helst í hendur við tímalengd atvinnuleysisbóta, en því lengur sem einstaklingar eru fjarverandi af vinnumarkaði þeim mun erfiðari getur endurkoma reynst. Þá má benda á, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að um 55% þeirra einstaklinga sem fullnýttu rétt sinn til atvinnuleysisbóta á árunum 2023 og 2024 voru orðnir þátttakendur á vinnumarkaði í janúar 2025. Bótatímabil atvinnuleysistrygginga er hvergi jafn langt á Norðurlöndunum og á Íslandi og eðlilegt að það verði fært nær því sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar. Þá telja samtökin breytingar á lágmarksskilyrði fyrir rétti atvinnuleysistrygginga vera til bóta.
Samtökin telja aftur á móti varhugavert að desemberuppbót atvinnuleysistrygginga verði lögfest, en slíkt jafngildir í rauninni því að grunnbætur atvinnuleysisbóta hækki að jafnaði um 2,5%-3% á mánuði fyrir þá sem fá uppbótina greidda sem kemur til viðbótar við aðrar hækkanir sem kunna að verða á fjárhæð atvinnuleysistrygginga. Samtök atvinnulífsins hafa áður kallað eftir því að atvinnuleysistryggingasjóður verði lagður niður í núverandi mynd. Aftur á móti telja samtökin afar mikilvægt að tryggt verði fullnægjandi gagnsæi um ráðstöfun atvinnutryggingagjalds og jafnframt að tryggð verði aðkoma aðila vinnumarkaðarins að eftirfylgni með markmiðum um aukna virkni og endurkomu á vinnumarkað.
Áhrif á tryggingagjald
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að áætluð heildarfjárhagsáhrif á ríkissjóð vegna frumvarpsins verði útgjaldalækkun um rúmlega 5.800 til 6.400 milljónir á ársgrundvelli, að teknu tilliti til útgjalda vegna fyrirhugaðrar lögfestingar desemberuppbótar og einskiptiskostnaðar hjá Vinnumálastofnun vegna innleiðingar á þeim breytingum sem felast í frumvarpinu.
Er þannig áætlað að stytting bótatímabils leiði til árlegrar útgjaldalækkunar upp á 6.000 til 6.600 milljónir króna og að útgjaldalækkun vegna þrengri lágmarksskilyrða ávinnslutímabils verði allt að 200 milljónir króna á ári. Þá er gert ráð fyrir 400 til 450 milljón króna útgjaldaaukningu vegna desemberuppbótar1. Að mati samtakanna hljóta fyrirhugaðar breytingar að skapa forsendur fyrir lækkun atvinnutryggingagjalds.
Atvinnutryggingagjaldið er nú 1,35% af gjaldstofni tryggingagjalds. Miðað við áætlaðar tekjur ríkissjóðs af tryggingagjöldum skv. fjárlagafrumvarpi vegna ársins 2026 ættu að vera forsendur fyrir því að það lækki um hátt í fjórðung úr prósenti vegna þeirra breytinga sem boðaðar eru. Þó ber að hafa í huga að atvinnustig sveiflast með hagsveiflunni. Þannig er atvinnuleysi meira þegar hart er í ári en minna þegar hagkerfið er í þenslu. Til þessara þátta þyrfti að taka tillit við endanlegt mat á svigrúmi til lækkunar atvinnutryggingagjaldsins vegna fyrirhugaðra breytinga á atvinnuleysistryggingum. Aftur á móti má vera ljóst að stytting bótatímabilsins ætti að öðru jöfnu að lækka jafnvægisgjald vegna atvinnutrygginga.
Samtökin hafa fagnað því forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að hagræða í ríkisrekstri og forgangsraða í opinberri þjónustuveitingu. Að sama skapi hafa samtökin fagnað viðleitni stjórnvalda til að auka verðmætasköpun í atvinnulífinu. Samtökin vilja því eindregið hvetja til þess að stjórnvöld láti athafnir fylgja orðum og sjái til þess að vænt hagræðing af fyrirliggjandi lagafrumvarpi skili sér til atvinnurekenda sem greiða atvinnutryggingagjald.
Að lokum vilja samtökin lýsa sig reiðubúin til frekara samráðs og samtals vegna fyrirhugaðrar lagasetningar.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.